Einelti er verra en fólk heldur. Ég er ennþá rosalega viðkvæm og niðurbrotin manneskja efir eineltið sem ég varð fyrri í grunnskóla. Ég, þegar ég var að skrifa þetta, var ég með tár í augunum og kökk í hálsinum ég vil endilega benda fólki á það að hugsa áður en það framkvæmir og vera til staðar fyrir þá sem þurfa þess
Ég heiti Erna Björk og er 19 ára gömul. Ég bjó inn í Bolungarvík og fór þar í grunnskóla þar sem þetta byrjaði strákarnir voru alltaf að ýta mér og hrinda mér, stóðu í kringum mig og köstuðu húfunni minni á milli sín og uppnefndu mig. Kennararnir sögðu alltaf að þetta væri bara því þeir væru skotnir í mér. Stelpurnar stríddu mér í búningsklefanum í íþróttum og sundi og földu fötin mín og þetta gekk svona upp og niður.
Ég man satt að segja lítið eftir þessu þar sem ég var bara svo ung og mörg ár síðan.
Loks þegar ég var 9 ára flutti mamma með mig og systkini mín yfir á Ísafjörð þar sem ég hélt nú að þetta myndi lagast og ég myndi eignast góðar vinkonur og við myndum verða gamlar saman og hlæja af prakkarastrikunum okkar yfir kaffibolla 60 ára gamlar en svo var ekki.
Nýi skólinn:
Ég fór í svona „kynningardag“ í nýja skólanum mínum og fékk að sjá kennarann minn og nýju bekkjarfélagana mína, ég vissi að mér myndi líka þau vel og eignast marga vini ég hlakkaði svo til í að byrja í skólanum. Seinna um daginn sá ég stelpu sem var í þessum bekk labba framhjá húsinu mínu ég dríf mig í föt og hleyp út til að tala við hana. Spennan alveg í hámarki að fara eignast nýja vinkonu og ég kynni mig og spyr hvort hún vilji koma að ramba og ég man enn svipinn á henni þegar ég sagði Ramba því hún vissi ekkert hvað ég var að tala um, ég fer með hana á rólóinn og bendi á römbuna og hún hlær og segir að þetta heiti að Vippa. Vippa, vá hvað mér fannst þetta asnalegt orð og hló alltaf þegar ég sagði þetta orð því mér fannst þetta orð vera bara eitthvað bull, þessi stelpa stóð með mér í gegnum allt sem kom upp á og var besta vinkona mín í nokkur ár.
Fyrstu vikurnar í nýja skólanum voru frábærar og mér fannst svo gaman að kynnast þessi fólki. en nei!Þar byrjaði það. Krakkarnir byrjuðu að uppnefna mig og stríða mér, að ég væri svo feit ég kynni ekki að lesa, ég væri strákur, ég væri leiðinleg og ljót stelpa.
Mér fannst þetta ömurlegt en ég hélt þetta væri bara smá því ég væri nýja stelpan en svo var ekki þetta hélt endalaust áfram og ég beið endalaust eftir að þetta myndi stoppa, en það gerði það ekki. Mér leið svo illa yfir þessu og sagði umsjónakennara mínum frá þessu og hann hélt bekkjarfund og talaði við okkur öll saman í von um að þetta myndi hætta. Þau stoppuðu í nokkra daga, ég hélt að þetta væri hætt og var svo ánægð.
Svo byrjaði þetta aftur og varð miklu verra:
Við fórum í sund og þær ráku mig út úr klefanum því þær vildu ekki að strákur væri með þeim í sturtu og ég mætti of seint í sund því ég var að bíða eftir að þær væru komnar ofan í. Skammirnar sem ég fékk frá kennaranum voru gífurlegar, vá hvað ég var hrædd.
Við fórum á bókasafnið að velja okkur lestrarbækur og þær voru allar að velja sér bækur úr unglingabókunum og ég ætlaði sko að gera það líka því mér fannst það svo töff þótt ég vissi að það væri nú of þung bók fyrir mig þar sem ég er skelfilega lesblind og þá kemur ein af stelpunum með Ása í sveit bók með 3 setningum á hverri blaðsíður og réttir mér og segir að þetta sé bók fyrir mig og hlær, mér sárnaði svo mikið við þetta að ég tók bókina og kastaði í hana og hljóp grátandi inn á klósett og var það heila kennslustund.
Ég var alltaf bara ein með þessari einu vinkonu sem ég átti, við vorum saman upp á hvern einasta dag. Smíðar var uppáhalds fagið mitt en varð svo algjört helvíti því þar gátu þær sko strítt mér!
Við borðuðum alltaf nestið okkar í smíðum og þær voru alltaf að taka nestið mitt, setja sag í nestið mitt og smyrja nestisboxið mitt með smurost.
Ég ætlaði sko ekki að láta þetta á mig fá og fór að reyna leika við strákana en ekki vildu þeir sjá mig heldur og gerðu bara illt verra en stelpurnar
Líkamlegt ofbeldi:
Mér var hrint, mér var ýtt, það var sparkað í mig og ég var kýld. Strákarnir áttu heiðurinn á þessu og ég reyndi mitt besta til þess að verja mig og sparkaði á móti en lítið gekk þar sem þeir voru miklu sterkari.
Ég fékk marbletti sár og allt því fylgjandi. Einn strákurinn var verstur af þeim öllum. Þegar ég labbaði framhjá honum á göngunum sparkaði hann í hnén á mér svo ég datt. Þetta var svo vont. Þarna byrjaði ég að brotna niður, hætt að reyna vera sterk og lét þau alveg sjá hvað þau voru að gera mér. Enn daginn í dag finn ég fyrir verkjum í hnjánum eftir hann.
