Þegar búið var að dæma drenginn sem er átta ára fyrir að myrða þrjú börn, þar á meðal systur hans var honum lýst sem „yngsta raðmorðingja Indlands“. Öll fórnarlömb hans voru innan við árs gömul.
Armadeep Sada, sonur bláfátækra hjóna frá héraðinu Bihar í austurhluta landsins mætti fyrir rétti í dag og er ákærður fyrir að hafa myrt sex mánaða gamalt stúlkubarn að nafni Kushboo sem hann er sakaður um að hafa rænt ásamt tveim öðrum börnum síðastliðinn þriðjudag.
Móðir Kushboo, Chunchun Devi, sagðist hafa skilið barnið eftir í ungbarnaskóla þorpsins til þess að það gæti fengið sér lúr meðan hún sjálf lauk við húsverkin. Þegar hún kom til að ná í barnið var það horfið.
Þegar þorpsbúar báru sakirnar á Sada játaði hann morðin og benti á staðinn þar sem hann hafði reynt að koma líkunum fyrir í grunnri gröf.
Þá játaði drengurinn fyrir lögreglunni að hann hann hafi myrt átta mánaða gamla systur sína fyrir þrem mánuðum og sex mánaða frænku sína fyrir ári.
Amit Lodha, lögreglustjóri sagði að drengurinn væri geðveikur og væru fagmenn nú að rannsaka hann.
Frændi drengsins tjáði blaðamönnum að fjölskyldan og einhverjir úr þorpinu hafi vitað um tvö fyrstu drápin en ekki hafi verið tilkynnt um þau af því þau voru álitin „fjölskyldumál“.
Shatrudhan Kumar, yfirmaður Bihar lögreglunnar sagði að öll hafi börnin verið myrt á andstyggilegan hátt. „Hann fór með þau út á bersvæði og barði þau með steini og drap þau þannig“.
“Búið er að ákæra hann fyrir morð,” bætti hann við.
Þegar lögreglan var spurð um andlegt ástand drengsins svaraði hún að Sada hafi bara brosað og beðið um kex þegar hann var spurður um morðin.