Sem foreldrar gerum við fullt af hlutum sem eru góðir en svo segjum við alltof oft hluti sem við ættum að sleppa. Það kemur kannski á óvart hvað margar athugasemdir sem við komum með geta sært barnið, búið til gremju og haft neikvæð áhrif á sjálfstraust þess.
Amy McCready er höfundur bókarinnar If I Have to Tell You One More Time segir: „Við meinum vel en stundum segjum við eitthvað við börnin okkar án þess að hugsa sem getur brotið barnið niður.“
Hér eru 6 atriði sem Amy vill meina að við eigum ekki að segja við börnin okkar:
1. „Ég veit þú getur betur en þetta.“
Þú getur orðið pirruð/aður á því að barnið þitt, sem þú veist að getur gert svo miklu betur, gerir, að þínu mati, ekki sitt besta. Þú segir ekki við barnið „Þú ert svo löt/latur“ en allar athugasemdir í þessa átt eru ekki að fara að hvetja barnið þitt til dáða. Notaðu frekar setningar eins og „Þegar þú ert búin/n að laga til í herberginu þínu máttu fara út að leika“ eða ef þetta er eitthvað sem við kemur heimanámi og þú sérð að barnið er að leggja sig fram, geturðu sagt „Vá hvað þú ert búin að vera dugleg/ur að læra. Þér á eftir að ganga mjög vel í prófinu.“
2. „Ertu viss um að þú viljir fá þér aðra kökusneið?“
Úff. Ef maður segir svona er ásetningur manns pottþétt góður. Þú vilt að barnið þitt sé vel á sig komið líkamlega en þú vilt ekki að barnið fari að horfa neikvæðum augum á líkama sinn. Ef þú vilt að barnið þitt borði hollari mat, eigðu þá hollari mat heima, í stað þess að eiga skápa fulla af muffins, kexi og öðru sætabrauði. Þú verður líka að vera fyrirmynd. Það þýðir ekki að segja barninu að halda sig frá kexskápnum þegar þú sjálf/ur ert á kafi í snakkpokanum inni í stofu. Ekki láta barnið fá samviskubit yfir því hvernig það borðar. Hrósaðu henni/honum fyrir að borða hollan mat í staðinn og vandaðu valið þegar þú ferð í búðina.
3. Ekki nota „alltaf“ og „aldrei“
Óneitanlega er það freistandi oft á tíðum að nota þessi orð, eins og „Þú setur aldrei óhreinu fötin þín í taukörfuna“ eða „Þú gengur alltaf illa um herbergið þitt“.
Börnin verða það sem við segjum að þau séu og ef þú segir við barnið að það muni aldrei eftir að setja fötin í óhreina tauið þá er líklegt að barnið verði svoleiðis barn. Sálfræðingurinn Jenn Berman segir að frekar en að nota þessi orð þá sé sniðugt að segja frekar „Ég hef tekið eftir að þú átt erfitt með að muna að óhreinu fötin eigi að fara í taukörfuna. Hvernig get ég hjálpað þér að muna það?“
4. „Af hverju ertu ekki meira eins og systir þín/ bróðir þinn?“
Systkini rífast, það er eitthvað sem er óhjákvæmlegt og þegar þú ert að segja svona hluti við barnið er það eins og olía á eldinn. Þetta veldur afbrýðisemi og gremju og ætti aldrei að vera sagt.
5. „Af því ég segi það!“
Foreldrar hafa allir upplifað þetta. Það er verið að flýta sér út og þú hefur ekki tíma til að útskýra HVERS VEGNA barnið á að slökkva á tölvunni. Ef þú segir „Af því ég segi það“ tekurðu alla stjórnina í þínar hendur og virðir að vettugi þá vaxandi löngun barnsins til þess að vera sjálfstætt og finna útúr hlutum upp á eigin spýtur. Einnig ertu með þessu að missa af tækifæri til þess að kenna barninu eitthvað. T.d. af hverju það er betra að fara í heimsókn til ömmu og afa en að hanga heima í tölvunni. Prufaðu frekar: „Ég veit þig langar að vera heima í tölvunni en ömmu og afa finnst svo gaman að hitta þig og þau eru partur af fjölskyldunni okkar“. Þá, jafnvel þó barnið haldi áfram að tuða, veit það að þeirra langanir eru viðurkenndar.
6. „Ekki gera þetta svona, leyfðu mér að sýna þér!“
Ef þú biður barnið um að gera eitthvað eins og að brjóta saman handklæði eða hjálpa til við þrifin, gerðu það með því hugarfari að þetta þurfi ekki að vera fullkomið. Það fer eftir því hversu mikla fullkomnunaráráttu þú ert með hversu miklar væntingar þú hefur. Ef þú tekur starfið af barninu þá lærir það ekki að gera þetta sjálft. Sættu þig við að barnið geri þetta ekki 100% og lagaðu það frekar þegar það sér ekki til eða þú getur notað setningu eins og „Hey má ég sýna þér flotta aðferð sem mamma mín kenndi mér við að brjóta saman handklæðin?“