Óvenjulegar matarvenjur á meðgöngu

Hver var ykkar þrá á meðgöngu?  Á minni fyrstu meðgöngu var ég sólgin í nammi með salti, sterka brjóstsykra, saltpillur, lakkrís og nefndu það.  Að öðru leiti var mataræðið frekar fjölbreytt, reglulegt og oftast hollt, ég gat t.d. ekki hugsað mér að drekka gos. Á annarri meðgöngu stoppaði ég í ísbúð í það minnsta einu sinni í viku.  Ís í vél var það besta sem ég gat hugsað mér.  Á þriðju meðgöngunni fékk ég þá hugdettu að frysta Mars og borða það hálffrosið, langaði ekkert í Mars ís – en mikið svakalega er Mars gott frosið. Ég hafði hugsað það áður en ég varð fyrst ófrísk að ég ætlaði að fá æði fyrir gulrótum og klökum á meðgöngu eða frosin vínber, en nei þetta holla varð ekki ofarlega á listanum þegar á hólminn var komið.

 

Um helmingur kvenna finna fyrir óvenju miklum löngunum í ákveðna fæðu eða fæðutegundir á meðgöngu. Kannanir hafa verið gerðar á þeim konum sem fá svona langanir á meðgöngu og samkvæmt þeim finna flestar konur fyrir löngun í eitthvað sætt.  Næst flestar finna fyrir saltlöngun, sterkur matur er einnig vinsæll og svo súrir ávextir eins og sítrónur og græn epli.

 

Sumar af þessum löngunum eru öfgafullar, jafnvel frekar óvenjulegar eins og hjá einni verðandi mömmu sem langaði alltaf agalega mikið í ostaköku með svörtum ólívum, hvernig sem það smakkast.  Annarskonar langanir sem tengjast ekki mat, eins og þráin í að lykta af bensíni, sleikja ljósastaura, þefa af sígarettustubbum eða borða pappír eru líka algengar. Nokkuð algengt er að konur langi að lykta af og jafnvel japla á gúmmíi og sjást þær oft í stígvéladeildinni í stórmörkuðum og búðum þefandi af glænýjum stígvélum.

 

En hvað er það sem veldur þessari þrá í eitthvað ákveðið?  Hormónar eru að einhverju leiti sökudólgurinn.  Þessar miklu breytingar á hormónaflæði á meðgöngu geta haft mikil áhrif á bragð- og lyktarskyn kvenna, þetta gæti líka skýrt hvers vegna konur finna fyrir aukinni matarlyst á ákveðnum tíma tíðahringsins alls ótengt þungun.  Enginn veit þó fyrir víst hvers vegna þessar langanir aukast svona á meðgöngu. Þó er vitað að þær sem þrá ákveðna tegund eiga oft erfitt með að að borða eitthvað annað, kúgast við tilhugsunina sem endar jafnvel með uppköstum.

 

Næringarfræðingar og heilsugúrúar trúa því að hægt sé að lesa í sumar langanir. T.d. er talað um að löngun í ís og sterka þvottaefnislykt sé vísbending um járnskort, þrátt fyrir að hvorugt innihaldi mikið magn járns. Að sama skapi á löngunin í rautt kjöt að merkja prótein skort.

 

Grasalæknirinn Cynthia Belew segir að það sé þess virði að skoða þessar tengingar.  Til dæmis segir hún að magnesíumskortur sé ávísun á mikla súkkulaði þrá.  Matur sem inniheldur magnesíum er heilkorn, baunir, hnetur, fræ og grænt grænmeti eins og spínat og hefur í raun ekkert með súkkulaði að gera.

Belew hefur fundið fyrir því að margar konur sem leita til hennar skorti ómissandi fitusýrur og þegar þær byrja að taka inn fiski olíu eða hörfræölíu þá er eins og matarþráin hverfi.

 

Þrátt fyrir að margir telji að hlusta eigi á matarþrána þá eru engar rannsóknir sem sýna skýr merki á milli löngunarinnar og hvað líkaminn virkilega þurfi.  Sérfræðingar segja að ef svo væri, væri líklegra að flestir myndu borða meira brokkólí, minna súkkulaði og nammi, meira vatn og minna af óhollum drykkjum.

Sérfræðingar eru þó sammála um að þungaðar konur eigi að veita matarþránni athygli, láta undan hollu löngununum og reyna að hafa áhrif á þær óhollari eða ef hægt er að finna eitthvað hollt/hollara í staðin. Það gildir það sama hér og annars staðar, ef mataræðið er hollt, fjölbreytt, blóðsykurinn í jafnvægi og borðað sé jafnt og þétt yfir daginn þá ætti móðir og barn að vera í góðum málum.

 

Hugmyndir hvernig hægt er að breyta yfir í hollari kantinn, annars væri flott að fara eftir þessari fínu reglu: allt er gott í hófi.

Screen Shot 2015-03-07 at 11.50.50 PM

Heimild: Babycenter

Tengdar greinar:

Meðganga konu á heilum sex sekúndum

Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?

Meðgangan fest á 2 mínútna myndband – skemmtilegt.

6 magnaðar staðreyndir um meðgöngu

SHARE