Hægðatregða er ástand sem skapast þegar saur barnsins verður þéttur í sér og harður, kögglar geta myndast. Barnið á þá í erfiðleikum með að losa hægðirnar og finnur jafnvel til. Einnig líður lengra en eðlilegt getur talist á milli þess að barnið hefur hægðir.
Tengsl næringar og hægðatregðu
Börn á brjósti
Börn sem nærast á móðurmjólk eingöngu fá mjög sjaldan hægðatregðu vegna þess að mjólkin er þannig samsett að hún fellur að meltingarkerfi barnsins. Meðal efna í móðurmjólkinni eru eggjahvítu- og sykurefni sem ekki brotna niður að fullu. Auk þess eru margar bakteríur í ristli brjóstmylkinga sem brjóta niður sykur. Það veldur því að ristillinn heldur betur í sér vatni sem að öðrum kosti myndi frásogast út í líkamann. Við það verða hægðirnar mýkri og þar með auðveldara fyrir barnið að losna við þær.
Við þetta bætist að hjá brjóstmylkingum er meira um hormónið motilin sem örvar bylgjuhreyfingar í meltingarveginum. Samsetning móðurmjólkurinnar breytist með tímanum og lagar sig að aldri barnsins þannig að hún hæfir alltaf þroska þess.
Sjá einnig: Er brjóstagjöf getnaðarvörn?
Hægðavenjur barna á brjósti:
Tíðni hægða er mjög einstaklingsbundin. Sumum er eðlilegt að hafa hægðir oft á dag en aðrir hafa hægðir vikulega eða sjaldnar. Ekki er gripið til þess að gefa börnum hægðalyfið laktulosa nema löng hlé milli hægða valdi þeim óþægindum. Börn á brjósti hafa yfirleitt oft hægðir fyrstu 2-3 mánuðina og þær eru oftast gulleitar og linar með súrri lykt.
Pelabörn:
Hægðatregða er algeng hjá börnum sem nærast eingöngu á mjólk úr pela. Ástæðan er sú að samsetning kúamjólkur og mjólkurdufts er ekki sú sama og móðurmjólkurinnar. Það er einfaldlega ekki hægt að líkja eftir henni. Í þeirri fæðu sem kemur í stað móðurmjólkur þarf að vera meira af hinum ýmsu næringarefnum svo öllum þörfum barnsins sé fullnægt vegna þess að líkaminn vinnur ekki eins vel úr þeim og úr móðurmjólkinni. Samsetning fæðunnar sem fer í pelann er alltaf sú sama þótt barnið vaxi úr grasi en móðurmjólkin breytist í takt við þroska barnsins og breyttar þarfir þess. Þess vegna getur staðgengill móðurmjólkurinnar verið tormeltari en móðurmjólkin sjálf.
Hægðavenjur pelabarna:
Barn sem eingöngu nærist á öðru en móðurmjólk hefur yfirleitt sjaldnar hægðir en barn á brjósti. Helst þurfa þessi börn að hafa hægðir ekki sjaldnar en annan til þriðja hvern dag til að koma í veg fyrir hægðatregðu. Hægðirnar eru oftast þéttari í sér og grænleitari en hjá börnum á brjósti.
Sjá einnig: Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?
4-6mánaða gamalt barn sem byrjað er að neyta annarrar fæðu en mjólkur:
Tíðni, þéttleiki og útlit hægðanna fer eftir þeirri fæðu sem barnið neytir. Þegar barnið fer að neyta fæðu í föstu formi fara hægðirnar að líkjast venjulegum hægðum hvað lykt og þéttleika snertir. Sum börn finna fyrir hægðatregðu á þessum tíma. Því veldur að þarmarnir eru að venjast nýrri samsetningu fæðunnar. Hægðatregðan getur einnig stafað af vökvaskorti því þegar næringin verður þéttari í sér er hætta á að að hún innihaldi ekki nægilegan vökva.
Hægðavenjur barna sem fá fasta fæðu:
Á þessum tíma þegar barnið er að byrja að neyta fastrar fæðu er algengt að hægðavenjur breytist, að lengra líði milli hægða. Tíðnin er þó einstaklingsbundin og getur verið allt frá nokkrum sinnum á dag niður í það að 2-3 dagar líði milli þess sem barnið hefur hægðir. Form og lykt hægðanna fer að líkjast meira hægðum fullorðinna.
