Einelti er svo ógeðslegt og á bara ekki að eiga sér stað, hvort sem það er á meðal barna eða fullorðinna. Börn eru kannski ekki jafn upplýst eins og fullorðna fólkið en við, fullorðna fólkið, eigum að kenna þeim að koma ekki illa fram við aðra. Við eigum að kenna þeim að það er aldrei í lagi að skilja útundan, stríða, taka þátt eða þegja um einelti. Aldrei!
Þið verðið bara að afsaka stóru orðin en ég er bara miður mín eftir að lesa þessa færslu um hinn 12 ára gamla Drayke. Þetta er því miður ekki einsdæmi. Þetta gerist alltof oft og hefur gerst hér á landi. Þetta MÁ ekki gerast. Það á enginn að upplifa það, aðeins barn að aldri, að finnast lífið ekki vera þess virði að lifa því. ENGINN!
Hér er þessi færsla um Drayke, sem móðir hans skrifaði, þýtt af mér eftir bestu getu:
Þetta…. Þetta er afleiðing eineltis. Fallegi drengurinn minn var að berjast við eitthvað sem ég, sem foreldri, gat ekki bjargað honum frá. Þetta er raunverulegt, þögult og það er nákvæmlega ekkert sem maður, sem foreldri, getur gert til að taka þennan djúpa sársauka frá barninu þínu. Það voru engar vísbendingar um hvað var í gangi, bara svo særandi orð frá öðrum sem að lokum tók Drayke OKKAR frá þessum grimma stað.
Hann var 12…. 12 ára. Hvernig kemur sú hugsun í kollinn á 12 ára barni að lífið sé svo erfitt að hann þurfi hætta að lifa því… 💔💔💔 Þessi drengur þekkti ást, hvern einasta dag lífs síns, hann var heimurinn okkar, heimurinn minn, heimur föður síns, heimur systra sinna… allt okkar líf snérist um þennan dreng. Ef maður þekkti Drayke, elskaði maður hann, hann var nærgætinn og hjálpsamur og fyndinn og þessi bláu augu hans hefðu getað sigrað heiminn. Hann er strákurinn minn, manneskjan sem kom til mín mjög reglulega til að knúsa mig og sagði mér 100384849 sinnum á dag „Mamma, ég bara elska þig“. Með körfubolta og jazz á heilanum. Hann sagði alltaf við pabba sinn og systur að hann ætlaði að verða lágvaxnasta NBA stjarnan, svo hann gæti farið í lið með Donovan Mitchell og þeir gætu tekið körfuboltann með trompi.
Jæja elsku drengurinn minn, þú verður alltaf í bænum mínum, leiðsögumaður pabba þíns þegar hann er að veiða og þú ert nú að eilífu verndari stóru systra þinna.. Ég er ekki viss um hvernig ég á að halda áfram án þín. Ég ætlaði að eyða restinni af lífi mínu með þér, en í staðinn eyddir þú restinni af þínu með mér.
Hjarta mitt er í molum, ég veit ekki hvernig ég á að laga það, eða hvort ég geti það, en ég mun eyða hverri mínútu í að kenna góðvild í minningu uppáhalds stráksins míns. Tilgangur hans hér á jörð var að kenna góðvild, sýna ást og það gerði hann svo sannarlega. Hann vingaðist við hvern sem er svo allir ættu sér vin og þú varst vinur að eilífu.
Ég get ekki byrjað að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir fólkið mitt, fyrir símtölin, öll skilaboðin. Ég reyni að svara, ég geri það en ég veit bara ekki hvernig ég á að gera það. Ég veit ég mun segja ykkur að halda fast utan um börnin ykkar og að kenna þeim að elska heitt og lifa. Kenndu þeim góðvild og #doitfordrayke
Við erum eflaust öll sammála um það að svona á ekki að gerast í heiminum. HVERGI! Það sem ég og þú getum gert er að kenna börnunum okkar góðvild. Að passa upp á að særa ekki hjörtu. Að allir eiga rétt á sér og sinni rödd. Virðum aðra og sýnum alltaf góðvild og komum vel fram við annað fólk. Eitt bros getur skipt máli.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.