Það er kallað stam, þegar talsverð spenna fylgir máltjáningu, sama orðið eða atkvæðið er endurtekið oft, hljóðin eru lengd, eða að viðkomandi festist og kemur engu út í nokkurn tíma. Þá er oft gripið til þess ráðs að geifla sig og gretta eða kippa til höfði og öðrum líkamspörtum eins og til að rykkja í gang.
Þegar svona er komið finnst flestum óþægilegt eða erfitt að tala við þann sem stamar.Stundum líður áheyrandanum miklu verr en þeim sem stamar. Viðmælandinn veit ekki hvernig hann á að haga sér. Fyrir þann sem stamar er best að viðmælandinn gefi sér tíma til að hlusta á hvað hann er að segja. Haldið eðlilegu augnsambandi og reynið að láta þann sem stamar fá á tilfinninguna að þið ætlið að hlusta á hvað hann hefur að segja. Forðist að klára setningar og orð fyrir hann. Vinsamlegt og afslappað andrúmsloft er verulegt atriði. Með því að fá tíma til að tjá sig eykst sjálfstraust þess sem stamar og meiri líkur eru á að hann haldi áfram að tjá sig í stað þess að loka sig af og þegja. Þögnin er einfaldasta leiðin til að stama ekki, en jafnframt sú óæskilegasta.
Stam hefur verið rannsakað mjög mikið síðustu öld
Flestar nýrri rannsóknir sýna fram á að stam sé tengt taugafræðilegum atriðum þó að orsök stams sé ekki enn þekkt. Doktor Roger Ingham, sálfræðingur, hefur fengist við rannsóknir á stami og hefur skoðað virkni heilans meðan fólk talar. Þar hefur meðal annars komið í ljós að þegar einstaklingur stamar er virkni heilans allt önnur en þegar sami einstaklingur talar reiprennandi. Það er nokkuð auðvelt að fá stamara til að stama ekki, t.d. með því að spila af segulbandi texta sem sá stamandi les með. Einnig með því að lesa í kór með öðrum. Starfsemi heilans er einnig með öðrum hætti hjá þeim sem stama og þeim sem stama ekki. Þeir sem stama nota hreyfisvæði heilans meira og heyrnræn svæði heilans minna, en þeir sem ekki stama. Dr. Ingham hefur einnig borið saman heilastarfsemi karla og kvenna í rannsóknum sínum og fundið út að af þeim svæðum sem starfa ólíkt í heila þeirra sem stama og hinna sem ekki stama eru aðeins tvö sameiginleg konum og körlum. Hin eru mismunandi eftir kynjum.
Ættgengi stams hefur verið töluvert rannsakað og er nokkuð ljóst að stam liggur í ákveðnum ættum. Með umfangsmiklum samanburðarathugunum á fjölskyldum, tvíburum og tökubörnum hafa komið eindregnar ábendingar um ættgengi stams.
Lækning við stami er ekki til, en mikið af töfraaðferðum voru vinsælar, sérstalega á níunda áratugnum. Gallinn við þessar aðferðir er að þær virka ekki þegar til lengdar lætur.
Fræðimenn víðs vegar um heim eru þó að reyna að þróa aðferðir, sem geta bætt talleikni þeirra sem stama. Ein slík aðferð er ný, en það lítið tæki sem spennt er um hálsinn, svipað hálsbandi. Það nemur titring raddbanda og hversu löng sérhljóðin eru hjá þeim sem stama. Ef sérhljóðin eru lengd örlítið minnkar stamið mjög mikið og hverfur alveg við lengri þjálfun. Þetta tæki er tengt við tölvu og hægt er að æfa sig sjálfur undir leiðsögn talmeinafræðings.
Talmeinafræðingar hafa oft náð mjög góðum árangri, sérstaklega með börn sem eru tiltölulega ný byrjuð að stama. Þegar stamið nær að festast í sessi er erfitt að losna alveg við það. Þá reynir mikið á þann sem stamar að hann leggi sig fram í samvinnu við talmeinafræðing, sem þekkir vel til stams. Ýmis lyf hafa verið reynd við stami, sérstaklega geðlyf. Þau virka ekki til lengdar. Af framansögðu má ráða að stam er erfitt viðureignar og engin svokölluð „patentlausn“ til.
Hvað er til ráða fyrir þá sem stama og aðstandendur þeirra?
Það er mikilvægt að hafa samband við talmeinafræðing ef barn hefur stamað í nokkrar vikur. Ef meðferð hefst nógu snemma er hún oftast stutt og árangursrík. Tala rólega við barnið og reyna að hægja á samskiptum.
Draga úr spennu í samskiptum barnsins við umhverfi þess.
Ekki gera óhóflegar kröfur um málfar. Margt bendir til þess að barn sem á náinn ættingja, sem stamar eða hefur stamað, sé enn líklegra til að stama ef það er líka fljótt til og fær hvatningu til að tala flókið mál í löngum setningum og orðum. Stuttar setningar geta fleytt krökkum yfir það tímabil, sem annars hefði valdið því að stam festist.
Flest börn sem stama þekkja fáa eða enga aðra sem stama. Þau telja sig því ein í heiminum og geta ekki rætt sín mál á jafnréttisgrundvelli af gagnkvæmum áhuga, hvorki við jafnaldra né aðra. Það er því afar mikilvægt fyrir börn og foreldra þeirra að nýta sér þau tækifæri sem gefast til að hafa samband við börn í sömu stöðu. Til að leika sér saman, spjalla saman eða skrifast á. Þetta er einnig kjörin vettvangur fyrir foreldra að bera saman bækur sínar, skiptast á skoðunum og hvatningarorðum, hitta fagfólk og fullorðna stamara, sem miðla af reynslu sinni.
Nokkrar staðreyndir um stam:
- Stam hefur ætíð verið þekkt.
- Stam fyrirfinnst í öllum samfélögum.
- Um 1% vesturlandabúa stama, það eru um 3.000 Íslendingar.
- 4-5% stama einhvern tíma í æsku.
- Stam er algengara meðal drengja en stúlkna. Munurinn vex með aldri.
- Stam hefst oftast á aldrinum 2-5 ára.
- Stam hvers einstaklings er mjög breytilegt.
- Stam er meðal annars breytilegt eftir ytri aðstæðum.
- Fólk stamar yfirleitt ekki þegar það syngur.
- Fólk stamar yfirleitt ekki þegar talað er í kór.
- Stam getur orðið að alvarlegri samskiptafötlun.
- Því fyrr sem tekið er á stami, því betra.
- Meðhöndlun við stami er ókeypis í Danmörku.
Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á hjá Málbjörgu, félagi um stam og á netsíðunni stam.is