Við könnumst öll við að vera búin að kaupa einhverja nýja flík og erum ekkert smá lukkuleg með hana, en eftir einn þvott er hún farin að láta verulega á sjá og gleðin yfir nýju flíkinni dvínar mjög hratt.
Margir setja bara allt saman í vél, dökkt og ljóst, handklæði og nærföt en það kann ekki góðri lukku að stýra. Það er ekkert mál að breyta aðeins þvottaaðferðum þínum og þá munu fötin endast lengur falleg og lítið slitin.
Hér eru nokkur flott ráð sem ég gróf upp á netinu:
1. Þvoðu á röngunni
Hefurðu tekið eftir því að fötin eru oft betur farin að innan en að utan? Ef þú snýrð fötunum alltaf á rönguna þegar þú setur þau í þvottavélina þá upplitast flíkurnar minna og allt helst á sínum stað. Þetta á sérstaklega við um dökkar buxur og gallabuxur. Ef þú ert með flíkur með einhverjum aukahlutum saumuðum á eða flík sem er prentað á, skaltu þvo þær á röngunni líka.
2. Verndaðu viðkvæma þvottinn
Notaðu þvottanet (eða koddaver) fyrir nælonsokka, sokka, nærföt og fleiri viðkvæmar flíkur. Ef þú notar koddaver þá skaltu bara setja þvottinn í koddaverið, binda fyrir og henda síðan í vélina. Ef þú gerir þetta, ertu að verja viðkvæma þvottinn fyrir öllum öðrum þvotti sem er með í vélinni.
3. Hnepptu og renndu
Taktu þér tíma til að hneppa og renna upp rennilásum áður en þú setur flíkina í þvottavélina. Það kemur í veg fyrir að rennilásarnir séu að flækjast í öðrum flíkum og skemma þær. Ef þú hneppir tölunum á flíkinni eru minni líkur á að tölurnar detti af í þvottinum.
4. Notaðu milt þvottaefni og ekki of mikið af því
Það eru margir sem nota alltof mikið af þvottaefni. Athugaðu hvað stendur á umbúðum þvottaefnisins, um hvað þú átt að nota mikið og notaðu minna en fyrirmælin segja. Of mikil sápa byggist upp í flíkinni og geta jafnvel valdið því að flíkin verði mislit. Til þess að hugsa sem best um fötin þín, notaðu þá milt þvottaefni. Fötin endast lengur.
5. Skipuleggðu þig
Hafðu skápinn þinn og skúffurnar skipulagðar og notaðu plássið. Ef fötin eru klesst utan í hvor aðra og mun það draga úr líftíma þeirra, þær krumpast meira og þú þarft að strauja. Ef þú þarft að strauja flíkurnar oft þá eyðast þær. Taktu þér tíma í að skipuleggja skápinn og það mun borga sig.
6. Stilling fyrir viðkvæma þvottinn á allt!
Það er stilling á þvottavélinni fyrir viðkvæman þvott (delicate cycle) sem þvær þvottinn þinn með minni hörku en venjulegt þvottakerfi. Það er um að gera að nota þessa stillingu sem allra mest. Þá fer þvottavélin mjúkum höndum um allan þvottinn þinn. Auðvitað þarf stundum að nota aðra stillingu ef fötin eru mikið óhrein en þessi stilling á að vera nóg í flestum tilfellum.
7. Gallabuxur á að þvo sjaldan eða jafnvel, aldrei
Já það er rétt, ekki þvo gallabuxurnar þínar! Það eru sífellt fleiri að átta sig á þessu, að það þarf ekki að þvo gallabuxur eftir hverja notkun. Í hvert skipti sem þú þværð og þurrkar gallabuxur, styttist endingartími þeirra um helming. Ef þér finnst eins og þú þurfir að þrífa buxurnar, brjóttu þær þá saman, settu í plastpoka og inn í frysti yfir nótt. Það drepur allar bakteríur, eyðir lykt og þær verða eins og nýþvegnar eftir þetta. Prófaðu þetta og sjáðu hvað buxurnar endast lengi.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.