7 merki um andlegt ofbeldi í sambandi

Það eiga það allir skilið að vera í góðu og fallegu sambandi með gagnkvæmri virðingu. Það fer aldrei á milli mála þegar líkamlegt ofbeldi á sér stað í samböndum en andlegt ofbeldi er aðeins meira falið en getur ekki síður verið skaðlegt.

Hér eru nokkur merki um að það sé andlegt ofbeldi í sambandinu þínu

1. Vill alla þína athygli, alltaf

Finnst þér það hljóma vel? Það er það alls ekki. Þegar maki þinn hættir að stunda áhugamálin sín og hitta vini sína til þess að vera með þér öllum stundum, þá er það ekki gott merki. Auðvitað er það eðlilegt að þið séuð mikið saman fyrstu mánuðina en eftir smá tíma fer þetta bara að vera óþolandi.

2. Talar illa um vini þína

Maki þinn hættir að „leyfa þér“ að vera með vinum þínum eða vinkonum. Hann/hún talar um það við þig hvað vinir þínir séu lauslátir og séu ekki góður félagsskapur fyrir þig. Talar jafnvel verst um besta vin/vinkonu þína, því það er manneskjan sem segir þér alveg hvað henni/honum finnst um maka þinn, í hreinskilni. .

3. Lætur þig einangra þig frá þínum nánustu

Eitt af verstu merkjunum um það að þú sért í sambandi með andlegu ofbeldi er að maki þinn lætur þig einangra þig frá fjölskyldunni og vinum. Upp á síðkastið hefur líf þitt snúist um hann/hana og þú ert endalaust að taka við hinum og þessum ásökunum um framhjáhald eða annað slíkt. Með þessu stjórnar hann/hún hverja þú talar við.

4. Vill alltaf vita hvar þú ert

Þú þarft alltaf að vera að láta vita af þér, með hverjum þú ert og hvað þú/þið séuð að gera. Það fer í taugarnar á honum/henni ef þú gerir eitthvað sem hann/hún veit ekki af. Þú verður andlega búin/n á því, því þú ert alltaf að gera grein fyrir öllu sem þú gerir.

5. Notar þagnarmeðferðina á þig

Hann/hún fer í fýlu og svarar ekki sms-um, símtölum eða tölvupóstum. Vill ekki segja af hverju hann/hún er reiður/reið. Í staðinn er það bara þagnarmeðferðin þangað til honum/henni finnst þú hafa fengið nógu mikla refsingu.

6. Særir tilfinningar þínar og gerir lítið úr þér

Hann/hún segir hluti einfaldlega til þess að særa þig, þá er auðveldara að stjórna þér. Ef þú segir við hann/hana að þetta særi  þig þá er svarið bara að þú sért að taka hlutina of alvarlega. Sökinni er komið yfir á þig. Honum/henni finnst hann/hún vera öruggari með þig ef sjálfstraustið þitt er ekki gott.

7. Afbrýðisemi út í alla sem í kringum þig eru

Þegar þið eruð saman er hann/hún stanslaust að reyna að góma þig við að horfa á hitt kynið og jafnvel að saka þig um að vera að því. Ef þú klæðir þig upp þá gefur hann/hún það í skyn að þú sért að gera það til að fá athygli annarra.
Brátt ferðu að hugsa út í hvert einasta atriði sem þú gerir með það í huga, hvað honum/henni muni nú finnast. Þú ferð að sneiða framhjá rifrildum með því að gera hluti ekki eða hitta einhverjar manneskjur ekki sem þú veist að hann/hún mun ekki vilja að þú sért með.

 

 

Tengdar greinar:

14 játningar frá fólki í sambandi

8 vísbendingar um að sambandið þitt sé að verða búið

Hvort ert þú í góðu eða frábæru sambandi?

SHARE