Ástarlásar eru skemmtilega skrýtið fyrirbæri; eins konar hengilásar sem elskendur merkja með nafni sínu – hengja svo á brú eða annað mannvirki, áður en þau hin sömu kasta svo lyklunum. Um er að ræða eins konar helgiathöfn elskenda sem vilja með þessu móti innsigla kærleikann og lofa um leið hvoru öðru ævarandi tryggð.
En lásarnir – sem vilja gjarna verða margir – eru níðþungir og þannig hrundu burðarbitar brúarinnar sem hvílir yfir ánni Signu í París síðastliðið sumar. Borgaryfirvöld létu í kjölfarið fjarlægja lásana og koma fyrir glerskilveggjum við handriðið svo elskendur gætu ekki hengt upp fleiri lása og þannig stefnt öryggi almennings í voða.
Fyrsti ástarlásinn á Íslandi skaut upp kollinum nokkrum mánuðum eftir hrun brúarinnar í París – nánar tiltekið í Hallgrímskirkjuturni – en starfsmenn kirkjunnar sögðu við það tækifæri í viðtali við mbl.is að fyrirhugað væri að fjarlægja lásinn, svo ekki fleiri fylgdu í kjölfarið – en ákvörðunin var tekið af öryggisástæðum.
En kærleikurinn finnur alltaf farveg og þannig má finna ástarlása, ástartré og ástarhandrið víðs vegar um veröldina – gullfalleg mannvirki sem standa keik og vitna um mátt ástarinnar, væntumþykjunnar og alls sem fagurt er. Hér fer umfjöllun um tíu slík mannvirki sem standa óhreyfð um víða veröld:
Pont des Arts brúin, París, Frakkland – Ein þekktasta ástarbrú veraldar stendur keik yfir ánni Signu í París en lásarnir hafa nú verið fjarlægðir af borgaryfirvöldum í kjölfar slyss er varð sl. sumar en þá hrundi brúin undan þunga lásana – og ástarinnar.
Hohenzollern brúin, Cologne, Þýskaland – Fyrstu ástarlásarnir skutu upp kollinum árið 2009 á glæstri brúnni sem stendur yfir ánni Rín og bætast fleiri kærleikstákn í hópinn á hverjum degi.
Norður Seúl Turninn, Seúl, Suður Kórea – Hér voru það yfirvöld sjálf sem plöntuðu trjánnum sjálfum á þakgirðingu turnsins. Trén sem eru að sjálfsögðu ekki lifandi – heldur úr málmi gerð – eru hönnuð með það í huga að bera gífurlegan þunga og voru sérstaklega hönnuð með ástarlásana í huga. Þá komu turnverðir einnnig fyrir lyklafötum við rætur trjánna, til að hindra að ástfangnir köstuðu lyklunum á jörðu niður. Þá var handriðið sjálft fjarlægt og glerhandrið sett upp í staðinn, svo ekki væri hægt að hengja ástarlása á sjálft handriðið.
Vodootvodny skurðurinn, Moskva, Rússland – Yndislegt ástartré sem yfirvöld létu koma fyrir á brúnni sem hvolfist yfir Vodootvodny skurðinn í Moskvu. Hér er einunigs um eitt af fjölmörgum slíkum ástartrjám að ræða.
Mount Huang, Kína – Voldug girðingin sem umlykur Mount Huang í Kía er hlaðin ástarlásum, en ástfangnar turtildúfur innsigla ást sína með þessu móti og kasta svo lyklunum niður í hyldýpi dalsins sem liggur fyrir neðan.
Most Ljubavi, Vrnjačka Banja, Serbía – Most Ljubavi, merkir einfaldlega „Brú ástarinnar” og er ein af fimmtán brúm í serbensku borginni Vrnjačka Banja, en það sem gerir þessa brú sérstaka er sá fjöldi ástarlása sem hvíla á brúnni.
Malá Strana, Prag, Tékkland – Á gullfallegri göngubrú í Malá Strana, sem er hverfi innan höfuðborgar Tékklands, Prag, má sjá gnægð ástarlása sem standa keikir og er ætlað að innsigla kærleikann.
Ponte Milvio brúin, Róm, Ítalía – Ástarlásarnir hafa líka rutt sér til rúms á Ítalíu undanfarin ár, en fyrstu ástarlásarnir ruddu sér rúms á Ponte Milvio brúnni í Róm. Ástarlásaæðið á Ítalíu á sér rætur til uppskáldaðrar atburðarásar í rómatískri skáldsögu – I WANT YOU – sem ítalski rithöfundurinn Federico Moccia ritaði og náði fádæma vinsældum.
Brú slátrarans, Ljubljana, Slóvenía – Fyrstu ástarlásarnir skutu upp kollinum í Slóveníu árið 2010 og sífellt bætast nýjir í hópinn, en brúin liggur yfir straumharða á sem ber heitið Ljubjanica.
Brooklyn Bridge, New York, Bandaríkin – Óteljandi ástarlásar hafa hvílt á handriði Brooklyn brúarinnar í New York en yfirvöld fjarlægðu ástarlásana nýverið af öryggisástæðum.
10mosttoday greindi frá
Tengdar greinar:
Fyrsti „ástarlásinn“ hengdur upp í Hallgrímskirkju
Yfirvöld Parísarborgar rífa niður ástarlása af brúm
Ferðalög: Átta sjóðheitir áfangastaðir fyrir einhleypa
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.