9 leiðir til þess að hressa upp á hversdagslegan hafragraut

Mér finnst hefðbundinn hafragrautur ferlega leiðinlegt fyrirbæri. Bragðlaus og óskemmtilegur. Hann er hins vegar ljómandi góður grunnur fyrir frjótt ímyndunarafl. Það má bæta ýmsu við grautinn sem gerir hann alveg glimrandi gleðilegan. Bragðbetri og skemmtilegan.

1. Kaffi – stundum slæ ég tvær flugur í einu höggi og bý mér til kaffihafragraut. Þá nota ég ekkert vatn heldur sýð haframjölið í kaffi. Kaffi er gott. Hafragrautur er góður. Þessi blanda getur bara ekki klikkað.

IMG_4506

2. Chiafræ – láttu tvær vænar matskeiðar af chiafræjum liggja í svipuðu magni af vatni á meðan þú útbýrð grautinn þinn. Hrærðu síðan fræin saman við herlegheitin. Áferð grautsins verður unaðsleg.

3. Banani – stappaðu hálfan banana og hentu í pottinn fyrir suðu. Gerir alveg glás fyrir bragðið af grautnum.

4. Hampfræ – það er ægilega gott að setja vel af hampfræjum yfir grautinn rétt áður en á að snæða hann. Þau eru bæði bragðgóð og stútfull af hollustu. Gefa líka svo fína áferð. Já, mér er mjög umhugað um áferð hafragrautsins míns.

hemp-seeds

5. Þurrkaðir ávextir – hvers kyns þurrkaðir ávextir eru algjört hnossgæti í hafragraut. Rúsínur, döðlur, fíkjur, þurrkað mangó, apríkósur, sveskjur – það er allt leyfilegt. Fínt fyrir þarmana að þruma fáeinum sveskjum í grautinn.

6. Kókosolía – það er eiginlega stórfenglegt að skella matskeið af kókosolíu út í sjóðheitan grautinn. Hræra vel saman. Bragðið verður kókskennt og ó svo gott.

7. Hnetur – lúka af hnetum yfir fulla grautarskál. Gerir grautinn svolítið ,,krönsí” – agalega gott.

8. Hnetusmjör – hafragrautur og hnetusmjör er blanda sem ég hef átt í áralöngu ástarsambandi við. Ég bý mér til graut, næ mér svo í vel kúfaða matskeið af hnetusmjöri og sting ofan í skálina. Svo borða ég grautinn með skeiðinni og fæ dálítið hnetusmjör í hverjum bita. Guðdómlegt!

IMG_6107

9. Nutella – ég nota hið dásamlega súkkulaðismjör á sama hátt og hnetusmjörið. Nema bara á laugardögum. Stundum sunnudögum. Og á vonlausum mánudögum.

Að sjálfsögðu má blanda þessu öllu saman. Minn uppáhalds grautur inniheldur chiafræ, kókosolíu, rúsínur og tæplega tonn af hnetusmjöri.

Tengdar greinar:

Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum – uppskrift

Morgunmatur barna um heiminn

14 bestu fæðutegundirnar til að borða í morgunmat

SHARE