Ladies circle – kynning.

Ladies circle heldur kynningarfundi í Grindavík miðvikudaginn 18. september nk. kl. 20.30 að Víkurbraut 26 og á Selfossi miðvikudaginn 25. september nk. kl. 20.00 að Austurvegi 38, 3. hæð.
En hvað er Ladies circle?

Ladies circle er alþjóðlegur félagsskapur kvenna á aldrinum 18 – 45 ára sem starfræktur er í 30 löndum. Í félagsskapnum er stuðlað að því að ólíkar konur kynnist, víkki út sjóndeildarhring sinn, stigi út úr þægindahringnum og efli alþjóðlegan skilning og vináttu. Fyrsti LC-klúbburinn var stofnaður á Akureyri 1988 og var því 25 ára afmæli samtakanna fagnað á landsfundi og árshátíð í maí sl.

Á Íslandi eru um 180 konur í samtökunum í 11 klúbbum víðs vegar um landið (Reykjavík, Keflavík, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum) og verður sá tólfti á Sauðárkróki vígður inn í vetur. Þá eru fyrirhugaðir kynningarfundir  í Grindavík og á Selfossi eins og áður var nefnt.

Merki LCÍ er hjól rokksins, sem er tákn kvenna frá gamalli tíð. Hjólinu er skipt upp í sex hjörtu sem tákna: Vináttu, umburðarlyndi, tillitssemi, heiðarleika, jákvæðni og náungakærleika. Einkunnarorð samtakanna eru vinátta og hjálpsemi.

Hver klúbbur fundar einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og eru fundirnir ólíkir: haldnir eru fyrirlestrar, fyrirtæki heimsótt, námskeið, jólafundur, makakvöld og óvissuferðir. Tvisvar á ári eru  fulltrúaráðsfundir þar sem formenn og varaformenn (opið öllum LC konum) hittast ásamt landsstjórn og fara yfir innlend og erlend málefni. Starfsárinu lýkur að vori með landsfundi LC og árshátíð semhaldin er með karlaklúbbnum Round Table. Þessi tvö félagasamtök starfa saman um allan heim að góðgerðarmálum og halda saman árshátíðir og fleira.

Góðgerðarsjóður LCÍ ber heitið Elínarsjóður og er nefndur eftir fyrsta landsforsetanum Elínu Hallgrímsdóttur. Árlega er veittur styrkur úr sjóðnum og í ár hafa samtökin  styrkt tvær íslenskar fjölskyldur með veik börn og Konukot.

Samtökin taka einnig þátt í alþjóðlegum verkefnum og í nýloknu verkefni, Viva con aqua, söfnuðust 26 milljónir sem notaðar eru til að útbúa vatnsbrunna í Eþíópíu. Í kjölfarið hafa um 30.000 manns greiðari aðgang að hreinu vatni.

Árlega fara tveir fulltrúar Íslands á Alheimsráðstefnu en hún var síðast haldin í Zambíu í ágúst sl. m.a. var þar kosið um nýtt verkefni sem kallast Children of the dump. Verkefni sem þegar er farið af stað og felst í að bjarga munaðarlausum börnum sem búa nánast á ruslahaugunum með því að sjá þeim fyrir húsnæði,mat, heilsugæslu, menntun og fleira.

Árið 2015 verður alheimsráðstefna  samtakanna haldin á Akureyri og má búast við um 500 konum hingað til lands af því tilefni.

Nýjar konur eru velkomnar. Allar nánari upplýsingar um LC má finna á heimasíðum samtakanna og síðu þeirra á facebook.
Heimasíða LC á Íslandi hér 
Heimasíða LC International hér
Facebooksíðan hér
Einnig má hafa samband við Hildi Báru Hjartardóttur landsforseta á netfangið landsforseti@ladies-circle.is

Meðfylgjandi eru auglýsingar um kynningarfundina og myndir úr starfsemi LC.

 

SHARE