Hún Jóhanna hjá Nudemagazine er að flytja til Danmerkur í vor og lætur sig dreyma um hvernig hún muni vilja hafa íbúðina þar úti:
Ég seldi íbúðina mína nýlega því við fjölskyldan erum að flytja til Kaupmannahafnar í vor. Við erum búin að fá íbúð á frábærum stað á Amager Strandpark, 2 mínútna göngu frá baðströnd og alveg við metróið sem kemur manni á flugvöllinn eða Kongens Nytorv á undir 5 mínútum!
Ég hef aðeins séð teikningar af íbúðinni en það stoppar mig ekki í því að byrja að skipuleggja hvernig ég ætla að innrétta hana (reyndar er ég líka búin að innrétta svona 5 aðrar íbúðir sem ég fékk ekki í huganum). Það er líka eitt af því allra skemmtilegasta sem ég geri. Ég er búin að liggja yfir tímaritum, vefsíðum og Pinterest undanfarið og langaði að deila þessum fallegu myndum með ykkur.
Ég elska dökka liti, hef ítrekað málað vegg hjá mér í dökkum gráum og eggaldin litum en nú langar mig að breyta aðeins til og mála vegg í miðnæturbláum. Ég er líka kolfallin fyrir borðinu og stólunum hér að ofan frá Københavns Møbelsnedkeri.
Helst vildi ég kaupa mér klassiska Østerbro-íbúð og gera upp. Ég hef alltaf valið mér svört eldhús og er ekki enn orðin þreytt á þeim og mig dreymir líka um ljóst síldarbeinaparket, fallega gamaldags glugga, skrautloft og veggi í gömlum dönskum stíl en það verður víst að bíða aðeins.
Íbúðin er bara 3ja herbergja og 100 fm sem verður smá áskorun fyrir 5 manna fjölskyldu. En það er líka svolítið gaman að þurfa að hugsa í lausnum og nýta plássið vel án þess að íbúðin virðist troðin af dóti. Við munum td. þurfa að búa til herbergi úr einhverjum sniðugum lausnum í borðstofunni fyrir dóttir sem er 6 ára því 9 ára „unglingurinn“ þarf að geta lokað að sér og fær því stóra barnaherbergið. Það virðist líka ekki vera mikil stemning fyrir fataskápum í Danmörku og alls ekki þvottahúsum þannig að þetta verður eitthvað! Við erum eiginlega á því að búa til veggi fyrir auka herbergið úr Ikea fataskápum og slá þannig tvær flugur í einu höggi. Ég mun leyfa ykkur að fylgjast með.
Sjáið fleiri myndir frá þessum hugrenningum Jóhönnu hér!
Tengdar greinar: