Það er varla hægt að segja að það sé komið sumar. Já, það er eiginlega ennþá bara vetur. Í mínum heimahögum, fyrir austan, þurfti fólk nánast að moka sér leið út úr híbýlum sínum í gær. Á sunnudag sást varla á milli húsa. Þannig að já – það er ennþá vetur. Og þess vegna er þessi dásamlega fína vetrarsúpa af blogginu hennar Tinnu Bjargar vel við hæfi. Það er einnig við hæfi að snæða hana við kertaljós. Jafnvel hlusta á vel valin jólalög.
Ekki?
Sjá einnig: Vandræðalega góð kjúklingasúpa með hnetusmjöri og rauðu karrý
Indversk vetrarsúpa
1 og 1/2 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
olía
1 lítil sæt kartafla
4 gulrætur
5 msk milt karrýmauk
2 tsk karrý
4 msk tómatpúrra
1 og 1/2 dl kókosflögur
1 dós kókosmjólk
700-800 ml vatn
grænmetiskraftur
salt
svartur pipar
- Súpan er svolítið sterk og inniheldur aðallega grænmeti en gott er að steikja kjúklingabringur í bitum og setja saman við súpuna, þannig verður hún enn matarmeiri.
- Skerið rauðlauk í bita og steikið í stórum potti með olíu ásamt pressuðum hvítlauk í 5 mínútur eða þar til rauðlaukurinn verður mjúkur.
-
Afhýðið og skerið sæta kartöflu og gulrætur í teninga. Bætið teningunum í pottinn og steikið áfram í nokkrar mínútur.
- Hrærið karrýmauki, karrý og tómatpúrru saman við grænmetið ásamt kókosflögum.
- Hellið kókosmjólk og vatni í pottinn og hitið að suðu.
- Smakkið súpuna til með grænmetiskrafti, salti og svörtum pipar og látið krauma við vægan hita í 45 mínútur.
- Takið að lokum pottinn af hellunni og maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
- Magnið af grænmetiskrafti fer eftir tegund því hann er misjafnlega saltur. Þess vegna hef ég þá þumalputtareglu að setja alltaf kraftinn fyrst og svo saltið.
Ótrúlega ljúffeng súpa sem yljar í vetrar(sumar)kuldanum. Ég skora á ykkur að prófa. Eins hvet ég ykkur til þess að fylgjast með Tinnu á Facebook og fá þannig uppskriftirnar hennar beint í fréttaveituna.
Sjá einnig: Mexíkósk kjúklingasúpa
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.