Sorg eftir sjálfsvíg

Sá sem lendir í að missa náin ættingja/vin í sjálfsvígi þarfnast hjálpar og aðstoðar ættingja, vina og mögulega sérfræðinga. Það er ekki síður mikilvægt að hugsa um að gera ráðstafanir til að HJÁLPA SÉR SJÁLFUM. Það ert þú sjálf(ur) sem setur mörkin fyrir aðstoð og hve „hratt“ þú þiggur hana. Að vissu leyti getur þú bæði stytt eða lengt þann tíma sem er sársaukafyllstur í sorginni.

Vitsmunastigið.

  • Leyfðu þér að syrgja. Það er engin leið fram hjá sorginni, þú verður að takast á við hana til að lifa af. Það er mikilvægt að horfast í augu við sársaukann. Mundu að vinna með sorgina.
  • Um leið og þú getur, farðu þá að takast á við staðreyndina að þetta var sjálfsvíg. Þeim mun lengur sem þú forðast það, þeim mun erfiðara verður að ná tökum á sorginni. Hafðu staðreyndir sem mest á hreinu um sjálfsvígið eftir því sem hægt er, hvers vegna og hvernig. Að vita staðreyndir léttir af óvissunni og gerir þér kleift að horfast í augu við að þetta var sjálfsvíg.
  • Það gæti verið rétt að koma inn á sjálfsvígið í minningarræðunni.
  • Óttastu ekki að nota orðið sjálfsvíg. Það gæti tekið þig nokkra mánuði að geta sagt það en reyndu áfram.
  • Það er best að vera heiðarlegur við nánustu ættingja og vini um sjálfsvígið. Ef þú ert ekki heiðarlegur við þau þá ert þú ávallt í vafa um hvort þau vita og hve mikið þau vita. Þú getur þá ekki leitað jafn mikið til þeirra og þetta leiðir til einagrunar og einmanaleika.
  • Ekki halda að allir ásaki þig eða hugsi illa til þín. Þeir finna örugglega til með þér en vita ekki hvað þeir eiga að segja eða gera
  • Vertu meðvituð/aður um að önnur eldri sorg getur haft áhrif
  • Ekki vera of kröfuhörð/harður á sjálfa þig. Reiknaðu með ákveðnu stressi, dagdraumum, og kvíða vegna framtíðarinnar
  • Ekki vera of kröfuhörð/harður á aðra. Þeir geta ekki komið til móts við allar þínar þarfir í sorginni.
  • Ekki gera öðrum erfitt fyrir að styðja þig. Margir geta skilið hvernig þér líður án þess að hafa upplifað það sama.

Tilfinningastigið.

