Hvað er svona gott við að standa á höndum?
Handstöður eru mjög vanmetin æfing og það er aðallega af því að flestir halda að þeir geti það ekki.
Þó að þú hafir ekki stundað fimleika þegar þú varst yngri og sért ekki enn þrautþjálfuð í jógaiðkun þýðir það ekki að þú getir ekki byrjað strax í dag að standa á höndum.
Auk þess sem það er einfaldlega gaman að standa á höndum eru handstöður heilsusamlegar, sérstaklega ef þær eru stundaðar daglega.
Eftirtaldar eru fimm ástæður fyrir því að þú ættir að standa daglega á höndum hvort sem er upp við vegg eða í frjálsu rými.
1. Handstöður styrkja efri hluta líkamans.
Maður þarf að hafa sterkar axlir, handleggi og efri hluta baks til þess að geta staðið dálitla stund á höndum. Það er mjög algengt að byrjendur fari að skjálfa þegar þeir hafa staðið í nokkrar sekúndur.
Til þess að ná upp styrk er gott að byrja með því að standa upp við vegg 5-10 sekúndur í einu og endurtaka æfinguna nokkrum sinnum. Smáaukið stöðutímann upp í eina til tvær mínútur í einu. Æfið ykkur oft og þið munið fá aukinn styrk.
2. Handstöður bæta jafnvægið.
Ef þú hefur reynt að standa á höndum komstu líklega að því að maður þarf jafnvægi auk þess sem maður þarf vöðvastyrk. Jafnvægið er sérstaklega mikilvægt þegar maður stendur í frjálsu rými. Þá verður maður að hafa góða stjórn á vöðvunum!
Frjáls handstaða eða þegar maður stendur upp við vegg og æfir sig að losa fæturna frá veggnum og stendur eins lengi og maður getur eru með bestu æfingum sem hægt er að gera til að æfa jafnvægið.
3. Handstöður geta bætt geðið.
Það er ekki nóg með að handstöður styrki líkamann og bæti jafnvægið. Þær geta líka bætt andlega líðan fólks því að blóðið sem rennur til heilans eykur manni orku og róar fólk einkum og sér í lagi ef það er haldið streitu.
4. Handstöður styrkja allan líkamann.
Það er engin þörf á að einblína á að auka styrkinn. Þú getur bara haft gaman af því að standa á höndum og aukið styrk þinn um leið.
Þegar þú stendur á höndum ertu alltaf að samhæfa vöðvana einkum vöðva í fótum, lærum og baki. Þeir sem æfa handstöður fá mjög sterkt og vel samhæft stoðkerfi.
5. Handstöður viðhalda heilbrigði beina, blóðrásar og öndunar.
Sýnt hefur verið fram á að handstöður styrkja beinin og vinna móti beinþynningu. Og ekki nóg með það. Þegar fólk stendur á höndum eykst blóðrennsli til efri hluta líkamans og þrýstingur í fótum minnkar og tognar á þindinni sem aftur eykur blóðflæði til lungna.
Af öllu ofansögðu ætti að vera ljóst að þú ættir að byrja strax í dag að standa á höndum. Það er ekki nóg með að heilsan batni við það, þú munt líka njóta þín alveg út í hörgul!