Þrátt fyrir nafnið getur ógleði og vanlíðan hellst yfir hvenær að deginum sem er og staðið allan daginn. Þetta ástand getur hafist áður en þú veist að þú ert ófrísk og nær yfirleitt hámarki milli 8 og 12 viku.
Ef þú er gjörn á að verða bílveik, eða þjáist af mígreni, er líklegra að þú fáir morgunógleði. Konur sem ganga með tvíbura eru gjarnari á að lenda í þessum vanda og sumir segja að þetta versni, eftir því sem þú átt fleiri börn.
Enginn veit hversvegna sumar konur lenda frekar í þessu en aðrar, en hátt hlutfall þungunar- hormóna og estrogens eru talin hafa áhrif. Aðrir þættir sem spila inn í eru lágur blóðsykur, sem er ástæðan fyrir að mörgum konum líður verr þegar þær hafa ekki borðað í einhvern tíma, eða eru þreyttar. Góðu fréttirnar eru þær að það er sama hversu slæm líðanin er hún hefur engin áhrif á barnið. Það fær alla þá næringu sem það þarfnast, sama hversu illa þér líður.
Ef þú kannast við eitthvað að eftirfarandi einkennum, skaltu hafa samband við lækni.
- Ef þér er stöðugt óglatt og kastar upp oft á dag, nokkrar vikur í senn.
- Ef þú missir meira en 5% af þyngd.
- Ef þú ert máttfarin, þreytt og ófær um verk sem þú ert annars vön að gera. Um það bil þrjár af þúsund konum upplifa þettta ástand. Ef þú þarft að leggjast inn á spítala færðu sennilega vökva í æð til að hindra að þú þornir upp og lyf til að slá á ógleðina. Hvoruveggja er skaðlaust barninu.
Morgunógleði er oftast fylgifiskur meðgöngunnar
Morgunógleði er yfirleitt fylgifiskur meðgöngunnar en átta af hverjum tíu konum upplifa einhverja ógleði á meðgöngunni og helmingur þeirra kastar upp að minnsta kosti einu sinni. Ef þú ert heppin, getur verið að þér sé bara ómótt á morgnana. Margar konur þjást hinsvegar af ógleði og uppköstum flestum stundum á fyrrihluta meðgöngunnar. Það er ekki mikil huggun ef þér líður ömurlega, en ógleði er merki um að líkaminn sé að vinna eins og hann á að gera. Vegna áhættunnar sem fylgir því að taka inn lyf á meðgöngu, þá er eina ráðið að notast við húsráð og náttúrulyf, nema þú haldir alls engu niðri, þá þarftu að leita til læknis.
Hér á eftir fylgja tíu ráð til að bæta líðanina á fyrstu mánuðunum.
- Fáðu þér snarl í rúminu. Þar sem blóðsykurinn er mjög lágur fyrst á morgnana er gott að hafa þurrt kex, hafrakex eða tekex, við rúmið til að narta í um leið og þú vaknar. Bíddu í tíu mínútur áður en þú ferð á fætur. Það sem er þó enn betra er ef makinn færir þér te og ristað brauð í rúmið á hverjum morgni.
- Borðaðu oft en lítið í einu. Þú hefur sennilega enga matarlyst, en að svelta er það versta sem þú getur gert því þá líður þér enn verr. Með því að borða á nokkra tíma fresti, heldurður blóðsykrinum í jafnvægi . Það er betra að borða 5 litlar máltíðir á dag, heldur en 3 stórar.
- Fáðu þér engifer og sítrónu. Prufaðu að setja nokkra sítrónusneiðar, eða kreista sítrónusafa út í heitt vatn og bragðbæta með hunangi. Engifer dregur úr ógleði og uppköstum. Prufaðu að narta í engiferkökur, eða setja sneiðar af ferskum engifer í heitt vatn í fimm mínútur, síaðu það og bragðbættu með hunangi.
- Kolvetni Gakktu úr skugga um að hver máltíð innihaldi kolvetnaríka fæðu svo sem, bakaðar kartöflur, hrísgrjón, pasta og brauð. Þetta er fæða sem brennur hægt og blóðsykurinn fellur síður, þá minnkar fæðan líkur á ógleði. Þetta er líka frekar hlutlaus matur og ætti að fara vel í maga. Forðastu mjög bragðsterka fæðu og mikla matarlykt ef þú getur meðan þér er óglatt. (Fáðu makann til að elda)
- Gakktu rösklega. Þú ert kannski ekki í skapi til að fara í leikfimi, en hófleg hreyfing slær oft á ógleðina. Í Ayurveda, indverskri heilsuheimspeki kemur fram að göngutúr í fersku lofti eyði streitu sem annars komi fram sem morgunógleði.
- Dreyptu á vökva. Gættu þess að hafa eitthvað við hendina til að dreypa á yfir daginn. Sumum konum finnst sódavatn róa magann. Forðastu drykki með koffeini svo sem kaffi og te, það er líklegt að þú hafir misst lyst á þeim hvort eð er.
- Hvíldu þig. Næst á eftir tómum maga, er þreyta versti óvinur þinn, þannig að þú skalt taka því rólega. Ef þú ert útivinnandi, skaltu leggja þig þegar þú kemur heim og fara snemma að sofa á kvöldin. Ef þú átt börn, reyndu að leggja þig með þeim á daginn. Farðu í róandi bað með nokkrum dropum af lavender-,kamillu- eða engifer olíu.
- Taktu B6 vítamín og sink. 50-100 mg af B6 vítamíni og 20mg af sinki eru talin hjálpa gegn ógleði. Það er samt ágætt að ráðfæra sig við ljósmóður, áður en byrjað er á að taka inn aukin bætiefni. Ef þú vilt síður taka bætiefni þá er B6 vítamín t.d. í banönum og rúsínum og Sink í engiferi, fiski og grænu laufgrænmeti.
- Notaðu punktanudd. Prufaðu að þrýsta innan á únliðinn í smá stund. Það er líka hægt að kaupa úliðsband í apótekum sem er ætlað gegn bílveiki. Nálastungur og svæðanudd geta líka virkað ágætlega gegn ógleði.
- Vertu opin fyrir möguleikum. Sumum konum finnst hómópata aðferðir duga vel. Einnig geta blómadropar haft góð áhrif á meðgöngunni.
Einkenni þungunar og útreikningur
Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?
Er ráðlagt að ófrískar konur að drekki kaffi?
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.