Þau eru mörg hver ansi skamvinn, hjónaböndin í Hollywood. Kannski tekur það á að vera sífellt undir vökulum augum almennings og fjölmiðla. Ég veit það ekki. Hef ekki prófað. Ég hef að vísu oft óskað mér eiginmanns úr borg kvikmynda, frægðar og frama. Einhvern frægan og forríkan, að sjálfsögðu. Bradley Cooper, Leo DiCaprio, Gordon Ramsay – já, kona má láta sig dreyma.
Að hjónaböndunum:
Drew Barrymore og Tom Green voru gift í 9 mánuði. Þau töluðu aldrei mikið um skilnaðinn og sögðu ástæðu hans vera ósættanlegan ágreining.
Chad Michael Murray og Sophia Bush voru hjón í 5 mánuði. Þau sögðu frá því seinna meir, að þau hefðu bara verið krakkavitleysingar sem vissu lítið út í hvað þau voru að fara. Á því tímabili sem hjónabandi þeirra lauk gengu sögur þess efnis að Chad hefði staðið í framhjáhaldi – en Sophia sótti um skilnað vegna ,,svika”.
Hjónaband Bradley Cooper og Jennifer Esposito entist í fjóra mánuði. Bradley hefur lítið viljað ræða um þennan hjúskap sinn, að hans sögn var þetta bara eitthvað sem skeði.
Kid Rock og Pamela Anderson áttu góðan fjögurra mánaða sprett.
Nicolas Cage og Lisa Marie Presley voru gift í þrjá mánuði. Þau hafa lítið rætt bæði um hjónband sitt og meintan skilnað. Að sögn Lisu hefðu þau aldrei átt að gifta sig.
Kim Kardashian og Kris Humphries áttu stutt og laggott 72 daga hjónaband. Fegin var ég, Kanye er miklu heitari og harðari.
Mario Lopez og Ali Landry voru gift í heilar tvær vikur. Mario hélt framhjá. Sagan búin.
Eddie Murphy og Tracey Edmonds voru hjón í tvær vikur.
Carmen Electra og Dennis Rodman áttu níu daga sæla. Hvorki fleiri né færri.
Britney Spears á svo eitt stysta hjónaband sem vitað er um. Það taldi 55 klukkustundir og var ungfrú Spears víst í annarlegu ástandi þegar ákvörðunin um hjónaband var tekin.
Tengdar greinar:
10 vísindalegar staðreyndir um hamingjurík hjónabönd
Lykillinn að 75 ára hjónabandi – „Rífumst mikið og sættumst svo“
8 hlutir sem auka líkur á farsælu hjónabandi
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.