Þett’er nóg, þett’er nóg!

Ég viðurkenni það fúslega að ég get orðið ótrúlega pirruð á veðráttunni á Íslandi og hef alveg pottþétt eytt mörgum tugum klukkustunda í það að tuða og væla yfir veðrinu. Ég er meira að segja orðin nokkuð alræmd fyrir tuðið á skrifstofunni minni.

Það er óþolandi að fá svör eða athugasemdir eins og: „Þú býrð á Íslandi“ eða „Hvaða hvaða, dragðu bara fyrir gluggana!“ því það skiptir engu máli að ég skuli búa á Íslandi, því nei ég valdi það ekki og það er hægara sagt en gert að flytja til annars lands. Ég á barn með manni sem býr, glaður og sáttur, á Íslandi og ég get ekki verið að flýja land með barnið hans. Það myndi ég ekki gera honum og hvað þá barninu mínu. Fyrir utan allt tilstandið og það að búa ÁN fjölskyldunnar finnst mér bara ekkert svakalega heillandi. Að draga fyrir já, ég þarf þess ekki, það er dimmt hérna meiri hluta ársins (smá dramatískar ýkjur ég veit).

Ég hef velt þessu fyrir mér seinustu mánuði, hvað hefur eiginlega orðið til þess að menn námu hér land í eldgamla daga og ég hef komist að ákveðinni niðurstöðu um hvernig þetta hefur allt saman verið.

Ingólfur og félagar bjuggu í Noregi og ætluðu sér að finna nýtt og betra land og sigla til Ameríku. Þeir fóru af stað á skipinu og viltust af leið og enduðu á Íslandi. Þeir urðu veðurtepptir og ílengdust hérna. Það er ekkert annað sem kemur til greina! Hvað hefur eiginlega fengið þá annars til þess að búa hér frekar en í t.d. Noregi eða Svíþjóð þar sem eru raunverulegar árstíðarskiptingar. Það er sumar, haust, vetur og vor.  Mér hefur fundist vera haust/vetur hér á landi í 2 ár, allavega hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þið verðið að gefa mér smá séns með þennan pistil ég varð bara að koma þessu frá mér. Ég er komin með nóg af því að skafa bílinn minn, geta bara notað eitt par af skóm (því þeir eru vatnsheldir), verða alltaf veðurbarin við það að fara inn og út úr bílnum mínum og mæta þar af leiðandi eins og illfygli á öll mannamót. Mér fannst janúar líða eins og 3 mánuðir og snjóstormarnir hafa verið óteljandi á þessum vetri.

Nú segi ég bara eins og hefur ómað svo oft á mínu heimili seinustu mánuði: Þett’er nóg, þett’er nóg, get ei lengur haldið í mér!

Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið á þeim augnablikum þar sem ég hugsa:Er þetta hægt!!?

20141210_084810

Screen Shot 2015-02-18 at 2.00.06 PM

Screen Shot 2015-02-18 at 2.00.53 PM

 

Tengdar greinar: 

Ekki tala við mig, ég er svöng!

Fermingardagurinn minn og hin sívinsæla fermingarmynd

Gerðu eins og ég segi kelling!

SHARE