Sólveig Þórarinsdóttir, höfundur bókarinnar Jóga fyrir alla, vann í fjölda ára sem verðbréfamiðlari. Hún var orðin þreytt á lífsgæðakapphlaupinu, sneri við blaðinu og hellti sér út í jógaiðkun. Nú kennir hún jóga og vinnur að opnun eigin jóga- og heilsuseturs sem opnar síðar á þessum ársfjórðungi. Líkt og fleiri Íslendingar taldi hún áður að líkamsrækt þyrfti að einkennast af miklum hamagangi til að bera árangur, síðan prófaði hún heitt jóga og þá var ekki aftur snúið. Hér deilir hún með okkur nokkrum einföldum ráðum sem auðvelda okkur flækjufótunum að stíga skref í átt að bættri heilsu.
Hvað varð til þess að þú fórst ekki einungis að stunda, heldur kenna jóga?
„Ég byrjaði á því að fikta við jóga til hliðar við aðra líkamsrækt því ég vildi fyrirbyggja meiðslahættu og mýkja mig upp. Ég féll svo nánast samstundis fyrir heitu jóga, en það var eiginlega alveg óvænt þróun að ég skyldi fara að kenna. Ég fór fyrir nokkrum árum til Asíu í jóganám vegna þess að mig langaði til þess að dýpka minn eigin skilning á jógaiðkun, með það að markmiði að bæta mína æfingu. En þegar ég hafði lokið náminu gat ég ekki beðið þess að komast aftur heim og miðla áfram því sem ég var að upplifa á eigin skinni. Ég fann strax ríka og sterka þörf fyrir því að gera jóga aðgengilegt fyrir alla.“
Lumar þú á ráðum fyrir fólk sem vill ná sér niður eftir jólastressið og hefur einsett sér að hugsa betur um heilsuna á nýju ári. Er jóga ekki tilvalin leið?
„Ég fullyrði það að jóga henti öllum því fjölbreytileikinn er svo gríðarlegur að allir ættu að geta fundið sinn stað. Ég er persónlega afar mótfallin hvers kyns átaki og skyndilausnum eftir að hafa prófað það margoft sjálf. Lykillinn að breyttum lífstíl er að taka viðráðanleg skref og ekki refsa sér fyrir hliðarsporin. Leiðin að góðu og réttu mataræði er vandrötuð en það er jafnframt algjört grundvallaratriði í bættri heilsu.“
Hverjr eru helstu kostir jógaiðkunar fyrir líkama og sál?
„Við Íslendingar höfum lengi verið afar líkamsmiðuð í okkar heilsurækt og það er gott og gilt, ef við byrjum á því að telja upp nokkur atriði sem jógaiðkun skilar í líkamlegum ávinningi er auðvelt að nefna þyngdartap, aukinn lið- og hreyfanleika, meiri styrk, úthald og þol. Þennan ávinning dýpkar þú enn frekar ef þú stundar jóga í heitum og rökum aðstæðum. En eins og með allt sem okkur langar til þess að ná árangri í þá þurfum við að rækta það og æfa markvisst, einn jógatími gerir takmarkað gagn. Varðandi andlega hlutann þá var það mín upplifun að sá ávinningur læddist á ánægjulegan hátt aftan að mér. Ég öðlaðist meiri núvitund og sjálfstjórn og fann í fyrsta skipti fyrir fullkomnlega endurnærandi áhrifum sem ég hef alltaf verið að sækjast eftir í hug- og heilsurækt en aldrei náð að fullu.“
Finnst þér íslendingar huga fremur að útliti, þ.e. að missa nokkur kíló, í stað þess að huga að vellíðan og bættri heilsu þegar kemur að líkamsrækt? Myndir þú vilja breyta þessu hugarfari?
„Já og nei. Ég finn fyrir miklum breytingum alls staðar í kringum mig, fólk er almennt komið í meiri vitund um að heilsan er lykilatriði í allri okkar velsæld og þá á ég við almenna nálgun á heilsurækt ekki bara hefðbundar æfingar inni á líkamsræktarstöðvum. Hinsvegar mættum við alveg bæta okkur meira, draga úr útlitsdýrkun og leyfa hégómanum að fjara út. Ég kýs að trúa því að bætt heilsa eða besta útgáfan af sjálfum okkur snúist um hvernig við nærum líkama og sál. Erum við meðvituð um eigin hegðunarmynstur og neyslu? Erum við að hreyfa okkur eða „rækta“ líkamann til að þóknast okkur sjálfum eða öðrum? Erum við markvisst að reyna að fækka streituvöldum í lífi okkar? Mín reynsla var sú að eftir að ég fór að stunda jóga að einhverju ráði komst ég loks í fullkomna sátt við eigið sjálf og líkama.“
Margir flækja heilsurækt mikið fyrir sér og finnst þeir jafnvel ekki hafa tíma. Hvað telur þú auðvelda fólki fyrstu sporin?
