Töfrasvampurinn, líka kallaður kraftsvampur, er að mínu mati ómissandi í heimilisþrifin hann hreinlega töfrar óhreinindi í burtu. Það besta við hann er að hann nær í burtu óhreinindum strikum og blettum sem sterku hreinsiefnin ná ekki til. Langaði að benda ykkur á hann því það er ekki langt síðan ég uppgötvaði hann og flestir sem ég tala við vissu ekki af tilvist hans.
Ég hef oft velt fyrir mér hvað sé í svampnum því hann lítur út fyrir að vera bara venjulegur svampur og það eina sem maður notar með honum er vatn, engin sterk hreinsiefni. Orðrómur á götunni segir að svampurinn hafi verið framleiddur af Nasa sem einangrun í flugvélar og geimflaugar. Svampurinn er einstaklega léttur og einangrandi og því hentar hann vel í þeim tilgangi. Það hafi hins vegar síðar og fyrir algjöra slysni að þessi hreingerningar eiginleiki svampsins uppgötvaðist. Sem betur fer segi ég nú bara! Ég hef reyndar hvergi fundið staðfestingu á þessari þróunarsögu svampsins, en þetta er skemmtileg saga engu að síður.
Á mínu heimili er hann notaður á flísar, náttúrusteininn í eldhúsinu, eldhústækin sem eru úr burstuðu stáli, keramikhelluborðið og lengi mætti telja. Allt sem á að vera hvítt verður hvítt aftur. Fyrir jólin fór ég með hann á converse skó sem sonurinn á og þeir urðu eins og nýjir.
Töfrasvampinn skal samt fara varlega með á viðkvæm svæði!! Hann nefnilega gæti rispað enda virkar hann að einhverju leiti eins og örfínn sandpappír, því getur hann t.d. máð af innimálningu og þarf að passa sig á hvað hann er notaður. Ég nota hann á hvítu veggina heima hjá mér, en ég ímynda mér að ef ég væri með veggina í einhverjum lit þá gætu orðið ummerki eftir hann þar. Ég myndi prófa svampinn fyrst á litlu svæði á stað sem er ekki áberandi.
Hér er stóll sem safnar öllum óhreinindum í sig, hann er aðeins hrjúfur að innan og hvítur. Áður en ég uppgötvaði töfrasvampinn þá var hann orðinn svona gulleitur með allskonar strikum eftir tölur og gallabuxur sem ég náði engan veginn af honum. Var meira að segja búin að prófa að láta klór liggja á honum í einhvern tíma og nudda vel og rækilega, en allt kom fyrir ekki guli liturinn haggaðist ekki og strikin lýstust rétt svo. Hér sjáið þið stólinn, muninn áður en ég réðst á hann með töfrasvampinum og eftir.
Ég kaupi svampinn bara í matvörubúðum, oftast kaupi ég frá blindrafélaginu, en sá heitir Kraftsvampur og er oftast í rekkanum hjá öllum vörunum þeirra. Ekki sakar að styðja gott málefni í leiðinni og maður gerir heimilisþrifin auðveldari.
Mamman er búsett í úthverfi höfuðborgarsvæðissins ásamt eiginmanni og tveimur hressum og heilbrigðum börnum. Mamman mun skrifa um ýmislegt sem við kemur börnum, s.s. uppeldi, hreyfingu, matarvenjur og fleira