
Þessa dagana er dóttir mín að byrja í fimleikum og í fyrsta tímanum þá mundi ég eftir atviki sem átti sér stað þegar ég var á Bolungarvík þegar ég var svona 13 ára.
Við vorum á íþróttamóti og ég var að koma í fyrsta skipti til Bolungarvíkur og að deyja úr feimni, því ég var mjög feimin og bældur krakki. Kannski vegna þess að ég var alin upp í fámennri sveit og ekki vön mikið af fólki.
En allavega þá var ég um kvöldið að rölta um svæðið og kom svo í einhvern sal þar sem ég sá þessa risastóru bláu dýnu. Ég leit í kringum mig og ákvað að taka tilhlaup og kasta mér á dýnuna.
Þetta var ekki góð hugmynd, því stóra dýnan var bara alls ekki dýna, heldur yfirbreiðsla á einhverjum húsgögnum og æfingatækjum. Ég held að ég hafi næstum því brotið einhver bein og ég held að egóið mitt hafi laskast álíka mikið.
Seinheppna ég…..

Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.