Foreldrar barna með ADHD vilja flestir það sama: að barninu gangi vel í skólanum, heima og á öllum öðrum sviðum lífsins. Það getur þó verið krefjandi að láta allt ganga upp svo vel megi vera. „Ástæðan fyrir því að ég skrifaði bókina mína, What Your ADHD Child Wishes You Know, er sú að ég sá börn upplifa ADHD-ið sitt á einn hátt, en foreldrar upplifa eitthvað allt annað og ólíkt,“ segir Sharon Saline, klínískur sálfræðingur í Massachusetts. Til dæmis gæti foreldrum fundist eins og börnin þeirra séu ekki að reyna sitt besta þegar einkunnir þeirra eru ekki góðar, á meðan barninu finnst það hafa gert sitt allra besta og það sé bara ekki nóg. Sharon segist vilja minnka muninn á upplifun foreldra og barna með ADHD.
Mistök geta breyst í tækifæri þegar kemur að uppeldi ef foreldrar og börn skilja hvort annað betur. Það eru 3 algeng mistök sem foreldrar barna með ADHD gera, sem væri hægt að leiðrétta og breyta í sigur, bara ef maður væri meðvitaður um það. Það stuðlar að betri samskiptum og ef allir stefna í sömu átt líður öllum á heimilinu betur. Sérstaklega þegar kemur að uppeldi geta mistök breyst í tækifæri til að skilja hvert annað betur.
Hér eru þessi 3 algengustu mistök, að mati Sharon, og hvernig er hægt að leiðrétta þau.
1. Að búast við fullkomnun
Stöðugleiki og jafnvægi eru lykilatriði þegar kemur að uppeldi barns með ADHD. Foreldrar þurfa að stilla væntingum sínum í hóf og vera meðvituð um hvernig bregðast skal við, í ákveðnum aðstæðum. Einnig verða foreldrar að virða það við barnið þegar það sýnir einlægan vilja til að bæta sig.
„Eitt af því sem gerist oft hjá börnum með ADHD er að alltof mikil áhersla er lögð á lokaútkomuna, en þá gleymist alveg hvað var lagt á sig til að ná þangað,“ segir Sharon. „En þetta snýst alls ekki um að svara öllum spurningum, alltaf, rétt,“ bætir hún við og mælir hún með að foreldrar leiti að, og kunni að meta, þann tíma sem barnið er að leggja sig fram við að framkvæma verkefni eða að ná markmiði.
Það, að leggja stöðugt áherslu á að barnið geri alltaf sitt allra besta, getur hjálpað barninu við þá áskorun að vera sífellt að vaxa og verða betri í verkunum sem það tekst á við. „Margt fólk með ADHD hefur fastmótaðar hugmyndir um sjálft sig og trúir því að hvorki styrkleikar þeirra, né veikleikar muni breytast. Ef þessum fastmótuðu hugmyndum verður ekki breytt, þá geta börn ekki vaxið og tekið framförum eins og þau myndu helst vilja,“ segir Sharon. Hún segir að foreldrar verði að koma því inn hjá börnunum að þau geti sífellt vaxið en því getur auðvitað fylgt áskoranir og gremja því alltaf séu einhverjar hindranir. Til dæmis getur hugsun barnsins verið: „Ég get aldrei fengið A á stafsetningarprófinu mínu, því ég hef aldrei fengið A í neinu. Stafsetning verður alltaf erfið.” Ef barnið fer að telja sig geta vaxið væri hugsunin frekar: „Ég ætla að læra eins mikið og ég get. Ég veit að ef ég legg hart að mér mun ég fá bestu einkunn sem ég get fengið, jafnvel þó hún sé ekki A.“
Foreldrar geta sýnt barninu gott fordæmi. á undan með góðu fordæmi. Til dæmis ef markmiðið hefur verið sett á að barnið klári allt af disknum á kvöldmatartíma og standi við það í 5 kvöld á einni viku. Þá skal ekki tala sífellt um kvöldin tvö sem barnið kláraði ekki af disknum heldur tala meira um hvað barnið var duglegt í þau skipti sem þau náðu að klára matinn sinn. Það virkar hvetjandi fyrir barnið því það upplifir ákveðna valdeflingu og langar enn meira að fá hrósið á hverju kvöldi.
2. Að spara hrósi
Sharon hefur tekið eftir ákveðnu mynstri þegar hún hefur spurt foreldra og börn með ADHD um jafnvægi milli jákvæðra og neikvæðra athugasemda sem barnið fær. „Foreldrarnir segja gjarnan að hlutfallið sé 1 jákvæð athugasemd á móti 10, 20 eða jafnvel 25 neikvæðum. Þegar ég spyr svo börnin, er hlutfallið nær því að vera 1 jákvæð athugasemd á móti um 30 til 40 neikvæðra athugasemda,“ segir Sharon.
Allar þessar neikvæðu athugasemdir taka sinn toll og leiðir til þess að barnið fer að „tala neikvætt“ til sjálfs sín og þetta hefur slæm áhrif á andlegu hliðina og sjálfstraust barnsins. „Þetta veldur svo miklu ójafnvægi í heilanum. Neikvæða röddin er svo hávær,“ segir Sharon. „Jákvæða röddin, innsæið, sá hluti barnsins sem líkar vel við sjálft sig, þarf meiri athygli.“
„Sumir sérfræðingar vilja meina að foreldrar eigi ekki að hrósa börnum sínum of mikið. Þeir vilja meina að börnin verði háð því að fólk samþykki þau og þau verði aldrei sátt með sig án hrósins. Ég skil það sjónarmið en fyrir börn sem eru með ADHD, sem hafa heyrt „margt neikvætt“ um sig, frá því þau muna eftir sér, skiptir það miklu máli að þau fái hrós þegar þau gera eitthvað sem þau eru stolt af,“ segir Sharon og bætir við að hrósið hjálpi til við að vinna gegn öllum neikvæðu skilaboðunum sem þau fá dagdaglega. Hún segir einnig að hrósið þurfi ekki alltaf að vera með flugeldum og blöðrum heldur bara eitthvað einfalt eins og „klest’ann“ eða segja „vel gert að klára heimavinnuna!“.
3. Að taka af barninu ákvörðunarvaldið
Börn með ADHD eiga oft erfitt með það að vera ekki höfð með í ákvörðunartökum foreldranna. Það eru oft gerðar kröfur á að þau geri eitthvað eða hegði sér á ákveðin hátt, sem getur verið þeim mjög erfitt. Sharon segir að til að létta á pressunni á barninu sé gott að leyfa því að vera með í ákveðnum ákvarðanatökum, svo því finnist það vera „með í leiknum“. Til dæmis gæti foreldrið talið að barnið þurfi klukkutíma til að hafa sig til fyrir skólann en barnið segist bara þurfa hálftíma. Þá geti foreldrið farið milliveginn og sagt: „Ég skal vekja þig 45 mínútum fyrir skólann en þá verður þú að vera tilbúin/n á réttum tíma fyrir skólann. Ef þú verður of sein/n fer ég að vekja þig klukkutíma fyrir skóla.“ Svo er hægt að gera samkomulag ef tíminn dugar ekki og gefa barninu eins og þrjú tækifæri til að láta þetta takast.
Að ala upp barn sem er með athyglisbrest, ofvirkni og jafnvel hvatvísi getur verið krefjandi en Sharon segir það mikilvægt að muna eitt lykilatriði: „Við erum öll að gera okkar besta með þeim úrræðum sem eru í boði á hverjum tíma.“
Heimildir: Fatherly.com