Snargeggjuð kókosbollubomba með Daimrjóma og karamellu

Daim og rjómi eru yfirnáttuleg blanda. Stórfengleg. Skákar mögulega sultu og rjóma. Svona næstum. Stingum svo kókosbollum, marengs og karamellum undir sömu sæng. Ó, boj – pant flytjast búferlum undir þá sæng.

Þessi bomba, ó þessi bomba – tekur enga stund að útbúa og enn skemmri tíma að stúta. Ég bauð í kaffi – hún kláraðist á ljóshraða og ég stóð mig svo að því að sleikja formið yfir vaskinum. Já, hún er svo ljúffeng að sæmilega dönnuð kona hefur skyndilega mannasiði á við máv.

IMG_0551

Kókosbollubomba með Daimrjóma og karamellu

3 stykki tvöföld Daim

500 ml rjómi

1 stykki marengs að eigin vali (ég keypti tilbúinn)

4 kókosbollur

10 Dumle karamellur

Ber og ávextir til skrauts

IMG_0453

Það má annað hvort saxa Daim-ið mjög smátt eða einfaldlega grýta því í matvinnsluvél. Ég kaus matvinnsluvélina.

IMG_0464

Brjótum marengsinn niður í eldfast mót. Klínum kókosbollunum yfir. Vel og vandlega. Það má borða hálfa bollu. Það sleppur alveg.

IMG_0486

Þeytum rjómann (skiljið eftir sirka 2 matskeiðar fyrir karamellusósuna). Daim-inu hrært varlega saman við. Síðan blöndum við öllu saman – marengs, kókosbollunum og rjómanum.

Jafnið blönduna í mótið. Skerið niður kiwi, jarðarber og hvað sem hugirnn girinst og smellið ofan á.

IMG_0517

Svo er það karamellusósan. Elsku karamellusósan. 10 Dumle-karamellur í pott ásamt örlitlum rjóma. Bræðið saman við vægan hita. Leyfið sósunni að kólna aðeins áður en hún fer yfir bombuna. Ég legg til að hún sé smökkuð reglulega. Svona til þess að taka út hitastigið.

IMG_0534

Sjússum sósunni yfir. Fram og til baka. Út og suður. Nóg af sósu. Út um allt.

IMG_0572

IMG_0602

Snargeggjuð og sjúklega góð. Sjúklega segi ég.

Gleðilega helgi og verði ykkur að góðu.

SHARE