  • Tilfinningar þeirra sem eftir lifa eru oft einfaldar. Það er mikilvægt að hleypa þeim út. Ef þú lokar á tilfinningar þínar þá koma þær seinna á einhvern annan hátt. Það er öruggt. Þú kemur ekki til með að þjást jafnmikið með því að hleypa tilfinningum þínum út í sorginni eins og þú kemur a.ö.l. til með ef þú ert dugleg(ur) og sterk(ur). Deildu því að „vera að brotna saman/gefast alveg upp“ með þeim sem standa þér næst.
  • Ekki forðast né óttast að biðja um aðstoð frá þeim sem standa þér næst þegar þú þarft að því að halda. Það er svo mikill sársauki sem „sleppur“ í gegn því viðkomandi vill ekki angra aðra með erfiðleikum sínum.  Vildir þú ekki að sá sem stendur þér nær bæði um aðstoð ef hann þarfnaðist hennar? Sumir þeirra sem eru nærri þér geta ekki aðstoðað þig í sorginni. Þannig er það bara. Leitaðu til einhvers sem þú getur talað við, sorgarhóps, vina, annarra sem hafa lifað af sjálfsvíg, ….
  • Sumir syrgjendur velja að draga sig út úr, einangra sig frá vinum og ættingjum og eru langtímum saman einir í vanlíðan sinni. Þetta getur verið gott í fyrstu en ekki til langframa.
  • Það er mjög eðlilegt að halda að þú sért „að verða vitlaus“. Mundu að þetta eru algeng viðbrögð hjá þeim sem hafa upplifað mikið áfall og þú ert að bregðast við slíku.
  • Búðu þig undir að vinir og ættingjar geta sagt eitthvað sem þér finnst grimmt og óþægilegt. Það er þá vegna þeirra eigin sársauka og vanlíðunar.
  • Ekki forðast að segja öðrum í kringum þig hvernig þér líður. Þú þarft sennilega að minna aðra á að þú ert ekki alveg með sjálfri þér. Nefndu við þá hve mikils þú metur þolinmæði þeirra og umhyggju.
  • Sumum finnst, að þeim mun minna sem sagt er þeim mun betra og að allir ættu að reyna að gleyma þessu. Rannsóknir sýna að þetta er versti kosturinn og árangurminnsti. Eftirlifendur verða að geta losað um tilfinningar sínar og borið fram spurningar sínar en ekki loka á þær.
  • Þú skalt vinna með sektarkenndina. Það sem hefur gerst er utan þíns áhrifasvæðis. Að ásaka sig fyrir það sem aðrir hafa gert er óraunsætt og skaðlegt.
  • Lestu um sjálfsvíg og sorg. Lesturinn mun ekki losa þig undan sársaukanum og spurningunum en það hjálpar við að skilja og bendir á leiðir til að lifa af.
  • Það er nauðsynlegt að horfast í augu við mistök okkar. Það er svo margt sem við reyndum að gera. Það er svo margt sem við gátum ekki gert. Að sættast við ófullkomleika okkar getur hjálpað í sorginni
  • Ef þú ert með sektarkennd, spurðu þá sjálfan þig að því hvað það er sem ásækir þig mest. Talaðu um sektarkennd þína við traustan vin eða fagmann eða viðurkenndu sekt þína fyrir guði. Að segja sannleikann um hvers vegna þú upplifir sektarkennd mun hjálpa þér. Fyrirgefðu þér, biddu um fyrirgefningu frá fjölskyldu og frá guði. Reyndu síðan að átta þig á að það sem gerðist er LIÐIÐ. Það er ekkert sem þú getur gert við því. Taktu ákvörðun um að lifa héðan í frá eftir bestu sannfæringu. Fyrirgefningin stuðlar að því.
  • Þú getur lært af sektarkenndinni og breytt hegðun þinni í framtíðinni. Við lærum og þroskumst af mistökum okkar.
  • Depurð er algeng hjá þeim sem syrgja. Gættu þess að draga þig ekki út úr og loka þig af. Þú gætir jafnvel hugsað sjálf(ur) að þig langi ekki til að lifa lengur og e.t.v. um sjálfsvíg. Leitaðu þér þá aðstoðar sem fyrst ef þér líður þannig.
  • Stilltu upp auðum stól og settu mynd af þeim látna í hann. Segðu þar frá öllu sem þú hugsar og hvernig þér líður með það sem gerðist, rifjaðu upp góðu stundirnar og talaðu um sektarkennd þína. Þetta er leið til að viðra allar ruglingslegu hugsanirnar og reyna að ljúka því sem ólokið var.
  • Sumir eftirlifendur byggja múra í kringum sig af því þeir óttast að verða aftur fyrir sársauka. Þeir fara svo mikils á mis við að lifa þannig. Það er mikilvægt að elska og njóta fólksins í kringum sig í stað þess að fjarlægjast það.
  • Það er auðvelt og skiljanlegt að vorkenna sjálfum sér en – of mikil sjálfsvorkun getur leitt til reiði, biturðar og þunglyndis.
  • Reiði þín getur beinst að Guði, þeim látna, sjálfum þér og öðrum eða þú ert bara reið(ur). Það er mjög mikilvægt að gefa reiðinni lausan tauminn. Auk þess sem nefnt hefur verið getur þú farið á afvikinn stað og öskrað, lamið box-púða, leikið tennis, lamið í kodda, synt, o.s.frv. Reiði sem ekki er viðurkennd og fær útrás getur snúist gegn þér og verið mjög skemmandi.
  • Það getur verið hjálp í því að vita að hinn látni vildi helst lifa. En á sama tíma treysti viðkomandi sér ekki til að lifa og lét undan sjálfsvígshugsuninni.

