Eins og hefur ekki farið framhjá neinum lesanda er ég miðaldra kona á þessu blessaða blómaskeiði sem heitir breytingaskeið.
Það fer mörgum sögum af þessu skeiði og ég hef heyrt svo dásamlegar setningar eins og:
„Þetta er það skeið sem konan fer fyrst að blómstra og breyta til í lífi sínu á þann hátt sem henni þykir best.“
Jú jú get alveg tengt við þessa setningu.
Ég hef alveg blómstrað um einhver 30 kíló og gert allskyns breytingar mér til góða eins og að sleppa brjóstahaldaranum, keypt mér viftu sem er mjög kröftug til að hjálpa mér að kólna í þessum hitakófum, legið meira í sófanum til þess að mæta því að ég er alltaf þreytt.
Ég hef farið í sálfræðimeðferð af því ég fór alveg uppúr þurru að fá kvíðaköst og allskonar geðvitleysu. Eyði helmingi meira af pening í húðolíur og rakakrem, því húðin er þurr eins og sandpappír svo ég tali nú ekki um plokkara út um allt hús, í bílnum og öllum vösum, því þessi dásamlegu skegghár blómstra sem aldrei fyrr!
Jammm…. bestu dagarnir eru náttfatadagar með hárið ógreitt og legið í sófanum með viftuna í botni en það er ekki eins og maður geti átt endalausa þannig daga.
Svo er eitt annað sem jú er algerlega óþolandi við þetta jú annars dásamlega skeið kvenna.
Skyndilega þolir maður ekki að borða eitt og annað, áfengi verður nó nó og of miklar hreyfingar á almannafæri valda því að þú ert rennandi blaut frá toppi til táar.
Talað er um að 34 einkenni séu algengust á þessu skeiði, já ég sagði 34!
Sem dæmi:
Hitakóf, nætursviti, þyngdaraukning, minnkuð kynlöngun, geðsveiflur og leggangaþurrkur.
Ofantalið er einungis það algengasta en svo eru svona skemmtilegheit eins og allskonar verkir, breyting á líkamslykt og ég bara skal gefa ykkur link á þetta:
https://www.34-menopause-symptoms.com/
Frábært ekki satt?
Björtu hliðarnar eru þær að á eftir þessu „blómaskeiði“ hef ég heyrt að komi frábær tími, VÁ hvað ég hlakka til.
Ég hef reyndar fundið upp á ýmsum leiðum sem gera mér þetta skeið skárra. Ég til dæmis neyðist til að stunda reglubundna hreyfingu því það dregur úr einkennum. Það er jákvætt.
Ég sneiði hjá matvælum sem koma af stað kófi og drekk í mjög miklu hófi.
Að stunda stunda djúpslökun og hugleiðslu hjálpar, já og blessuð jákvæðnin sem kemur í veg fyrir að mann fari í dimma dali og hæðnin… jebb þatta reddar mér helling, sér í lagi þegar ég kem heim kófsveitt í gráum buxum og það er blautur svitablettur í klofinu. Nei ekki vegna þvagleka heldur vegna hitakófs og svita!
Ég ætla ekki út í þvagleka hér það er allt annar pistill.
Stelpur á besta aldri Áfram þið!
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!