Enn eitt hnossgætið frá uppáhalds matarbloggaranum mínum – henni Tinnu Björgu. Ég var næstum búin að sleikja tölvuskjáinn þegar ég rak augun í þessa dýrð. Hnetusmjör, Nutella, súkkulaðibitar – já, ef það er til himnaríki þá lítur það svona út.
Hnetusmjörsmuffins með Nutellakremi
Muffins
600 gr hveiti
150 gr púðursykur
200 gr hrásykur
4 tsk lyftiduft
1 tsk salt
4 egg
200 gr brætt smjör
400 ml mjólk
3 tsk vanilludropar
3/4 krukka hnetusmjör
200 gr súkkulaðibitar
- Blandið saman í skál hveiti, púðursykri, hrásykri, lyftidufti og salti.
- Brjótið egg í aðra skál og pískið örlítið. Blandið saman við eggin bræddu smjöri, mjólk og vanilludropum. Hrærið blöndunni smátt og smátt saman við þurrefnin.
- Velgið hnetusmjör í örbylgjuofni og hrærið saman við deigið ásamt súkkulaðibitum.
- Fyllið stór muffinsform af deigi og bakið í ofni við 180° í 20-25 mínútur. Ég klippti bökunarpappír niður í litlar arkir og bjó til muffinsformin sjálf.
- Súkkulaðibitarnir sem ég notaði eru 56% frá Freyju.
Sjá einnig: Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – Uppskrift
Nutellakrem
100 gr mjúkt smjör
1 krukka Nutella
1/4 krukka hnetusmjör
2 dl flórsykur
1 tsk vanilludropar
2-4 msk mjólk
- Þeytið smjör þar til það verður alveg mjúkt og kekkjalaust.
- Bætið við nutella, hnetusmjöri, flórsykri og vanilludropum og þeytið áfram.
- Þynnið kremið með 2-4 msk af mjólk þannig að það fái silkimjúka áferð.
Sjá einnig: Fljótlegir múslíbitar með hnetusmjöri og ristuðum möndlum
Upp með svuntuna, það er nú einu sinni laugardagur!
Ég mæli svo eindregið með því að fylgja blogginu hennar Tinnu á Facebook – uppskriftirnar hennar á enginn að láta framhjá sér fara.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.