Hérna fáum við enn einn gullmolann af blogginu hennar Tinnu Bjargar. Þessi terta er einstaklega ljúffeng. Algjört hnossgæti. Enda inniheldur hún Snickers, sem hefur þá eiginleika að breyta vatni í vín. Eða svo gott sem – þið vitið.
Snickers marengs með ástaraldin
Marengsbotnar
4 eggjahvítur
3 dl sykur
3 bollar Rice Krispies
- Þeytið eggjahvítur í skál þar til þær verða stífar og ekki lengur froðukenndar. Bætið við sykri og stífþeytið. Blandið því næst Rice Krispies varlega saman við blönduna. Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 20 eða 24 cm kökuformi til að teikna eftir. Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að hún fylli upp í teiknuðu hringina.
- Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.
Rjómablanda
400 ml þeyttur rjómi
250 gr jarðarber
3 ástaraldin
100 gr Snickers
- Skerið jarðarber í litla bita, skerið ástaraldin í tvennt og skafið innan úr þeim með skeið. Saxið Snickers í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt jarðarberjum og innihaldi ástaraldinanna.
- Hvolfið öðrum marengsbotninum á fallegan kökudisk og smyrjið rjómablöndu jafnt yfir. Leggið svo hinn botninn ofan á.
Snickers-krem
200 gr Snickers
40 gr suðusúkkulaði
50 gr smjör
4 eggjarauður
60 gr flórsykur
- Skerið Snickers í bita og bræðið í potti ásamt suðusúkkulaði og smjöri. Kælið blönduna í 10-15 mínútur. Þeytið eggjarauður þar til þær verða léttar og ljósar og bætið flórsykri smátt og smátt saman við. Þegar blandan hefur þykknað, bætið súkkulaðiblöndu saman við og þeytið í 2-3 mínútur.
- Hellið kreminu jafnt yfir marengstertuna og skreytið tertuna að vild.
Tengdar greinar:
Hitaeiningabomba – Epla og snickers salat – Uppskrift
Dásamleg Snickerskaka – Uppskrift
Heimatilbúnir Snickers bitar – Uppskrift
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.