Hið fullkomna sumarfrí, frábær kærasti sem kemur færandi hendi með rósir, guðdómlegar máltíðir og ótrúleg afrek á sviði útivistar og íþrótta. Gullfalleg börn, gleðilegar fregnir og gallharðir stuðningsmenn.
Ef lífið væri jafn réttlátt, gott og undursamlega einfalt í eðli sínu og stöðuuppfærslur vina og kunningja vilja oft meina, þá væru sennilega engin stríð háð í heiminum, aukakíló heyrðu sögunni til og uppeldi barna væri leikur einn.
Allt virðist svo auðvelt á Facebook. En er það svo í raun og veru? Getur verið að við staðreyndir tali ekki alltaf sínu máli? Skreytir fólk sannleikann? Í þessari fáránlegu en hárbeittu stuttmynd frá Higton Brothers er farið ofan í saumana á sannleikanum að baki hinum “hamingjusömu stöðuuppfærslum” sem eflaust fara í taugarnar á einhverjum:
[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”QxVZYiJKl1Y”]
Næst þegar ótrúlega stöðuuppfærslu ber fyrir augu þín á Facebook, hafðu þá hugfast að allir slípa sannleikann til þegar að samskiptamiðlum kemur og þeir eru fáir sem leka bláköldum staðreyndum um gráleitan hversdagleikann út á netið – nema ef vera skyldi þegar bregður út af vananum.
Facebook er skemmtilegur leikvöllur en þar takast líka egóin á um líflegustu og litríkustu augnablikin, sem vert er að festa á filmu. Bróðurpartur hversdagsleikans kemst hins vegar aldrei á blað og allir glíma við einhver verkefni sem ekki eru jafn spennandi og látið er í ljós skína á opinberum vettvangi.
Samkiptamiðlar eru skemmtileg tól, en það er kúnst að kunna að sleppa tökunum og grípa lífið eins og það kemur okkur fyrir sjónir í einrúmi. Fangaðu augnablikið og umfaðmaðu einfeldnina sem fólgin er í daglegu lífi – í stað þess að agnúast út í montið sem lesa má í formi stöðuuppfærslna á netinu. Það er dásamlegt frelsi fólgið í því einu að sleppa.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.