Lögregla var kölluð til vegna mikilla láta frá íbúð og var talið að þarna væri um heimiliserjur að ræða. Svo reyndist þó ekki vera heldur höfðu húsráðandi og vinur hans verið að spila tölvuleik og höfðu víst rifist vegna hans.
Á milli jóla og nýjárs var maður sleginn þegar hann var staddur á skemmtistað í bænum. Hann rotaðist við höggið og var fluttur á HVE til aðhlinningar. Dyraverðir gátu vísað á árásaraðilann sem viðurkenndi að hafa slegið manninn.
Lögregla stöðvaði bifreið á gamlársdag og er ökumaður hennar grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Við leit á honum fundust svo nokkur grömm af amfetamíni. Gekkst hann við því að eiga efnin og að hafa neitt fíkniefna dagana á undan.
9 rúður voru brotnar í Brekkubæjarskóla á nýjársnótt. Lögregla hafði afskipti af tveimur ungum piltum skammt frá skólanum vegna þessa. Annar þeirra tók til fótanna en náðist aftur. Viðurkenndi sá að hafa brotið rúðurnar í félagi við þann sem með honum var. Hinn hinsvegar kannaðist ekkert við að hafa verið þarna að verki.