Það er ekki jafn flókið og mætti halda að auka við hreyfinguna yfir daginn. Hér fara fimm einfaldar en árangursríkar leiðir til að auka líkamlega hreyfingu yfir daginn. Einfalt, ekki satt!
1. Vertu með skrefamæli
Ef þú ert mikið upptekin/n og átt erfitt með að finna tíma til að hreyfa þig þá getur verið sniðugt að ganga með skrefamæli á sér. Skrefamælirinn getur verið góð hvatning til að taka nokkur aukaskref yfir daginn, til dæmis með því ganga einn auka hring um skrifstofuna.
2. Stattu upp
Reyndu að standa upp eins oft og þú getur í gegnum daginn þó það sé stundum bara rétt til þess að teygja úr þér. Ef þú ert vön/vanur að taka lyftuna í vinnunni hjá þér, reyndu þá frekar að taka stigann.
3. Breyttu æfingaplaninu
Í stað þess að sleppa því að fara á klukkutíma æfingu af því að þú nennir því ekki, reyndu þá frekar að taka styttri æfingu heldur en að sleppa því alveg. Það getur verið tilvalið að taka 15 mínútur í morgunsárið og nota nuddrúllu eða taka léttan hjólatúr. Þó það sé ekki nema hálftíma göngutúr þá er það strax betra en hanga heima og hreyfa sig ekkert yfir daginn.
4. Veldu hreyfingu að þínu skapi
Það finnst alls ekki öllum skemmtilegt að fara í ræktina. Jafnvel þó að líkamsræktarstöðvarnar bjóði upp á afar fjölbreytta hópatíma og lokuð námskeið. Möguleikarnir eru endalausir þrátt fyrir að Ísland sé lítið land. Fótbolti, Cross Fit, Pole Fitness og dansnámskeið eru allt frábærar leiðir til að stunda hreyfingu.
5. Hreyfðu þig með félagsskap
Það skilar manni oft betri árangri að hafa einhvern til að hreyfa sig með þó að það sé alls ekki bannað að gera það einn. Maður hefur oft tilhneigingu til að hætta við að fara á æfingu á síðustu stundu eða á erfitt með drífa sig út í göngutúr. Þá getur verið gott að hafa einhvern til að draga sig út í göngutúr eða vera búin að mæla sér mót með vini í ræktinni því þá vill maður síður skilja vininn eða vinkonuna eftir eina í ræktinni.
Kristín Helga er óumdeilanlega mesti Kardashian aðdáandi Íslands og nærliggjandi landa. Hennar heitasta ósk er að vera vinkona Khloe Kardashian.
Hún hefur áhuga á öllu mögulegu og þar á meðal að lesa og skrifa um fræga fólkið í Hollywood.