Átakið var kynnt um borð í frystitogaranum Helgu Maríu í Reykjavíkurhöfn, en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, eru aðalstyrktaraðili Mottumars í ár og næstu tvö ár. Jakob Jóhannsson formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands ávarpaði gesti og sagði frá því að í ár er sérstök áhersla lögð á umræðu og fræðslu um leit að ristilkrabbameini og er slagorð átaksins „Hugsaðu um eigin rass“.
Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá körlum hér á landi en á hverju ári greinast rúmlega 70 karlar með þetta krabbamein. Nýgengi hefur verið að aukast, einkum hjá körlum en ristilkrabbamein er eitt af fáum krabbameinum sem unnt er að greina á forstigi og byrjunarstigi. Með skipulagðri leit má því fækka sjúkdómstilfellum verulega og bjarga mannslífum. Mikilvægt er því að þekkja einkennin og þeir sem eru 50 ára og eldri ættu að ræða við sinn lækni um leit að ristilkrabbameini.
Jens Garðar Helgason formaður SFS hélt stutta ræðu þar sem hann lýsti yfir ánægju með samstarf SFS og Krabbameinsfélagsins. Í sjávarútvegi starfa um 9.000 manns með beinum hætti og með samstarfinu er meðal annars markmiðið að koma fræðslu til þessa hóps betur til skila.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra afhjúpaði skegg á brú bátsins og þrír herramenn fengu rakstur hjá teyminu á Barber Company.
Meginmarkmiðið með Mottumars er að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að breytingum á lífsháttum til að draga úr líkum karla á að fá krabbamein en þriðjung krabbameina má fyrirbyggja með skynsamlegum lífsháttum. Einnig er markmiðið að kynna fyrir karlmönnum þá þjónustu sem stendur til boða og hvetja þá til að hika ekki við að leita til læknis.
Mottan er táknræn, hún minnir okkur á að ræða þessi mál og um leið að fá menn til að hugsa um heilsuna. Því hvetur Krabbameinsfélagið alla til að taka þátt, safna mottu og áheitum og hvetja alla aðra til að gera slíkt hið sama.
Ár hvert greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein. Í marsmánuði er lögð áhersla á að hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.
Á vefsíðunni mottumars.is eru upplýsingar um átakið og einnig er þar margvíslegt fræðsluefni um karla og krabbamein.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.