6 mánuðum seinna í breyttri tilveru

Núna 6 mánuðum eftir að áfallið reið yfir okkur að minn heittelskaði endurgreindist í fjórða sinn með krabbamein og nú ólæknandi er tilveran okkar töluvert mikið að snúast um sjúkdóminn, það er óhjákvæmilegt.

Fastir liðir eins og að mæta einu sinni í viku í lyfjagjöf og svo að takast á við þær aukaverkanir sem hann fer í gegnum milli lyfjagjafa. Þessi breytta tilvera hefur alveg tekið sinn toll af okkur öllum í fjölskyldunni en hún hefur líka gert okkur þéttari og kennt okkur margt gott.

Ég leyfi mér að efast um að fólk geri sér grein fyrir því hvað það hefur mikil áhrif á fjölskylduna þegar einn greinist með krabbamein. Ég upplifi þetta sem hálfgerðan fjölskyldusjúkdóm því þetta setur alla í ákveðin hlutverk og hefur áhrif á líðan og heilsu aðstandenda.  Eitt af því sem ég er óendanlega þakklát fyrir er að á krabbameinsdeildinni er hugsað heildrænt þegar verið er að meðferða krabbameinssjúkling. Semsagt hugað að heildinni því fagfólkið þar veit hvað aðstandendur þurfa og hafa líka séð þá brenna upp af álagi. Ég er svo lánsöm að þekkja aðstandenda hlutverkið vel þar sem ég er aðstandandi alkóhólista og það hefur kennt mér að ég verð að halda vel utan um mig, þiggja aðstoð og vera sönn gagnvart minni líðan.

Líðan mín hefur verið allskonar í þessu ferli. Byrjaði á áfalli sem gefur af sér algert orkuleysi og eiginlega þunglyndi og þar sem ég er með hina alræmdu vefjagigt, þá hljóp hún í gang við áfallið svo líkamlega var ég verkjuð fyrir allan peninginn. Eflaust geta ekki allir skilið af hverju ég veikist þó maðurinn minn veikist, er það ekki bara aumingjaskapur eða athyglissýki.

Staðreyndin er sú að það er það sem gerist gjarnan þegar einhver nákominn manni veikist alvarlega að það er manni áfall og þegar maður á sögu um mörg áföll og er með vefjagigt triggerar svona áfall gömlu áföllinn, streituna og þá koma líkamlegu verkirnir með.

Sem betur fer fór ég strax í að vinna með sjálfa mig og þiggja aðstoð frá fólkinu í kringum mig, án þeirra hefði ég eflaust ekki náð mér svo fljótt á strik. Takk þið 😉

Nú, 6 mánuðum seinna, er þessi breytta tilvera orðin okkur eðlileg tilvera en það verður að játast að hún er dálítill rússibani. Ég er ritari, hjúkka, bílstjóri, eiginkona og vinur, eflaust fleira en þetta er það sem kemur upp í huga minn og ég gegni þessum störfum af alúð og þakka fyrir að geta uppfyllt mitt hlutverk sem stuðningur. Ég hef lesið mér til um hvenær beri að hafa samband við krabbameinsdeildina á milli meðferða, ef hiti yfir 38 ef húðblæðin og ef…..

Þetta er heilmikill skóli, kannski ég fái prófskírteini úr Cherriospakka. Húmor er eitt aðalverkfærið okkar í þessari tilveru og við erum svo heppin að hafa svartan húmor sem heldur okkur gangandi þegar erfiðustu kaflarnir eru.

Þessi nýja tilvera, sem við óskuðum ekkert sérstaklega eftir heldur ruddist bara inn í líf okkar, hefur líka gefið mér nýja sýn á lífið og tilveruna og ég sé fólkið mitt á annan hátt, tek því ekki sem sjálfsögðum hlut og er meðvituð um að lífið er stutt og engum var lofaður morgundagur.

Ég hef til dæmis séð alveg nýja og vandaða hlið á börnunum mínum þremur. Þau eru svo fullorðins (20, 24 og 30 ára) á þann hátt að þau eru tilbúin til að aðstoða með það sem þarf. Líka þrífa klósettið!

Ekki það að börnin mín hafa alltaf verið bóngóð en nú er ég kannski bara sökum álags og orkuleysis að leyfa þeim meira að blómstra í því að vera stuðningur við gamla settið.

Við höfum líka verið duglegri að eiga gæðastundir öll saman og svo við hjón. Við höfum líka tekið ákvörðun um að skoða það sem Ljósið hefur upp á að bjóða fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur en ég hef bara heyrt gott af því og besta hjúkkan á krabbó, hjúkkan okkar hvetur okkur til að stíga það skref. Það er svo sem ekki eftir neinu að bíða þetta er bara okkar tilvera í dag.

 

Munið að lífið er núna og lífið er til að njóta.

 

SHARE