 Framkvæmdastig.

  • Það er EKKI gagnlegt að bera sig saman við aðra sem eru eftirlifendur sjálfsvígs.. Það getur verið að þú sért ekki að takast jafn vel á við sársaukann. Mundu að engir tveir takast á sama hátt á við sorgina.
  • Þegar þú ert tilbúin(n) miðaðu þá að þvi að endurheimta heilbrigt líf sem er í jafnvægi með því að víkka áhugasvið þitt. Sem eftirlifandi getur þú velt fyrir þér  verkefnum sem hafa tilgang fyrir þig. Mundu að fara rólega af stað – og nýttu þér vini sem hjálp þér.  Veltu fyrir þér að gera það sem þig langaði alltaf til að takast á við, t.d. að fara aftur í skóla, bjóða fram aðstoð, o.s.frv..
  • Æfðu þig í að taka einn dag fyrir í einu. Segðu við sjálfa(n) þig: „Ég er búin að taka þá ákvörðun að lifa“. Vertu meðvituð/aður um að þú hefur orðið fyrir gífurlegu áfalli og að þú hefur lifað það af.
  • Gerðu aðeins minni háttar breytingar eins og láta klippa þig öðruvísi, færðu til húsgögn en bíddu með að skipta um vinnu, flytja o.s.frv….
  • Þú hafðir ekkert að segja um sjálfsvígið sjálft en þú átt þess kost að vinna úr því og halda áfram. Það getur verið það ERFIÐASTA sem þú þarft nokkurn tímann að gera en þér mun takast það.
  • Besta meðalið við hugarangri er að lifa eins hamingjusömu lífi og hægt er. Við stjórnum hvernig okkur líður með því hvernig við hugsum og með því hvað við gerum. Þú og þínir nánustu vita að þú hefur gert allt þitt besta til að vinna með sorgina og nú ert þú tilbúin(n) til að takast aftur á við lífið þitt eins og það var. Ef einhverjir eiga erfitt með að skilja það skalt þú ekki hafa áhyggjur af þeim. Að lifa af og endurbyggja upp lífið þitt er það sem skiptir máli.
  • Á sérstökum dögum t.d. afmælum, jólum, þegar ár er liðið frá sjálfsvíginu o.s.frv. er mikilvægt að skipuleggja fyrirfram hvernig dagurinn á að vera. Það er hægt að hittast með nánustu vinum og ættingjum, eða á einhvern hátt að finna leið til að mýkja minningardaginn. Það verður öruglega ekkert gott en getur verið sársaukaminna ef þú væntir ekki of mikils af þér og öðrum.
  • Ef það er passar inn í skalt þú hvetja til fræðslu í umhverfi þínu um hvernig það er að vera eftirlifandi sjálfsvígs. Það eru margir sem vilja getað hjálpað en vita ekki hvað á að segja eða gera.
  • Mundu að þú ert ekki ein(n) um að syrgja eftir sjálfsvíg. Ef þú fréttir af sjálfsvígi gæti verið að þú vildir skrifa smábréf til þeirra og kannski gefa upp símanúmerið þitt.
  • Hugsaðu: „Ég ætla að …“, „ég get …“ og „langar til að …“ í stað þess að hugsa „ég ætti að …“

Að lifa af sem fjölskylda.

  • Vertu vakandi gagnvart hinum fjölskyldumeðlimunum. Mundu að láta þá vita að þú elskir þá.
  • Vertu næm(ur) á hvernig öðrum í fjölskyldunni líður.
  • Hlustaðu eftir því sem fólk meinar en ekki bara því sem það segir.
  • Taktu fólki eins og það er sem það segir.
  • EKKI sýna hvort öðru tómlæti og nota þögnina. Það hefur mjög neikvæðar afleiðingar.
  • Hlustaðu. Gefðu öðrum líka tækifær á að tala.
  • Munið eftir að taka utan um og snerta hvert annað við hvert tækifæri.
  • Ef depurð, sorg eða önnur vanlíðan og vandamál koma upp í fjölskyldunni leitið þá aðstoðar fagaaðila.
  • Verið meðvituð um að sérstakir dagar geta verið fjölskyldunni erfiðir.
  • Mundu að þú getur ekki aðstoðað aðra ef þú er að brotna saman. Gerð þitt besta og leitaðu aðstoðar með það sem þú getur ekki gert.
  • Rannsóknir sýna að sjálfsmynd eftirlifenda sjálfsvíga er mjög slök. Það er mikilvægt að styrkja jákvæða sjálfsmynd með því að styrkja og hrósa.
  • Ef það er kveðjubréf ræðið þá saman um hvað eigi að gera við það. Ef þið teljið að það færi ykkur aðeins sársauka er hægt að brenna það með athöfn.

Tillögur fyrir þá sem vilja hjálpa þeim sem missa í sjálfsvígi.

Þeir sem syrgja og á ekki síst þeir sem syrgja eftir sjálfsvíg þarfnast stuðnings og aðstoðar sinna nánustu. Oft eru þeim þannig farið að það er eins og þeir eigi erfitt með að standa einir. Það er þá okkar að rétta út hendina og styðja þá. Það sem þeir þarfnast er umhyggja , hlýja og væntumþykja. Með tímanum, betri skilningi og stuðningi vina munu afleiðingar sjálfsvígsins mýkjast. Eftirfarandi tillögur eiga við að hluta til srax eftir sjálfsvíg þar á meðal jarðaförina og eins lengi og þörf er á.

  • Gerðu þér far um að koma í kistulagningu og í jarðaförin.. Áfallið, afneitunin og erfiðleikarnir að horfast í augu við sjálfsvígið er yfirþyrmandi fyrir þá sem eftirlifa. Þeir þurfa ALLAN þann stuðning sem þeir geta fengið.
  • Hegðaðu þér eins og þú ert vön/vanur þegar þú ferð í kistulagninguna eða jarðaförin. Þetta er ekki auðvelt þar sem þig langar sérstaklega mikið til að votta samúð en þú veist ekki hvað á að segja. Fá orð duga best. „Mig tekur þetta svo sárt. Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig því ég þekki ekki hvernig þetta er sem þú ert að fara í gegnum“. Taktu í hendina á þeim, fyrir alla muni taktu utan um þá og ekki finnast að þú þurfir endilega að segja neitt.
  • Ekki finnast erfitt að gráta í augsýn annarra ef sá látni stóð þér nær. Oft eru það eftirlifendurnir sem reyna að hugga þig en á sama tíma skilja þeir tárin þín og finna að þeir eru ekki einir í sorginni.
  • Sektarkennd eftirlifenda sjálfsvíga gerir það að verkum að þeir eiga á hættu að vera næmari en aðrir sem syrgja fyrir því hverjir sýna stuðning og hverjir ekki. Þess vegna er mikilvægt að koma í heimsókn, senda kveðju og sýna umhyggjuna á þann hátt á næstu vikum eða mánuðum.
  • Vertu meðvitaður um að sársauki eftirlifenda sjálfsvíga er svo mikill að oft er auðveldara að fara í afneitun. Vertu skilningsrík(ur) og þolinmóð(ur). Stundum gefur afneitunin smá tækifæri til að átta sig á áfallinu áður meðvitundin um það en það skellur á aftur.
  • Komdu til þeirra sem eftir lifa sem vinur án fordóma og hindurvitna. Sýndu áhuga og hlustaðu. Eftirlifendur eiga það til að segja bölvaða vitleysu, rugla og endurtaka sig. Þú getur þurft að hlusta á það sama aftur og aftur.
  • Vertu vinur sem hægt er að tala við og hægt er að vera afslappaður með. Vertu til taks til að eyða tíma með þeim sem á þér þurf að halda. Flestir upplifa að besta leiðin til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar og upplifanir er að tala við þá sem þeir geta treyst. Með því að tala áttar fólk sig oft sjálft á líðan sinni og hugsunum og finnur eigin lausnir.
  • Vertu þolinmóður. Oft eru þeir sem eiga erfitt fyrstu manneskjurnar til að átta sig á að þeir eru ekki auðveldir í samskiptum en þeir þarfnast þess að fólk umberi þá þangað til sorgin mýkist.
  • Eftirlifendur sjálfsvíga hafa allan rétt á að vera viðkvæmir. Sumt fólk reynir markvisst að forðast þá. Þeir fara yfir götuna eða láta sem þeir sjá ekki eftirlifendurna. Þetta eykur á sektarkennd þeirra. Slík hegðun annarra stafar ekki af illgirni heldur frekar af óöryggi um hvað viðkomandi eigi að segja.
  • Hvettu eftirlifendur til að tala. Það er ekki gagnlegt að segja „Vertu ekkert að tala um þetta“. Leyfðu þeim að hella úr sér.
  • Vertu einlægur þegar þú spyrð: „Hvernig gengur þér“ og hlustaðu á viðbrögðin. EKKI koma í veg fyrir að hinn tali, ganga í burtu eða eyða samræðunum ef hinn raunverulega byrjar að tala.
  • Eftir því sem tíminn líður er allt í lagi að segja hve leiður þú sért og að
  • Eftir því sem tíminn líður er allt í lagi að segja hve leiður þú sért og að minnast á sjálfsvígið. Það er huggun fyrir eftirlifendurna að ástvinur þeirra sé ekki gleymdur og að fólk hugsi enn til þeirra í sorginni.

