Nýársdagur er talinn elsti hátíðisdagur í heimi og má rekja hátíðina allt til Babýloníumanna 2000 árum fyrir Kristburð. Þá voru áramótin reyndar 23. mars og fylgdu komu vorsins og verkum tengdum því s.s. sáningu. Okkur nútímamönnum finnst gjarna að við gerum allt mest og best, en Babýloníumenn slógu okkur gjörsamlega við í hátíðarhöldum. Þeir fögnuðu áramótum í 11 daga samfleytt og var hverjum degi fagnað á sérstakan hátt.
Rómverjar héldu þeim sið að halda áramót en færðu þau til 25. mars, en síðar til 1. janúar á dögum Júlíusar Cesars.
Í kristnum sið lögðust hátíðarhöld af á tímabili, þar sem þau fengu ekki náð fyrir augum kirkjuyfirvalda en byrjuðu aftur á Vesturlöndum um árið 1600.
Áramótaheit
Áramótaheit eru talin ámóta gömul aldamótunum en fyrir 4000 árum virtist fólk ekki hafa haft jafnmiklar áhyggjur af holdafari sínu eða reykingum og nú á tímum því algengasta áramótaheitið var að skila verkfærum sem tekin höfðu verið að láni hjá nágrönnum á árinu.
Hugarfarið að baki áramótaheitum er þó hið sama. Þau fjalla um að bæta sig á einhvern hátt eða ná persónulegum árangri sem ekki hefur náðst fyrr. Áramótin verða eins og krossgötur þar sem gera þarf upp við sig hvert skal halda. Hérlendis er saga heitstrenginga gömul. Dæmi er um slíkt í fornsögum, þótt þær heitstrengingar tengist ekki áramótum. Fyrstu ungmennafélagsmennirnir endurvöktu þennan sið upp úr aldamótum, stigu á stokk og strengdu heit. Fræg er sagan af Jóhannesi Jósefssyni sem kenndur var við Hótel Borg. Hann var einn af stofnendum Ungmennafélags Akureyrar og steig á stokk á fundi félagsins og strengdi þess heit að vinna Íslandsglímu á Þingvöllum eða verða minni maður ella. Eftir að hafa hjólað á Þingvöll frá Akureyri í einum spreng keppti hann í glímunni, en varð minni maður því hann tapaði glímunni. Þekktasta áramótaheitið er líklega það sem maður nokkur strengdi er hann sagði að hann ætlaði að ná því að verða hundrað ára eða liggja dauður ella.
Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að nú á dögum snúist mörg áramótaheit um mat, sígarettur, áfengi og sparnað. Desember er mánuður óhóflegrar neyslu, neyslu sem jafnvel hefur skilið eftir sýnileg merki á okkur sjálfum eða nánasta umhverfi okkar. Með þessi merki fyrir augunum vaknar upp vilji eða áhugi á að breyta lífsvenjum sínum til batnaðar.
Það má segja að þetta sé einmitt það besta við áramótaheitin, þ.e. að við finnum þörf hjá okkur að bæta okkur. Einu sinni sagði forsætisráðherra okkar í áramótaávarpi að vilji væri allt sem þyrfti til breytinga. Það er vissulega rétt að viljinn er mikilvægasta forsendan fyrir því að breytingar eigi sér stað, en meira þarf til. Mörg áramótaheit renna út í sandinn skömmu eftir að þau eru sett. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Gamlar venjur eru fastar í sessi og taka völdin áður en við áttum okkur á því. Það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Einnig kemur árangur erfiðis sem fylgir áramótaheiti ekki ætíð strax í ljós og biðin getur orðið sumum ofraun og þeir missa móðinn.
Það er mikilvægt að undirbúa framkvæmd heitsins ef vel á að takast til. Hér á eftir fara nokkur heilræði til þeirra sem ætla að standa við heit sitt.
1. Áramótaheit á ekki að vera skyndiákvörðun
Þú þarft að undirbúa áramótaheitið, skoða vel hvað það felur í sér. Velta fyrir þér hvernig þú ætlar að bregðast við mótbyr og meðbyr.
2. Stígið á stokk og strengið heit – gerið heitið opinbert
Mikilvægi félagslegs aðhalds getur verið mikið og því getur verið gott að gera heit sitt öðrum kunnugt. Með því njótum við stuðnings umhverfisins við heitið en einnig förum við ósjálfrátt að reyna betur til að verða ekki „minni menn“ í augum annarra.
3. Settu markið ekki of hátt í áramótaheitinu – raunsæi skiptir máli
Reyndu að halda aftur af barnslegri óskhyggju og settu þér raunhæf markmið í áramótaheitinu. Þegar hugurinn hvarflar að breytingum getur óskhyggjan hæglega tekið völdin og við sjáum okkur ná árangri sem engan veginn er raunhæfur. Það er ekki nóg að heitið sé strengt af einlægni. Þú þarft að gera áætlun um hvernig því skuli náð. Með raunhæfum markmiðum eykurðu líkurnar á að geta staðið við áramótaheitið.
4. Hafðu heitið nákvæmt
Þú verður á einhvern hátt að geta metið árangur þinn, eða sagt sjálfum þér og öðrum að þú hafir staðið við heitið. Almennt heit eins og það að verða „betri manneskja“ á nýju ári er ekki nógu nákvæmt. Það getur verið erfitt að meta hvenær því marki er náð. Betra væri að búta slíkt heit niður í einingar. Dæmi um atriði gæti verið: „Ég ætla ekki að æsa mig við maka minn þótt hann skilji sokkana sína eftir í stofusófanum þegar hann fer að sofa á kvöldin“, eða „ég ætla að heimsækja Beggu frænku tvisvar á árinu“ eða „ég ætla með Sigga son minn vikulega í sund á árinu“. Með því að búta heitið niður verður tilfinningin fyrir því að markinu verði náð sterkari. Ef þú ætlar t.d. að léttast um 10 kg. fyrir 1. júní má breyta því í 2 kg á mánuði, 500 g á viku eða aukningu á brennslu um 500 kaloríur á dag! Það lítur alls ekki svo illa út að brenna 500 kaloríum meira á dag, en 10 kg virðist e.t.v. fjarlægur draumur.
5. Skráðu árangurinn
Þótt þú hafir ágætis minni, getur verið gott að skrá árangurinn. Á erfiðum stundum er gott að skoða hvað hefur áunnist. Í hinni undurfallegu mynd „Lífið er dásamlegt“ hafði faðirinn nákvæma tölfræði yfir þann árangur sem náðst hafði í lífsins leik fangabúðanna. Það gæti verið gott upphaf á áramótaheiti að horfa á þessa kvikmynd – aftur ef þú hefur séð hana áður.
Að lokum… gangi þér vel!
Nokkrar vefsíður um áramót og áramótaheit:
http://www.how-to-keep-your-new-years-resolution.com/
http://wilstar.com/holidays/newyear.htm
http://www.cnn.com/TECH/computing/9901/04/resolutions.idg/
http://www.stretcher.com/stories/99/991227i.cfm
Búð sem selur bækur o.fl. til að hjálpa þér að halda áramótaheitin:
http://hiaspire.com/newyear/store/index.html
Tengdar greinar:
Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur!
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.