Engin aukakíló um þessi jól. 12 ráð að léttara lífi yfir jólin…..
Það voru tveir dagar til jóla og jólakjóllinn hékk nýpressaður framan a svefnherbergisfataskápnum. Ég hafði keypt hann árinu áður rétt fyrir jólin eftir að hafa létt mig um 5kg á 2 vikum. Kjóllinn sem var úr fínu gráu flaueli var eins og málaður utan á mig. Um þau jól notaði ég kjólinn aðeins einu sinni, því um leið og ég réðst í jólamatinn eftir megrunina miklu sprakk kjóllinn utan af mér. Í þetta skiptið var ég ákveðin í að standast allar þær freistingar sem jólunum fylgja og halda í burtu kílóunum sem ég var nýbúin að missa.
Það var komið að aðfangadagskveldi og eins og hefð var á klæddi ég mig í jólakjólinn áður en haldið var í kirkju. Kjóllinn passaði fullkomlega og þá stundina fannst mér þjáningin sem fylgdi megruninni vel þess virði.
Kvöldmaturinn byrjaði á skjaldbökusúpu með heimabökuðu brauði. Síðan tók við gæs og önd í appelsínusósu með öllu því meðlæti sem því fylgir. Eftirmaturinn var rjómarönd í karamellusósu. Það var eins og kú hefði verið sleppt á beit eftir margra mánaða svelt, ég borðaði ekki bara yfir mig, ég borðaði meira en allir fjölskyldumeðlimirnir samanlagt. Kjóllinn þrengdist með hverjum munnbita og þegar kom að því að opna pakkana var ég komin í náttfötin. Kjóllinn var hengdur upp á herðatré og þar hékk hann þar sem eftir var ársins. Ég gerði tilraun til að komast í hann um áramótin en það gekk ekki þetta árið frekar en það fyrra.
Jólin voru bara eitt a mörgum tilefnum sem ég notaði sem afsökun til ad misbjóða líkama mínum á þennan hátt. Ég endurtók sama leik fyrir önnur tilefni eins og afmæli, brúðkaup, ferðir til útlanda og fleira. Það sem kom mér til að snúa við blaðinu var einfaldlega það að skyndikúrarnir hættu hreinlega að virka. Ég lærði það síðar að líkami okkar man þá ýmsu megrunarkúra sem við prófum í genum tíðina og lærir að verjast þeim. Því oftar sem við leiðumst inn í sama megrunar munstrið því hraðar aðlagast líkaminn þvi. Það kemur svo að því að líkaminn hættir að léttast þar sem hann er nú kominn í varnarstöðu og neitar að sleppa takinu af þeirri fitu sem við viljum losna við.
Ef þú ert þreytt á megrunarkúrum sem virka aldrei til langframa þá gætu leiðbeiningarnar sem hér fylgja komið að góðum notum yfir hátíðarnar.
1. Lærðu að njóta matarins sem þú borðar og borðaðu hægt. Með því að beina athyglinni að hverjum munnbita og taka eftir því hvernig maturinn bragðast getur þú minnkað það sem þú borðar um meira en helming. Þegar þú tekur eftir og upplifir bragð af þeim mat sem þú borðar mettar þú bragðtaugarnar á undan maganum. Prófaðu þessa aðferð á uppáhalds súkkulaðinu þínu. Taktu lítinn bita, lokaðu augunum og leyfðu súkkulaðinu að bráðna upp í þér eins lengi og þú getur og upplifðu bragðið. Ef þú leyfir þér að njóta hvers munnbita færðu nóg eftir einn til tvo bita.
2. Að njóta matarins sem þú borðar styrkir ónæmiskerfið á meðan að það fer ekki út í óhóflega neyslu. Viðamikil rannsókn kannaði viðbrögð ónæmiskerfisins á hópi einstaklinga sem borðuðu sneið af súkkulaði köku. Helmingur hópsins upplifði mikla sektarkennd á meðan að þeir borðuðu kökuna og hinn helmingurinn upplifði alsælu. Rannsóknin sýndi að þeir sem upplifðu sektarkenndina bældu ónæmiskerfið tímabundið á meðan að hinir sem upplifðu ánægjuna komu af stað hamingju hormónum sem styrktu ónæmiskerfið. Þetta sýnir að það er betra að njóta syndanna á meðan að á þeim standa í stað þess að fyllast sektarkennd.
3. Mundu að þú ert einstaklingur sem hefur val um það hvað og hversu mikið þú borðar. Hættu að kenna aðstæðum og öðru fólki um hvað þú borðar. Berðu ábyrgð á eigin hugsun og hegðun og mundu að það ert þú sem setur matinn upp í þig, enginn annar.