Netsíður og ofbeldi í gegnum netið:
Hver man ekki eftir þessum skemtilegu blogg síðum, fólk.is og blogg.central.is, ég var svo ánægð að opna svoleiðis síðu og svar rosalega virk á henni, alltaf að blogga í fallegt blogg, gera flotta Bannera efst á síðuna og kommenta og skoða hjá hinum í bekknum. Vá hvað ég vildi að ég hefði aldrei opnað þessa síðu því þetta var svo fullkomin leið til þess að níðast á mér, öll þessi nafnlausu komment, orðin sem voru sögð þarna! Ég fékk sko alveg að finna fyrir því að ég ætti ekki heima á Ísafirði og þeim líkaði illa við mig, fékk að heyra það reglulega hvað ég var ljót og heimsk, hvað ég væri ógeðsleg gella og allir hötuðu mig.
Vá þarna var mér farið að líða svo illa að ég vildi helst hætta að mæta í skólann. Þarna var ég komin á unglingastigið og var farin að átta mig betur á hvað var í gangi og farin að skilja allt miklu betur en aldrei skildi ég afhverju ég lenti í þessu, ég gerði þessum krökkum ekkert til að eiga þetta skilið. Loks duttu þessar síður úr tísku og allir gleymdu þeim, allir nema ég. Þessum fleygu orðum sem þau létu flakka gleymi ég aldrei.
Fyrsta tattooið mitt fékk ég 2008:
Ég og systir mín ættluðum að fá okkur tattoo saman. En þegar við komum á tattoo stofuna hætti hún við, svo ég fékk mér bara tattoo. Ég fékk mér 4 nótur og G-lykil og ég var nattúrulega ótrúlega ánægð að fá tattoo svona ung og setti inn mynd á facebook. Þar fékk ég sko að heyra það að ég væri að stela draumi frá einni stelpunni í bekknum því hún ættlaði að fá sér G-lykil líka og allt fór í háaloft, ég vildi helst fara inn í eldhús og ná í ostaskera og fjarlægja tattooið aðeins 4 tímum eftir að ég fékk mér það. Ég fékk svo mikið samviskubit en var fljót að koma mér yfir það, og svaraði fyrir mig.
Hvað haldið þið að það séu margir út í heimi með eins tattoo og eitthver annar? Og hvað þá G-lykil, ættli það séu ekki svona 100.000 manns með G-lykil sem tattoo.
Emo-goth:
Ég var með svart hár og mikið máluð og hlustaði á rokk þá fóru þau að dæma mig fyrir það að ég væri goth og svona. Þá fóru kennararnir að taka þátt beint og óbeint. Við vorum í lífsleikni og kennarinn bað okkur að setjast í hring því við þyrftum að ræða saman og kennarinn sagði: „Jæja krakkar í dag ætlum við að tala saman um ákveðinn hlut og engin nöfn verða sögð en hún Erna Björk er nú verst af ykkur öllum“. Ég varð svo reið að ég stóð upp og öskraði á hana og var send til skólastjórans og hann skildi ekki upp né niður í mér, svo hann sendi mig til námsráðgjafans. Ég fór á nokkra fundi þangað til hún teiknaði pandabjörn og blað og rétti mér það og ég snappaði og sagði að ég væri kannski feit og ég væri kannski mikið máluð en ég væri sko engin helvítis pandabjörn stóð upp og skellti á eftir mér, ég hef ekki talað við þessa konu eftir þetta ég var svo móðguð.
Undir lok grunnskólans:
Þá fór ég að klæða mig druslulega, vera í flegnum bolum því eina sem ég hafði voru stór brjóst og ég vildi sýna þau til að reyna fá einhverja athygli og ég var staðráðin í því að ég væri svo ógeðsleg í framan að það lyti enginn við mér nema ég myndi sína brjóstin mín. Þá fóru þau að kalla mig druslu og hóru að ég væri að selja mig fyrir slykk. Ég eignaðist kærasta sem var 6 árum eldri en ég og ekki hjálpaði það nú til þau fóru bara að dæma mig meira.
Jú ég hafði alveg gert hluti sem ég sá eftir og sé eftir enn í dag en ég var bara að reyna finna leið út úr þessu rugli. Sumt að því sem ég gerði eltir mig enn í dag og ég mun alltaf hafa á samviskunni að hafa gert, en ég get ekki tekið þá til baka.
Ég er með rosalega lítið sjálfstraust og enn þann daginn í dag græt ég á að hugsa til baka og er rosalega viðkvæm og strax komin í vörn. Ég á rosalega erfitt með að kynnast fólki og treysta fólki. Það eru 2 manneskjur sem ég treysti vel, annars treysti ég engum
Einn daginn fattaði ég að það voru kannski þær sem væru með þetta fallega útlit en þessir krakkar hafa sko ekki fallega persónu!
Ég fyrirlít þetta fólk í dag og ég mun aldrei geta fyrirgefið þeim þetta. Verst af öllu er að þau hafa ekki einu sinni reynt að biðja mig afsökunar, ekkert af þessu fólki nema Fannar Freyr og Dawid og eru þeir mjög góðir vinir mínir í dag.
Þetta var einelti í 10 ár og ég fæ enn stundum skíta komment og leiðinleg augnaráð frá þessu fólki en ég geri mitt besta til að líta framhjá því og koma í veg fyrir að þurfa tala við þetta fólk því ég veit að ég er ekki orðin nógu sterk.
Með því að segja frá minni sögu vil ég benda fólki á öllum aldri að hafa augun opin og koma í veg fyir einelti og vera til staðar fyrir þá sem þurfa á því að halda.
Marblettir hverfa, orðin vara að eilífu.
Takk fyrir lesturinn.