Það eru margir sem halda að fólk stundi lítið sem ekkert kynlíf eftir fimmtugt en það er nú alls ekki raunin hjá flestum. Kynlífið getur einmitt bara orðið betra eftir fimmtugt og hér eru nokkrar ástæður fyrir því.
1. Þú getur ekki orðið ólétt
Kynlífið getur auðvitað verið æðislegt á fimmmtugsaldrinum en þú ert jafnvel ennþá í þeim pakkanum að vera að útbúa nesti og sjá um börnin þín á þeim aldri og getur í flestum tilfellum ennþá orðið ólétt. Þegar þú ert hinsvegar komin á sextugsaldurinn ertu að öllum líkindum komin úr barneign, hætt að þurfa að taka pilluna, engir smokkar, engar óþarfa áhyggjur.
2. Engin börn að trufla
Það eru engin börn líkleg til þess að æða inn á ykkur eða vekja ykkur upp um miðja nótt og segir Amanda Richards læknir sem hefur sérhæft sig í svona málum, að tíminn sé auðvitað mjög mikilvægur í þessu samhengi. „Oftast eru konur sem komnar eru á breytingarskeiðið farnar að hafa mun meiri tíma fyrir sig sjálfar og hættar að standa í öllu svona barnastússi. Börnin eru orðin sjálfstæðari og parið hefur meiri tíma fyrir sig og sitt samband,“ segir Amanda.
3. Þú veist hvað þú vilt
Margar konur gera sér ljóst þegar þær fara í gegnum breytingarskeiðið að þær hafa verið að halda aftur af ýmsum hvötum í kynlífinu sínu af ýmsum ástæðum og fara gjörsamlega að blómstra eftir breytingarskeiðið.
4. Þig langar í meira kynlíf
Getnaðarvarnarpillan getur í mörgum tilfellum dregið úr kynlífslöngun en þegar þú ert hætt að taka hana eykst kynhvötin aftur. Oft valda samt hormónar því að kynlöngun minnkar eftir breytingaskeið en það er hægt að fá aðstoð með það hjá lækni og þess vegna um að gera að nefna það og vera ekki feimin.
5. Fjárhagslegt öryggi
Þið hafið kannski þrælað í mörg ár til þess að geta átt þak yfir höfuðið og mat á borðinu og nú er komið að því að geta notið uppskeru þess erfiðis. Vonandi ertu komin á þann stað að geta leyft þér hluti eins og rómantísk stefnumót á hóteli út í sveit, sexý undirföt og fleira. Eyddu smá pening í ástarlífið þitt.
6. Starfsframi þinn er í jafnvægi
Stress hefur ekki mjög góð áhrif á kynlíf para og oft er vinnan og mál tengd vinnunni mikill stressvaldur. Á þessum aldri er vanalega starfsframinn orðinn öruggur og í jafnvægi og það dregur úr stressi og eykur almenna vellíðan sem eykur þar af leiðandi kynlöngunina.
7. Vandamálin er hægt að laga
Það er ekki skemmtilegt fyrir konur og auðvitað ekki karla heldur ef karlmaðurinn fer að eiga við stinningarvanda að stríða, en það er hægt að ráða bót á því með samtali við lækni. Enn og aftur enga feimni!
Heimildir: Health.com
Tengdar greinar: