19 hlutir til að gera í einangrun

Það getur verið afskaplega yfirþyrmandi að þurfa að vera í einangrun og vita ekkert hvað maður getur haft fyrir stafni. Fólk upplifir kvíða og tíminn virðist silast áfram á hraða snigilsins og þessi vika (rúmlega) verður ein lengsta vika lífs manns.

Við tókum saman nokkur þjóðráð til að láta tímann líða í einangrun.

1. Hringdu myndsímtöl

Það er auðvitað frábært að hringja venjuleg símtöl en það er svo svakalega upplífgandi að „sjá fólk auglitis til auglitis“ og getur látið manni líða örlítið minna einmana. Það eru fullt af ókeypis myndsímaþjónustum sem þú getur notað og ef þú getur tengst við WiFi, eins og við erum flest með, er þetta ekkert mál. Ástvinum þínum finnst gott að sjá þig, jafnvel þó þú sért bara á náttfötunum

2. Haltu dagbók.

Skrifaðu niður allt sem þú gerir yfir daginn, sama hversu ómerkilegt þér kann að finnast það. Þér mun finnast gaman að lesa þetta seinna meir.

3. Lestu góða bók

Það er hægt að fá einhvern til að sækja bók í bókasafnið eða hreinlega að kaupa bók fyrir þig.

Sjá einnig: Þrálátir verkir og bjargráð

4. Púslaðu

Það er gott fyrir hugann og tíminn virðiðst fljúga þegar maður er að púsla skemmtilegt púsl.

5. Lærðu að gera origami

6. Farðu í gegnum skápana

Nú er tíminn til að fara í gegnum skápana og setja í einn haug það sem þú vilt gefa og annan það sem þú vilt halda eftir. Raðaðu svo aftur inn í skápinn og njóttu þess hvað þú hefur mikið pláss.

7. Taktu æfingu heima

Finndu þér einhverskonar æfingarprógram á Youtube og komdu þér af stað. Þér mun líða svo vel eftir á.

8. Lærðu skrautskrift

Það er hægt að læra allskonar skemmtilega skrautskrift á netinu. Hér er til dæmis eitt myndband sem er gott fyrir byrjendur.

9. Bakaðu köku

Ef þú átt ekki allt í hana er örugglega lítið mál að láta versla fyrir þig og ástvinir eflaust glaðir að gera eitthvað fyrir þig. Bakaðu köku sem þig langar í og njóttu.

Sjá einnig: Myndi borða sig til dauða án foreldra sinna

10. Heklaðu

Ef þú kannt það ekki nú þegar er kominn tími á að læra það. Það á auðvitað það sama við hér og í atriðinu hér að ofan, ef þig vantar eitthvað til verksins eru eflaust einhverjir boðnir og búnir að kaupa garn og heklunál. Þú getur byrjað á að hekla tuskur sem er einfalt verk en það eru fá heimili sem komast af án þess að eiga nóg af tuskum.

11. Æfðu þig á hljóðfæri

Áttu píanó eða gítar sem hefur verið að safna ryki síðustu ár? Nú er komið að því að dusta af þeim rykið og byrja að æfa þig. Það eru til alveg frábær kennslumyndbönd á netinu fyrir nánast öll hljóðfæri og því um að gera athuga það.

12. Gerðu áætlun fyrir næsta árið

Það er gaman að hugsa út fyrir einangrunina. Hvað er framundan og hvað ætlar þú að gera næstu mánuði? Hvað ætlar þú að gera í sumar og hvað langar þig að gera næsta haust?

13. Litaðu í litabók

Það eru til fullt af litabókum fyrir fullorðna og styttir manni stundirnar þegar maður hefur ekkert annað að gera. Það róar hugann og þú færð útrás fyrir sköpunargleðina.

14. Dansaðu

Settu eitt af þínum uppáhaldslögum á og slepptu þér! Það er svo gott fyrir sál og líkama að dansa og þvílík útrás. Ef þér finnst það betra geturðu jafnvel dregið fyrir gluggana og læst hurðum svo þú getir dansað eins og enginn sé að horfa.

15. Taktu upp hlaðvarp

Hefur þig langað að vera með hlaðvarp en hefur ekki komið þér í það? Þá er tíminn núna.

16. Taktu til á samfélagsmiðlum þínum

Það er eflaust fullt af myndum inni á samfélagsmiðlum þínum sem þú værir til í að taka út. Sér í lagi ef þú hefur verið með samfélagsmiðilinn í mörg ár. Einnig er mjög gott að fara reglulega yfir vinalistann þinn og gott viðmið að, ef þú myndir ekki heilsa viðkomandi úti á götu, þá væri kannski fínt að eyða honum út.

Sjá einnig: Telst kaffi og te með sem vatn?

17. Dekraðu við þig

Það er hægt að veita sjálfum sér handsnyrtingu, fótsnyrtingu, setja á sig maska og nebbaplástur. Svo er náttúrulega djúpnæring góð annað slagið fyrir hárið og jafnvel setja smá lit á brúnir og augnhár.

18. Breyttu til á heimilinu

Það getur gert mikið fyrir heimilið bara að breyta aðeins til. Þú getur fært til húsgögn og mátað þau á nýjum stað. Það getur verið mjög upplífgandi að breyta, þó það sé bara eitthvað smá.

19. Horfðu á þætti eða bíómynd

Það má alveg horfa á sjónvarpið líka. Passaðu bara að horfa á eitthvað uppbyggilegt og/eða skemmtilegt en ekki eitthvað niðurdrepandi og þunglyndislegt.

SHARE