22 ára dansari og pókerspilari

Núna um helgina fer fram Íslandsmeistaramótið í póker fyrir árið 2014 en mótið fer fram á Hótel Borgarnesi þetta árið. Mótið hefur aldrei verið glæsilegra, enda er póker er í mikilli uppsveiflu hérlendis þessa dagana, þá sérstaklega eftir að IFP (International Federation of Poker) sendi pókersambandinu bréf þess efnis að „Match Poker“ væri hugaríþrótt og þar með lögleg íþrótt. Því bréfi hefur nú verið komið til viðeigandi aðila hérlendis þar sem krafist er viðurkenningar á Match Poker sem löglegri íþrótt hérlendis.

Íslandsmeistarinn í póker hlýtur u.þ.b. 3 milljónir í verðlaun fyrir 1. sætið, glæsilegt silfurarmband, sérmerktan glerbikar ásamt þeim heiðri að verða fyrsti Íslenski landliðsmaðurinn í póker. Sökum þessarar staðfestingar frá IFP og Sport´s Accord þá mun Pókersamband Íslands senda landslið til að keppa í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í Match Poker á komandi ári og fer Íslandsmeistarinn 2014 sjálfsögðu í boði sambandsins.

Aníka Maí Jóhannsdóttir listdansari og Íslandsmeistari í póker 2012 varð um seinustu helgi Íslandsmeistarinn í Omaha og varð þar með fyrsti spilarinn hérlendis til þess að vinna báða titlana. Hún er að sjálfsögðu með á mótinu um helgina og við spjölluðum aðeins við Aníku:

„Ég hef spilað póker í um það bil 5 ár núna en ég byrjaði að spila póker á Facebook og þá vissi ég ekkert hvað þetta snérist um,“ segir Aníka sem er 22 ára. Hún segist fljótlega hafa fært sig yfir á pókersíðu á netinu og spilaði fyrir peninga og stuttu seinna byrjaði hún að spila við alvöru mótspilara. 

Þegar við spurðum Aníku um mótið um helgina segir hún þetta: „Stefnan er auðvitað sett á fyrsta sætið, ég ætla bara að spila minn leik og vonandi mun það ganga vel. Þetta verður spennandi!“

Mynd: DV

SHARE