24 tímar í sumarfrí …

Móðir mín hefur látið þá nokkra falla gegnum árin. Einhverja gullmolana sem hafa hrundið af vörum hennar, hef ég tekið upp á leið minni gegnum lífið og stungið í vasa hugarfylgsna minna. Geymt orðin eins og litla gimsteina og gælt við þau þegar hvað mest hefur á reynt.

“Alltaf að klára það sem þú byrjar á” er einn af þessum vísdómsmolum sem hún lét einhverju sinni falla. Í barnslegri einfeldni minni taldi ég þá næsta víst að hún ætti við að þeir sem næðu árangri, sköruðu framúr og kæmu í mark, væru einnig þeir sem aldrei hrösuðu á leiðinni. Færu áfallalaust gegnum lífið, nytu stuðnings og velvildar. Ég taldi víst hér áður fyrr að það væri “jafnlynda fólkið” sem skoraði alltaf mark.

Að þeir sem taka dýfurnar, gráta í koddann að kvöldi til og hökta að morgni væru þeir einstaklingar sem hellast úr lestinni. Gefast upp á miðri leið. Ná ekki að ljúka við neitt. Ég taldi í alvöru að fólk sem býr yfir litríkri skapgerð og talaði “með höndunum” eins og hún móðir mín sagði gjarna í gamla daga, væru einnig þeir sem gæfust fyrr upp.

Þess vegna lagði ég mig lengi fram við að vera “jarðbundin” og óskaði mér þess eins að búa yfir “þægilegri og átakalausri nánd” – ímyndaði mér jafnvel að sterkar tilfinningar væru merki um veiklyndi og stjórnleysi og var sannfærð um að ákveðið afskiptaleysi hlyti að vera merki um innri styrk; óhagganleika.

Hér í einsemdinni sem stundum umlykur okkur Rassa litla í ævintýraskóginum hefur mér gefist nægur tími til að hugsa um ofangreint. Mér hefur til að mynda hlotnast sú gæfa að halda sama starfinu í heilt ár. Draghölt í norskri málfræði og óttaslegin í byrjun. Feimin við vinnufélaga mína, rammvillt á nýjum vinnustað og lengi sannfærð um að  ég þyrfti að jánka öllu til að halda stöðunni.

Í byrjun hélt ég stíft í þá trú mína að hæfilegur skortur á viðbrögðum, ómþýð svörun og takmarkalaus elja á vinnutíma hlyti að vera einn mesti kostur sem gæti prýtt ágætan starfsmann. Hveitibrauðsdagarnir á mínum vinnustað voru fljótir að renna hjá, engum fannst spennandi að starfa með konu sem kunni vart stakt orð í málinu að nokkrum vikum liðnum og svo fór að sérstaða mín sem Íslendings gleymdist með öllu. Ég rann saman við starfshópinn og varð “ein af þeim” á örskotstundu.

Einhvern daginn féll svo gríman og ómýður útlendingurinn vék fyrir staðfastri íslenskri konu, sem þekkir vinnuverndarlögin. Hefur farið að grenja frammi fyrir forstjóranum. Sofið yfir sig að morgni. Gleymt að skila verki þann næsta dag. Ég hef hrasað og risið, hnigið og hlegið, brölt og bardúsað á vinnustað mínum – uppnefnt vinnufélaga mína – dansað í hádegisverðarhléum. Farið í sleik alveg óvart og sagði engum frá.

Já, gott fólk. Liðnir eru draumkenndir dagar barnæskunnar og flogin eru þau viðhorf mín að einungis jafnlynt fólk sé fært um að ná árangri í lífinu. Ég er ekki lengur sannfærð um að einungis þeir sem aldrei skipta skapi geti skorað mörk og þó ég trúi enn staðfastlega á mátt fyrirgefningarinnar og þá staðreynd að krossi ég yfir almenn siðgæðismörk á vinnustað, beri mér að biðjast afsökunar án tafar – þá veit ég að mörk er öllum hollt að draga.

Ég setti mér það markmið fyrir 12 mánuðum síðan að ganga ekki út af vinnustaðnum sem líka lúrir í litla ævintýraskóginum fyrr en að ári liðnu. Reyndar setti ég mér það markmið fyrir einum 12 mánuðum síðan að taka sprettinn gegnum veturinn og sjá svo til að ári liðnu. Síðustu 24 tímarnir voru ólýsanlega þungir og vinnudagurinn virtist eilífur; sá síðasti fyrir sumarfrí sem rann upp nú fyrir viku síðan.

Þegar sumarfríið langþráða rann svo upp, hafði ég tekið ákvörðun – ég held starfinu einn veturinn enn og endurskoða framtiðina að ári liðnu – þegar vora tekur í skóginum á ný og fulgarnir eru farnir að syngja.

En það er sem hún móðir mín sagði fyrir svo mörgum árum og það með áherslusvip. Að ljúka skyldi hverju verki og aldrei ganga frá hálf-unnum hlut. Þegar ég heyrði hana fella orðin fyrst var ég sannfærð um að hún hlyti að vera að benda mér á að ég yrði að búa yfir jafnaðargeði, stóískri ró og einskærri elju.

Í dag veit ég að hún átti við það eitt að sama hvernig viðrar og þó skútan sigli í strand, er aðeins eitt sem skiptir máli; að hver geri sitt besta. Þannig mörkuðu skrefin sem ég tók út af vinnustað mínum eftir 12 mánaða þrotlausa törn, spor stoltrar konu sem náði nýverið markmiði sínu. Að ljúka því sem ég hóf leika með fyrir ári síðan – draghölt á norsku og óttaslegin á svip – skelfingu lostin við skipandi nánd vinnufélaga minna og efins um að mér tækist að þrauka einn vetur í ókunnu landi.

Mamma kemur svo til með að heimsækja ævintýraskóginn seinna meir; hún heimsækir mig í lok sumars.

Ætli við rifjum ekki upp liðna tíma og þegar orðin ber upp mun ég svara: “Mamma, þetta snýst bara um að gefast aldrei upp.”  

SHARE