Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 3. hluti

Að koma í veg fyrir skapofsaköst.

Skapofsaköst eiga sér oft stað þegar barnið er illa upp lagt, er svangt, þreytt, leiðist eða aðstæður yfirþyrmandi.  Það er því gott að lesa í aðstæður og reyna að átta sig á því ef slíkar aðstæður eru að myndast og koma í veg fyrir að þær verði að vandamáli.  Fínt er að hafa eitthvað snakk í veskinu fyrir barnið, eins og þurrkaðar döðlur eða gulrætur en einnig er mikilvægt að fara ekki með barnið þreytt í búðina.  Þá getur barnið verið að óska eftir jákvæðri/góðri athygli og alltaf best að hún sé veitt áður en allt fer í bál og brand því eitt knús eða 5 mínútna róleg athygli getur veitt foreldrum ansi margar mínútur í frið.

Hér fyrir neðan er uppskrift af hollu nammi sem ég hef oft með mér í veskinu þegar ég þarf að hafa börnin með í erindagjörðum.  Þessa uppskrift fékk ég á vefsíðunni www.samvera.is sem er frábær síða með hugmyndum um ódýra en heilbrigða útivist og afþreyingu sem hægt er að gera með börnunum.  Lára Sigurðardóttir læknir og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum og Sigríður hjúkrunarfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu stjórna síðunni, en þær eru einnig höfundar af bókinni „Útivist og afþreying fyrir börn” sem er frábær handbók sem gott er að grípa í um kvöld og helgar.

 

450 g döðlur
2 dl kakó (cocoa powder)
2 dl chia fræ eða duft
1 tsk vanilluduft
1 tsk kanill
3 dl möndlur eða kasjúhnetur
3 dl pecan eða valhnetur
2 dl kókosmjöl
¼ tsk salt
3-4 msk hnetusmjör
4 msk kókosolía brædd í vatnsbaði
Skvetta af vatni
1 msk lucuma
1 msk macaduft

Aðferð:  Allt þurrefni sett í matvinnsluvél og blandað vel saman. Síðan er kókosolíu og vatni bætt saman við þangað til að deigið loðir vel saman (fínt að hafa það svolítið blautt). Hellið deiginu á bökunarpappír og þjappið vel, með fingrum eða sleif – ég nota stóran bökunarpappír sem ég vef deiginu inn í og nota til að þétta, held þannig höndunum hreinum og matnum ómenguðum. Ef þú mátt vera að þá er gott að kæla deigið yfir nótt áður en það er skorið í bita. Skerið í hæfilega bita og geymið í loftþéttu íláti; ég nota helst ílát úr gleri. Kælið eða frystið afganga.

Athugið! Ef matvinnsluvélin er ekki mjög kraftmikil þá er nauðsynlegt að grófsaxa döðlur & hnetur og blanda því fyrst saman.

 

Sjá nánar á hér!

 

SHARE