Reykvíkingar hafa sýnt mikla hugmyndauðgi á undanförnum árum í tengslum við rafrænar kosningar um Betri hverfi. Í fyrra komu t.d. 700 hugmyndir inn í hugmyndasöfnun fyrir Betri hverfi 2015. Nú standa yfir kosningar í borginni um hátt í 200 þessara hugmynda.
Betri hverfi snúast fyrst og fremst um hugmyndir borgarbúa í hverfunum að smærri framkvæmdum og viðhaldsverkefnum. Síðan kosningarnar voru haldnar fyrst árið 2012 með sama hætti og nú hefur borgin framkvæmt yfir 300 hugmyndir sem hafa bætt ýmsa aðstöðu til útivistar og leikja í borginni auk þess að gera hverfin fallegri og öruggari á ýmsa lund.
Hér eru nokkrar frábærar hugmyndir sem hafa orðið að veruleika á undanförnum árum.
1. Stigi niður í fjöruna við Eiðsgranda. Algjör snilldarhugmynd sem framkvæmd var árið 2013. Með tilkomu stigans opnaðist alveg nýtt útivistarsvæði fyrir borgarbúum en erfitt var að klöngrast niður í fjöruna í stórgrýtinu.
2. Frisbígolfvellir. Nú eru þeir orðnir fimm talsins. Frisbígengið í borginni er greinilega mjög duglegt að kjósa. Fyrsti frisbígolfvöllurinn eða Folf völlurinn var við gamla Gufunesbæinn í Grafarvogi. Svo var kosinn inn völlur á Klambratúni. Borgin gerði síðan þrjá nýja FOLF velli eftir kosningar í fyrra. Í Breiðholti í grennd við Fella- og Hólakirkju, í Laugardal og Fossvogsdal. Nú er stungið upp á slíkum völlum í Öskjuhlíð og í Seljahverfi.
3. Áningarstaður í Elliðaárdal fyrir neðan Árbæjarlaug. Borgarbúar hafa verið duglegir að kjósa áningarstaði í fyrri kosningum. Það er því víða hægt að setjast niður í hjóla- eða göngutúrnum og borða nesti eða njóta útsýnis.
4. Vatnshanar. Greinilegt að borgarbúar vilja ekki skokka um borgina sína án þess að geta svalað þorsta sínum með ísköldu Gvendarbrunnavatni. Þeir hafa komið með hugmyndir að og kosið vatnshana á fjölmörgum nýjum stöðum í borginni. Þeir nýjustu eru í Laugardal og við Hallsteinsgarð í Grafarvogi.
5. Hundagerði. Hundaeigendur geta nú sleppt hundum sínum lausum víða í sérstökum gerðum sem íbúar hafa komið með hugmyndir að og kosið. Þau er t.d. að finna í Laugardal, við BSÍ og í Breiðholti. Nú vilja íbúar í Háaleiti og Bústöðum fá voffagerði í Fossvogsdal fyrir neðan Hörgsland og íbúar í Grafarvogi hafa komið hugmynd að slíku gerði á Gufunessvæðinu.
Breytum borginni okkar saman og látum ekki góðar hugmyndir borgarbúa fram hjá okkur fara. Kjósum öll á https://kjosa.betrireykjavik.is
Kosningum lýkur á miðnætti í kvöld. Þú þarft að hafa rafræn skilríki (í síma eða á korti) eða íslykil til að auðkenna þig áður en þú getur farið inn á kosningavefinn.
Tengdar greinar:
Alvöru íbúakosningar á vefnum í Reykjavík
„Borgarbúar vita best hvað vantar í hverfin“
„Á ég að gá hvort einhver geti lánað þér buxur?“
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.