Inngrip í skólum.

Ýmis skref er hægt að taka til að aðstoða þá sem tengjast sjálfsvíginu til að takast á við erfiða líðan, áfallið, reiðina, sektarkenndina og sorgina, koma á eðlilegu starfi í skólaumhverfinu og fyrirbyggja að aðrir komi á eftir.

Markmiðið er að:

  • Koma þeim sem eftir lifa í gegnum sorgarferlið. Það geta verið nemendur, starfsfólk og fjölskyldur.
  • Koma í veg fyrir eftirhermur sjálfsvígsins og styðja þá sem erfiðast eiga og þá sem eru í mestri hættu.
  • Að stuðla að því að eðlilegt skólastarf komist sem fyrst á aftur.
  • Að stuðla að sem mestum bata fyrir skólastarfið og samfélagið í skólanum.

Mikilvægt að áfallateymið:

  • Láti allt starfsfólk vita sem fyrst.
  • Undirbúa skriflega yfirlýsingu fyrir kennara að styðjast við þegar þeir segja frá sjálfsvíginu í bekkjunum. Staðreyndir án smáatriða. Lýsa yfir missinum og sorginni og benda á aðstoð.
  • Undirbúa upplýsingar fyrir foreldra bekkjarfélaga. Svipuð atriði og áðan.
  • Gera áætlun um að finna þá sem eru í áhættuhóp.
  • Styðja við kennara í bekknum. Ræða við nemendur, bjóða upp á einstaklingsviðtöl.
  • Minningarathafnir eiga ekki að vera umfangsmeiri en venja er til við önnur dauðsföll. Ekki tileinka þeim látna neinn sérstakan atburð í skólastarfinu.
  • Hvetja nemendur til að fara í jarðaförina óski þeir þess og þá í fylgd foreldra sinna. Undirbúið þá undir jarðaförina.
  • Vera á varðbergi seinna og koma aftur inn í ef ástæða þykir til.
  • Áfallaaðstoðin í bekk/hóp á að beinast að því að:
  • Enginn annar getur borið ábyrgð á sjálfsvíginu en sá sem dó.
  • Skilja að tilfinningar þeirra séu eðlilegar.
  • Fá tækifæri til að upplifa sársaukann og sorgina.
  • Draga úr “töfraljómanum”og benda á aðrar betri leiðir til fá athygli og að leysa úr vanda.
  • Gefa tækifæri til að ræða önnur dauðsföll eða jarðafarir.
  • Skilja að hugsanir um sjálfsvíg eru algengar en á ekki að framkvæma.
  • Gefa tækifæri til að skrifa samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina hins látna.
  • Hvetja til að rætt sé um sjálfsvígið og hvað þeir læra af því.
  • Benda á hvar sé hægt að fá aðstoð.

 

 Grein þessi er fengin með góðfúslegu leyfi Lífsýnar
Tengdar greinar: 

Syrgjandi brúður sökkti sorginni á botn stöðuvatns

Ástarsorg

Allir hafa sína leið til að syrgja – Reynsla lesanda af sorginni

SHARE