„Vítahringurinn”
Þegar hægðatregða er til staðar getur nokkurskonar vítahringur farið af stað. Barnið finnur fyrir sársauka við það að losna við harðar hægðir. Rifur geta myndast í endaþarminum, úr þeim getur blætt og þær valdið sársauka. Ósjálfráð viðbrögð barnsins eru að halda aftur af hægðunum til þess að forðast sársaukann. Við það hafa hægðirnar lengri viðdvöl í ristlinum, meiri vökvi frásogast og hægðirnar verða enn harðari. Þar með viðhelst hægðatregðan. Barn með hægðatregðu fær oft magakrampa vegna þess hve mikið er af hægðum í þörmunum sem eru á sífelldri hreyfingu. Þess eru dæmi að matarlyst minnki hjá þessum börnum og þau kúgist.
Aðrar ástæður hægðatregðu hjá kornabörnum
Oftast er hægðatregða hjá kornabörnum ástand sem skapast af fæðunni sem barnið neytir. En hún getur verið einkenni sjaldgæfra sjúkdóma. Yfirleitt eru þá önnur einkenni til staðar en hægðatregðan, það hægir á þyngdaraukningunni og þau þrífast ekki sem skyldi. Hér á landi er ungbarnaeftirlit gott og vel fylgst með að börnin dafni eðlilega. Ef foreldrar eru í vafa er rétt að þeir ráðfæri sig við sinn lækni. Ráðgjöfin sem hér fylgir á eftir miðast við að hægðatregðan sé ekki tengd sjúkdómsástandi.
Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um morgunógleði
Hvað get ég gert sjálf(ur)?
Nuddaðu maga barnsins.Það gefst alltaf vel að nudda maga barnsins og kvið. Best er að setja ögn af olíu á fingurna, hefja nuddið við naflann og nudda réttsælis í hring út frá honum. Að sjálfsögðu þarf að fylgjast með því hvort barninu líki nuddið og hvort það slaki á við það.
Hreyfing er góð. Reynið að hreyfa fótleggi barnsins hratt eins og það sé að hjóla. Við það kemst hreyfing á magavöðvana sem þrýsta á þarmana og auka á hreyfingu þeirra. Hvers kyns barnaleikfimi hefur sömu áhrif.
Heitt bað. Heitt bað getur leitt til þess að barnið slakar á sem auðveldar því að hafa hægðir. Í baðinu er líka hægt að nudda kvið barnsins sem hugsanlega slakar betur á í vatninu.
Þvottur og vaselín. Þvoið barninu um rassinn og smyrjið mýkjandi kremi, svo sem vaselíni, utan á endaþarmsopið. Látið hins vegar alveg vera að setja hitamæli eða eitthað svipað upp í endaþarm barnsins í þeim tilgangi að örva hægðahreyfingarnar. Það gerir meiri skaða en gagn.
Fylgið leiðarvísi með mjólkurduftinu. Fái barnið mjólkurduft er mikilvægt að fylgja nákvæmlega leiðbeiningum um skammtastærðir sem prentaðar eru á umbúðirnar. Of stórir skammtar geta leitt til hægðatregðu.
Meiri vökvi. Það má reyna að gefa barninu soðið vatn til að auka á vökvann í meltingarveginum hjá þeim yngstu. Hjá eldri börnum þarf ekki að sjóða vatnið.
Margar tegundir mjólkurdufts. Fjölmargar tegundir mjólkurdufts eru á boðstólum sem eru sambærilegar. Ráðlagt er að halda sig við sömu tegund og barnið fær í upphafi.
Grautar og ávaxta- eða grænmetismauk. Börnum sem orðin eru 4-6 mánaða gömul er hægt að gefa graut og ávaxta- eða grænmetismauk sem er trefjaríkt og vinnur því gegn hægðatregðu. Sveskjumauk er gott, það eykur hreyfingar þarmanna. Hafa ber hugfast að barnið þarf að fá nægan vökva, líka vatn. Það er allt í lagi að gefa barninu vatn úr krananum og engin þörf á að sjóða það.
Hvernig er hægt að meðhöndla hægðatregðu?
Dugi ekkert af því sem hér hefur verið nefnt er hægt að gefa barninu hægðalosandi lyf á borð við Laktúlósa (Sorbitol). Það er mixtúra sem fæst í einum styrkleika (667 mg/ml) og fæst án lyfseðils í lyfjabúðum. Rétt er að ráðfæra sig við lækni eða hjúkrunarfræðing áður en byrjað er að gefa barni Laktúlósa. Börnum á fyrsta ári er gefið 3-6 ml á dag sem deilt er í tvo jafna skammta. Laktúlósi Sorbitol) er gefinn barninu þar til hægðirnar eru orðnar eðlilegar sem yfirleitt tekur 7-10 daga. Eftir það er skammturinn minnkaður niður og gjöf lyfsins hætt. Sum börn þarfnast lyfsins í lengri tíma.