11 ára gamalli stelpu var meinaður aðgangur á sjávarsafn í Savannah í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir því að stúlkan mátti ekki fara inn var að sögn starfsmanns sú að hjólastóll hennar myndi skíta út teppið á gólfi safnsins.
Lexi Haas ætlaði að fara með fjölskyldu sinni og skoða dýrin á safninu þann 7.júlí þegar henni var sagt að hún þyrfti að skilja sinn hjólastól eftir og fara í annan hjólastól sem safnið átti til þess að fá að fara inn. Þar sem Lexi getur ekki setið án þess að hafa stuðning gat hún ekki notað hjólastól safnsins vegna þess að hann hafði engin belti.
Starfsmaður safnsins stakk þá upp á því að Lexi myndi bíða fyrir utan meðan fjölskylda hennar skoðaði safnið og horfa á myndband en fjölskylda hennar sætti sig ekki við það og yfirgaf safnið.
“Við gátum ekki skoðað safnið og dóttir mín var mjög sár.” Segir faðir stúlkunnar. Safnið hefur gefið út opinbera fréttatilkynningu varðandi málið og beðist afsökunar á hegðun starfsmannsins, hann hafi misskilið reglur safnsins. Fjölskylda stúlkunnar tók afsökunarbeiðnina gilda en vill nota þetta atvik til þess að vekja athygli á réttindum fatlaðra.
Lexi er með taugasjúkdóm og á því erfitt með að tala en hún getur tjáð sig og áttar sig á öllu sem gerist í kringum hana. Faðir hennar segir:
“Okkur þykir gaman að skoða söfn en við viljum að allir fái að njóta þeirra.”