Húðkrabbamein, ljósabekkir og sól

Húðkrabbamein tvöfaldast á einum áratug. Á hverju ári greinast um tvö hundruð Íslendingar með krabbamein í húð. Tíðnin hefur tvöfaldast á einum áratug og fimmfaldast á þrjátíu árum. Aukningin er sérstaklega mikil hjá konum undir fertugu. Húðkrabbamein (sortuæxli ) er algengasta krabbameinið í þeim aldurshópi. Aukin tíðni húðkrabbameina er einkum rakin til útfjólublárrar geislunar frá sól og ljósabekkjum en sólböð og þá sérstaklega notkun ljósabekkja hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum.

Húðkrabbamein er að stórum hluta hægt að fyrirbyggja og ef þau greinast snemma eru þau auðlæknanleg. Það er því full ástæða til þess að gæta hófs í sólböðum og notkun ljósabekkja. Mikilvægt er að fara til læknis ef fram koma breytingar á húð eins og blettir sem stækka eða breytast í lögun eða lit.

Útfjólublá geislun

Frá sól og ljósabekkjum kemur útfjólublá geislun sem myndar litarefni í húðinni og við verðum “brún”. Geislunin er tvenns konar, B-geislun (UV-B), sem er orkumikil og hefur mest áhrif á húðina, og A-geislun (UV-A) sem er orkuminni. Útfjólublá geislun getur skaðað húðfrumur og aukið hættu á varanlegum húðskemmdum og húðsjúkdómum. Húðin eldist fyrr við óhófleg ljósböð og sólböð. Hún slitnar, teygjanleikinn minnkar og hún verður hrukkóttari en ella. Úfjólublá geislun getur einnig valdið bruna á hornhimnu augans og jafnvel tímabundinni blindu.

Ljósabekkir og ljósböð

Hlutfall A og B geisla í ljósabekkjum er ekki það sama og í sólarljósinu. Að vera sólbrúnn úr ljósabekk veitir því ekki vörn gegn sólbruna á sólarströnd. Ljósabekkir eru hannaður miðað við perur með ákveðinn styrkleika. Allar leyfisveitingar Geislavarna ríkisins til innflutnings ljósalampa eru skilyrtar við þær perur sem framleiðandinn gerir ráð fyrir eða sambærilegar. Eigendur sólbaðsstofa mega ekki nota sterkari perur en ljósabekkirnir eru hannaðir fyrir.

Ef ljósböð eru endurtekin með of stuttu millibili er hætta á sólbruna veruleg. Ljósböð á ávallt að miða við hversu vel notandinn þolir sólarljós og fylgja á leiðbeiningum framleiðanda eða starfsfólks sólbaðsstofa. Þegar ljósabekkur er notaður í fyrsta sinn er hámarkstími fimm til tíu mínútur. Ýtrasta hreinlætis verður að gæta svo að smitandi sjúkdómar berist ekki milli þeirra sem nota bekkina.

Því miður koma upp mörg tilfelli árlega þar sem fólk og jafnvel börn brenna illa í ljósabekkjum jafnvel svo illa að krefst innlagnar á sjúkrahús.

Varúðar er þörf

Eins og hér hefur verið nefnt er ástæða til að stunda sólböð í hófi og nota ljósabekki með mikilli varúð. Börn og unglingar eiga alls ekki að nota ljósabekki enda húð þeirra viðkvæmari en fullorðinna. Allir sem hafa ljósa og viðkvæma húð, sem brennur gjarnan í sól eða eru með marga fæðingarbletti, ættu ekki að nota ljósabekki. Fullorðið fólk sem vill nota ljósabekki ætti alls ekki að fara oftar í þá en tíu sinnum á ári.

doktor.is logo

Tengdar greinar:

8 ástæður til að taka D vítamín

7 leiðir til að lækna sólbruna – Gott að hafa bak við eyrað á fallegum sólardögum

Húðin og kuldinn, hugsum vel um stærsta líffæri líkamans

SHARE