4. Taktu inn omega 3 olíu, 2msk a morgnana og áður en þú ferð í veislur. Þú getur líka borðað trefjar áður en þú ferð í veislur eins og Chia seeds, wheat bran og hörfræ. Bæði olían og trefjarnar jafna blóðsykurinn, minnka sykurlöngunina, metta þig og minnka þar af leiðandi matarlyst.
5. Ekki svelta þig allan daginn áður en þú ferð í jólaboð. Borðaðu reglulega 4-5 máltíðir á dag. Ef þú ert mjög svöng/ svangur missir þú gjarnan stjórnina.
6. Búðu þér til möntru sem þú endurtekur oft á dag. Til dæmis gæti mantran hljóðað eitthvað á þessa leið „Ég elska að borða hollan mat og ég hef fulla stjórn a því hvað og hversu mikið ég borða”. Það sem þú endurtekur aftur og aftur ferðu smá saman að trúa. Rótgrónar sannfæringar lita bæði hegðun þína og hugsun án þess að þú sért meðvituð/meðvitaður um það.
7. Sjáðu sjálfa/n þig fyrir þér í þínu besta formi áður en þú sest að matarborðinu. Það beinir athyglinni að því hvernig þú vilt líta út og minnkar löngunina í óhollustu. Þú getur líka hugsað um það hvernig þér kemur til með að líða eftir á ef þú borðar hóflega í samanburði við óhóflega.
8. Beindu athyglinni að þeim mat sem þú veist að er hollur fyrir þig. Í stað þess að hugsa um þann mat sem þú hefur ákveðið að forðast, hugsaðu um þá hollustu sem þú vilt borða. Það sem þú beinir athyglinni að langar þig í. Ef þú finnur til löngunar í smáköku beindu þá athyglinni að öðrum hollari mat sem þér finnst góður. Þú gætir til dæmis hugsað um ávexti, ber eða möndlur í stað smákökunnar.
9. Borðaðu einungis á matmálstímum og ekkert þar á milli. Ef þú borðar 5 máltíðir á dag borðaðu þá bara á þeim tímum sem þú ákveður fyrirfram. Ef þig langar í smáköku bíddu þá með að borða hana þar til kemur að næstu máltíð. Ef þú borðar sætindi með eða á eftir mat hefur sykurinn ekki eins mikil áhrif á insúlín framleiðslu líkamans. Of framleiðsla af insúlíni er ein aðal orsök offitu og sjúkdóma i dag. Einnig getur það að bíða með að borða sætindi þar til að næstu máltíð kemur verið góð aðferð til að sleppa sætindunum alveg þar sem að löngunin hverfur gjarnan á stuttum tíma. Löngunin gæti þá verið horfin þegar að máltíðinni kemur.
10. Notaðu Zig Zag aðferðina. Zig Zag gengur út að auka og minnka inntöku á mat eftir ákveðnu munstri. Til dæmis gætir þú borðað meira í 1-2 daga og minnkað svo matarskammtinn í 2-3 daga á eftir. Með því að auka og minnka kaloríu neyslu á víxl nær líkaminn ekki að safna á sig fitu forða.
11. Finndu jafnvægi a milli þess að borða hollt og óhollt. Borðaðu á milli jólaboða salöt, grænmetis djúsa, súpur og aðra hollustu. Mundu að það mikilvægasta er að þú njótir matarins og borðir meðvitað.
12. Að lokum mundu eftir tilgangi jólanna. Hvað getur þú gert fyrir sjálfa/n þig og aðra til að gera þennan tíma eins hátíðlegan og eftirminnilegan og möguleiki er á.
Höfundur: Helga Marin Bergsveinsdóttir.
Helga Marin er heilsu og íþróttafræðingur,sem búsett er í Dubai er komin hingað til lands í stuttan tíma til að vera með fyrirlestra og námskeið. Síðustu þrjú skipti sem Helga var á landinu hélt hún yfir 90 fyrirlestra og námskeið með metaðsókn. Helga rekur sitt eigið fyrirtæki, Health, Mind and Body í Dubai og hefur unnið sér þar sess sem þekktur heilsufræðingur fyrir þær óhefðbundnu leiðir sem hún fer. Helga hefur útbúið fjölda námskeiða sem fyrirbyggja og veita lausnir gegn sjúkdómum, sjálfseflingarnámskeið, streitu-lausnir og aðhaldsnámskeið.
Helga Marín Bergsteinsdóttir
Inspirational speaker/ Health and Wellness coach
BA í næringar og íþróttafræði
BA í Sálfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi
NLP Master Practitioner med prófskírteini frá Paul Mckenna og Richard Bandler (founder of NLP)
ACC Markþjálfi
CTI Markþjálfi (level 1)
Journey practitionar (level 1,2)
EFT practitionar
Heimasíðu Helgu Marin getur þú fundið hér