Óeðlilega löng matarhlé og að koma ALLTAF of seint í vinnuna er eðlilega ofarlega á lista yfir atriði sem á ekki að gera í vinnunni en skoðum nokkur önnur atriði sem gætu skaðað veru þína á vinnustaðnum.
1. Tískuslys
Justin er væntanlegur til landsins í haust og eflaust bringing sexy back með sér. Leyfum honum bara að sjá um það. Eða, lækkaðu a.m.k aðeins í kynþokkanum fyrir vinnuna. Aðþrengd föt sem kremja í manni líffærin, bolir flegnir niður að nafla og snípstuttur klæðnaður á ekki heima á skrifstofunni. Eða reyndar bara á fæstum vinnustöðum. Þú dregur úr trúverðugleika þínum.
2. Slúður
Það er kannski freistandi að taka þátt í vinnustaðaslúðrinu en slúðrið á það til að taka búmerang sveiflu til baka og bíta þig í rassinn. Á meðan þú ert upptekin við að rakka píuna á næsta borði við þig niður, eru þeir sem ætla sér lengra í fyrirtækinu raunverulega að vinna, sýna gott vinnusiðferði og sýna fram á fagmennsku.
3. Persónleikaárekstur
Staðreynd: Þér mun ekki líka vel við alla sem þú vinnur með. Það mikilvægasta til að hafa í huga í slíkum aðstæðum er að reyna að vinna úr ágreiningi eins og fullorðið fólk. Leita leiða sem geta verið málamiðlun. Bíddu með að leita til næsta yfirmanns eins og hægt er. Þeir eru ekki að reka dagvistun og vilja ekki hlusta á eitthvað dramakast yfir staðsetningu gatarans. Að vera fórnarlamb eineltis á vinnustað er svo allt, ALLT annar handleggur og ber að tilkynna strax.
4. Lélegur mórall
Ef þú mætir í vinnuna eins og þú hafir þurft að draga þig fram úr á rasshárunum, leggur engan metnað í að sinna skyldum þínum og er almennt Skúli fúli – eru miklar líkur á að þú dragir deildina niður með þér. Fólk forðast að vinna með þér og hegðunin dregur niður allan móral á staðnum.
5. „Það er ekki í mínum verkahring.“
Það vill enginn vera Indriði. Og það gefur enginn Indriða stöðuhækkun. Ef yfirmaður þinn heyrir þig röfla yfir að hitt og þetta sé ekki í þínum verkahring og ekki í starfslýsingunni, eru góðar líkur á að þú getir kysst mögulega stöðuhækkun bless. Stöku sinnum ertu líklega beðin um að gera eitthvað sem þú færð ekki endilega greitt aukalega fyrir en í guðanna bænum, ekki vera svo smásmuguleg að telja krónurnar sem hefðu fengist greiddar fyrir. Take one for the team!
6. Grófir brandarar
Oft er mjög freistandi að fara þá leið. Forðastu það í lengstu lög! Haltu dónadjókunum, athugasemdum um útlit annarra og jafnvel hörðu daðri heima (létt daður drepur nú engan…). Ekki byrja djókið, vonaðu að þú sért ekki aðhlátursefnið og forðastu að umgangast fólkið sem fer niður á þetta plan.
7. Ekki hluti af liðsheild
Reyndu að fara með einhverjum í mat, taktu þátt í umræðum og vertu vakandi. Vertu hluti af liðinu! Ef ekki, er hætt við að þú gleymist. Og hvað verður um fólk sem gleymist? Jú, það gleymist að bjóða því með og það gleymist að gefa því stöðuhækkun.
Ert þú með fleiri hugmyndir að góðum vinnustaðaráðum?