Einhleypar konur. Orðin ein nægja til að sleppa hugarfluginu lausu. Öll höfum við okkar hugmyndir um einhleypar konur; ýmist segir fólk einhleypar konur vera bölvaðar glyðrur sem flaðri upp um alla álitlega piparsveina eða forpokaðar kattarkonur sem gráti ofan í vasaklútinn um hverja helgi.
Auðvitað er svo ekkert hæft í þessum alhæfingum, einhleypar konur eru einfaldlega venjulegar konur sem eiga ekki maka. Engu að síður er gaman að velta steininum; staðalímyndir taka á sig svo fjölbreytilegar ásjónur og einhleypar konur virðast gjarna berskjaldaðri fyrir áleitnum augum Gróu gömlu á Leiti en ætla mætti.
Flestir virðast hafa skoðanir á einhleypum konum. Einhleypar konur eru enda ýmist álitnar gyðjur í eldhúsinu sem roðna upp í hárrætur gangi frambærilegur einstaklingur af hinu kyninu hjá, ómótstæðílegir hjónabandsmiðlarar, slyngar í samskiptum, óútreiknanlegar með öllu, í einhverjum tilfellum hjónabandsdjöflar og svona mætti lengi áfram telja.
Hvaða ástæður sem konur kunna að hafa fyrir því að velja einhleypan lífsstíl, er það eitt nokkuð ljóst að veröldin er óþreytandi við að mynda sér skoðanir á þeim hinum sömu. Hér fara þær, tíu erkitýpur einhleypra kvenna séðar gegnum linsu veraldarinnar:
.
.
Sú endurfædda:
Þessi kona skrifaði nýverið undir skilnaðarpappírana. Sambandsslitin drógust að öllum líkindum á langinn, ferlið var sársaukafullt og dramatískt. Hún er einbeitt og staðráðin, rís tígurlega upp úr öskunni eins og Fönix forðum og festi nýverið kaup á sínum fyrstu pinnahælum til fjölda ára. Hárið er slegið, hún brosir meira en áður og gott ef hún festi ekki kaup á nýju ilmvatni fyrir skömmu. Þessa konu má finna í ræktinni. Hún er sú glæsta þarna í vinstra horninu og virðist hafa yngst um tíu ár.
.
Alsjáandinn:
Þessi kona er ekki skyggn – en hún er aftur a móti ógurlega næm. Í stöðugu sambandi við liðna ættingja og fylgjendur – sækir miðilsfundi reglulega, veit hvaða sjáendur eru í tísku þetta árið og stúderar stjörnuspánna af miklum móð. Reki myndarlegan mann á fjörur hennar, spyr hún fyrst að fæðingardegi og áður en kvöldið er á enda er stjörnukort í fæðingu. Hún geymir draumráðningabók á náttborðinu og kíkir gjarna í bolla fyrir allt hverfið.
.
Sú eðalborna:
Stúlkan þessi er sögð gera svo gríðarlegar kröfur í einkalífinu að enginn leið sé til að uppfylla óskir hennar. Hún opnar hvorki dyr né skiptir um dekk, geymir naglaþjöl og demantaskrýddan snyrtispegil í veskinu og brosir blíðlega en annars hugar þegar hrósyrði eru látin falla í hennar návist. Listina að daðra kann hún upp á tíu og grípur til gullbrossins þegar svo liggur á henni. Dulúðug í einkalífinu, fámál um eigin hagi en ávallt óaðfinnaleg til fara. Þessi skvísa kann að skjóta út mjöðm og bregða undir sig betri fætinum þegar myndarlegan mann ber á fjörur hennar.
.
Ofurmóðirin:
Þessi kona þráir að verða móðir. Hún fann upp hugtakið „klingjandi eggjastokkar” og horfir draumkennd á barnavagna, horsnýttar barnsnasir og sandi ataðar húfur. Kann uppeldisfræði upp á tíu og prjónar gjarna litla vettlinga. Hún verður stórkostleg móðir þegar tækifærið loks rennur upp, en þar til dagurinn sá lítur ljós er hún sennilega þegar búin að koma barnahópi vinkvenna sinna á legg og fer fram á vera kölluð „frænka”.
