Búa kafloðnir armkrikar kvenna yfir óhömdu aðdráttarafli? – Myndir

 Loðnir og brúskaðir armkrikar kvenna í fullum blóma eru breska ljósmyndaranum Ben Hooper svo hugleiknir að hann lagði upp í það vandasama verk fyrir nokkru að fanga „náttúrulega fegurð kvenlíkamans” á filmu, en serían sem hefur verið nokkur ár í vinnslu og birtist nú í fyrsta sinn, hefur vakið talsverða athygli á samskiptamiðlum víða um heim.

 

Sjálfur segir Ben að tilgangurinn með seríunni, sem ber einfaldlega nafnið  Natural Beauty  hafi verið sá að ögra viðurkenndum gildum og því sem hann vill kalla „samfélagslegan heilaþvott” sem fegurðariðnaðurinn standi að baki.

 

07-Natural_Beauty

 

Serían, sem var frumsýnd gegnum vefmiðilinn Huffington Post fyrir fáeinum dögum, sýnir portretmyndir af ungum stúlkum með kafloðna armkrika í fullum blóma. Ljósmyndir Hopper þykja varpa ögrandi ljósi á einstaklingsbundna fegurð hverrar konu; vöxt líkamshára þeirrar sömu og um leið þjóna sem æpandi áminning þess að konan er fallegust þegar hún er hvað eðlilegust ásýndar.

 

14-Natural_Beauty

 

Eftir því sem árin hafa færst yfir mig, hefur mér lærst að meta fegurð loðinna armkrika kvenna í allri sinni dýrð” sagði Ben í viðtali við Huffington Post. „Mér finnst þetta útlit konu fallegt ásýndar.”

En þar með er ekki öll sagan sögð, því ein fyrirsætan, sem lagði það óvenjulega verk á sig að safna hárum undir handarkrikana fyrir myndatökuna, féll frá verkefninu í miðjum klíðum þar sem loðnir armkrikar hennar sjálfrar vöktu svo mikinn viðbjóð hjá konunni að hún gafst upp, rakaði sig vandlega undir höndunum og hætti við allt; neitaði hreinlega að sitja fyrir hjá manninum með myndavélina.

04-Natural_Beauty-copy2

 

„Í sjálfu sér er tilgangur seríunnar að varpa fram þessum sterku andstæðum; hinnar klassísku fegurðarfyrirmyndar sem tískuiðnaðurinn mærir og svo hinu hráa og dýrslega aðdráttarafli sem náttúrulegar konur með loðna armkrika búa yfir” – segir Ben ennfremur.

„Ég er sannfærður um að serían eigi eftir að koma talsverðum fjölda fólks á óvart og býst við, á ákveðinn hátt, að það sé tilgangur minn líka. Að sjokkera fólk á jákvæðan máta, að koma á óvart.”

08-Natural_Beauty

 

 

En þó ætlun Ben sé að ögra viðurkenndum hugmyndum um fegurð segist hann síður en svo vera að leggja til að konur fari að umgangast líkama sinn á annan hátt; að tilgangurinn sé ekki sá að umbreyta viðhorfum kvenna til eigin líkamshára. Né heldur hvað eigi að gera við þau.

 

„Nei, nei. Tilgangurinn er ekki sá að hvetja konur til að leggja frá sér rakvélina og láta sér vaxa líkamshár. Alls ekki. En það er vissulega valmöguleiki sem fólk ætti að íhuga líka. Tilgangurinn er einfaldlega sá að vekja fólk til vitundar um hvað í raun er fagurt. Það er allt.” 

 

02-Natural_Beauty-copy2

 

 Vefsíðu breska ljósmyndarans Ben Hopper má líta augum HÉR

SHARE