„Já tímaskortur er þekkt afsökun, en ég vil meina að við þurfum frekar að forgangsraða betur. Ef heilsan er forsenda alls þess sem við njótum í lífinu s.s. góðra fjölskyldustunda, því starfi sem við sinnum og félagslífinu þá verðum við að búa til rými og gefa okkur heimild til þess að sinna okkur sjálfum. Einfaldasta lausnin er að lengja daginn sinn, fara ýmist fyrr á fætur eða seinna að sofa. Það ætti að vera tiltölulega átakalaust að bæta 30-60 mínútum við daginn okkar og velja sér hreyfingu við hæfi. Einnig má endurskoða hvernig hádeginu er varið, kemstu frá 1-2 sinnum í viku? Svo er alveg ókeypis og fullkomlega aðgengilegt að gera jóga heima hjá sér snemma dags eða síðla kvölds eða bara fara í göngutúr.“
Segja jógafræðin eitthvað um matarræði?
„Já þau gera það og það eru afar einfaldar leiðbeiningar eða viðmið sem við ættum að hafa í huga. En það er fyrst og fremst að borða ferska, hreina og heilnæma fæðu (e. Sattvic food) sem er laus við öll eiturefni og hefur ekki verið unnin s.s. heilkorn, ferskir ávextir og grænmeti, pressaðir safar, hnetur & fræ og ákveðnar mjólkurafurðir eins og smjör og rjómi, sem reyndar er umdeilt og allmargir nýta sér aðra kosti s.s. kókosmjólk, möndlumjólk og fleira. Einnig er komið inn á mikilvægi þess að borðað sé reglulega til að styðja við hringrásarferli líkamans sem og gera föstur hluta af mataræðinu. Svo er farið mjög ítarlega í næringu í austurlensku lækningafræðiunum Ayurveda sem oft eru nefnd „sister sience of yoga“.
Það er ágætis viðmiðun að borða ekki síðustu 2 klukkustundirnar fyrir jógaæfingu svo þú getir nýtt orkuna í æfinguna en ekki í meltingu, auk þes sem það er afar óþægilegt að gera jóga með fæðu í maganum. Einn mesti ávinningur þess að stunda jóga að staðaldri er sá að hugurinn og líkaminn leita sífellt í léttara og hreinna fæði sem og aukna vatnsdrykkju.“
Er hægt að stunda jóga heima hjá sér ef maður er byrjandi, eða ráðleggur þú fólki að fá handleiðslu kennara fyrst um sinn?
„Þegar ég skrifaði bókina Jóga fyrir alla þá hafði ég þá sýn að leiðarljósi að hægt væri að nýta hana sér á þann hátt að byrjendur geti fetað sig áfram heima fyrir. Efnið er tiltölulega einfalt, aðgengilegt og skýrt. Í bókinni má finna myndir til frekari leiðbeiningar á allri seríunni, en það er u.þ.b. 50 jógastöður. Það sem er þægilegt við að stunda jóga heimafyrir er m.a. að þú stýrir tímasetningunni, án allra áhrifa eða áreitis úr ytra umhverfi. Það er þó dýrmæt reynsla fyrir byrjendur að sækja einhvers konar námskeið eða tíma hjá faglærðum leiðbeinendum í upphafi.“
Að lokum, hvað viltu segja fólki sem langar að breyta til og taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, en veit ekki alveg hvar það á að byrja?
„Byrja á því að spyrja sig hvað það hefur raunverulegan áhuga á varðandi heilsurækt því það er svo miklu auðveldara að halda sig við efnið á því sem okkur finnst skemmtilegt! Markmiðasetning er sennilega ofnotað orð, en samt sem áður vænleg leið til árangurs. Sérstaklega ef hún er rétt notuð þ.e. hafa markmiðin raunhæf og tímasett. Svo trúa á eigin mátt með staðfestu og þolinmæði að vopni. Ég hvet alla til þess að koma í Sólir jóga & heilsusetur og kynna sér fjölbreyttari stundatöflu en áður þekkist hérlendis, en við erum að vinna að því að opna síðar á þessum ársfjórðungi.“
Eins og áður sagði mun Sólir opna von bráðar, hægt er að fylgjast með gangi mála á www.solir.is og á Facebook. https://www.facebook.com/solirjogaogheilsusetur?fref=ts
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.