.
Brúðkaupshvíslarinn:
Þessi kona er ástfangin af ástinni. Er áskrifandi að brúðarvörulistum sem hún geymir laumulega undir borði. Hún kann athöfnina sjálfa utanbókar og væri vís með að giftast sjálfri sér ef í harðbakka slær, grætur laumalega í brúðkaupum vinkvenna og horfir hugfangin á rómantískar gamanmyndir. Í sjálfu sér er það ekki hjónabandið sjálft sem heillar stúlkuna heldur umgjörðin sjálf; hvíta rimlagrindverkið, börnin rjóð i kinnum og hveitibrauðsdagarnir …
.
Síðblómstra pæjan:
Hún var seinþroska á táningsskeiðinu, eignaðist sinn fyrsta elskhuga þegar líða var tekið að þrítugu og er enn að undrast yfir flóknum stígum einkalífsins á fertugsaldri. Hún er samviskusöm á vinnumarkaðinum og metorðagjörn en fer nær aldrei á stefnumót. Þessi kona er með allt sitt á hreinu – nema samlíf manns og konu – en á móti kemur að hún verður ung fram á elliár og yfir henni vakir þessi eilífi æskubjarmi.
.
Kærulausa beibið:
Ó, hún fer á stefnumót öðru hverju þessi stúlka. Og hefur átt elskhuga í skjóli nætur; ástsjúka karlmenn sem horfa angurværir í humátt á eftir baksvip hennar hverfa með undarlega afslöppuðu ívafi upp í leigubíl við sólarupprás. Hún kærir sig kollótta um skuldbindingar, lifir fyrir líðandi stund og smellir tyggjókúlum framan í veröldina. Leyndarmál hennar er einfalt; hún hefur aldrei orðið ástfangin í raun og veru og á langt í land áður en hún kolfellur kylliflöt fyrir álitlegum sjarmör sem sviptir veröldinni undan fótum hennar.
.
Nándarfælan:
Hún þráir ástina! En ástin er ógurlega hættuleg í hennar augum. Þessi kona trúir statt og stöðugt á eigið sjálfstæði, dásamar einhleypa lífsstílinn sem hún svo ekki þolir á sömu stundu – hangir álút yfir einkamálasíðum og er sennilega með nokkra prófíla uppi samtímis. En á sömu stundu er nándarfælunni lítil alvara … hún er gluggaskoðari af lífsins náð. Af og til rekur einhverja skemmtilega vitleysu á fjörur hennar í einkalífinu en hún er fljót að taka til fótana um leið og kunningsskapurinn fer að taka á sig innilegri mynd.
.
Uppreisnargjarna gellan:
Kona sem segir sex. Pínu Angelina Jolie týpa. Ögrandi, ákveðin og orðhnyttin. Getur verið ferlega fyndin vinkona og skemmtileg í samræðum en hún er erfið í ástum þessi og væntanlega telur veröldin hana óhæfa um að vera í hjónabandi – þar sem flestir telja hana of sjálfstæða í öllum háttum. Þessi kona hikar ekki við að bjóða karlmanni á stefnumót – hún tekur upp tólið þegar henni dettur í hug – slítur sambandinu svo fyrirvaralaust og flýgur því næst til útlanda í helgarferð sem er umvafin leynd og ljóma.
.
Sigurvegarinn:
Konan sem er raunverulega með sitt á hreinu. Hún hefur löngu gert sér grein fyrir því að ástin er yndisleg, að hjónabandið er gjöf sem ekki allir geta höndlað og að lífið er styttra en nokkrum órar fyrir. Að dagurinn í dag er allt sem okkur er gefinn, að einhleypur lífsstíll er ekki á allra færi og að heilsuna megi hún þakka fyrir. Þessari konu líður vel í eigin skinni, kærir sig kollótta um staðalmyndir og Gróu á Leiti; hún veit sem víst er að karlmenn eru munaður – en ekki nauðsyn.
Tengdar greinar:
Sex mýtur um konur sem njóta kynlífs
Það sem einhleypar konur nenna ekki að heyra!
Tók af sér nektarmyndir í 7 ár
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.