Geta hjálækningar gefið jafn góðan árangur og hefðbundnar lækningar?

Hjálækningar (skottulækningar) eru aðferðir til lækninga sem samrýmast ekki eða eru á skjön við hefðbundna læknisfræði. Árangur af skottulækningum hefur yfirleitt ekki verið sannaður og í sumum tilvikum hafa rannsóknir sýnt að hann er ekki til staðar. Rannsóknir á árangri lækninga eru erfiðar og ekki er hægt að treysta niðurstöðunum nema þær uppfylli ákveðna staðla varðandi skipulag og fjölda þátttakenda. Þetta er nauðsynlegt til að greina sauðina frá höfrunum. Ekki er hægt að taka mark á niðurstöðunum nema rannsókn hafi verið blinduð (hvorki sjúklingar né rannsakendur vita hver fær hvaða meðferð) og þátttakendur valdir eða settir í flokka af handahófi. Ekki er heldur hægt að draga neinar almennar ályktanir af vitnaleiðslum einstakra sjúklinga en slíkar vitnaleiðslur eru vinsælar þegar verið er að auglýsa gagnslausa vöru og vitað er að þeim sem vitna er iðulega greitt fyrir viðvikið.

Í mörgum tilvikum er verið að stunda hjálækningar þó að ekki hafi verið gerð ein einasta rannsókn sem bendi til árangurs. Hér má nefna sem dæmi segularmbönd, heilsusteina, andalækningar og ilmlækningar.

Sjá einnig: Hvernig verður heilsa barnanna okkar í framtíðinni?

Nálastungur

Kínverskar nálastungur eru sívinsælar en eru af tvennum toga. Nálastungur til að deyfa sársauka við aðgerðir eða annars konar skammtímaverki eru vel rannsakaðar og löngu viðurkenndar af hefðbundinni læknisfræði sem hefur að vissu marki tekið þær í sína þjónustu. Nálastungur til að lækna sjúkdóma er allt annar hlutur sem er erfiðara að átta sig á. Á síðustu 30 árum hafa verið gerðar meira en 100 rannsóknir á nálastungulækningum sem hafa verið birtar í læknisfræðitímaritum. Fæstar þessara rannsókna voru nógu vel skipulagðar og framkvæmdar, en ef þær bestu eru skoðaðar eru nokkrar sem sýna gagn af nálastungum en margar aðrar sýna ekkert gagn. Til að læknar geti gert upp hug sinn til nálastungulækninga verður að bíða niðurstaðna stærri og vandaðri rannsókna en þeirra sem gerðar hafa verið hingað til. Nálastungur eru heldur ekki hættulausar og í Evrópu og Ameríku verður talsverður fjöldi slysa á hverju ári (lifrarbólgusmit, innri blæðingar, lungnaskemmdir, o.fl.) og þekkt eru nokkur dauðsföll.

Sjá einnig: Ertu með stíflað nef flesta daga?

Homopatía

Smáskammtalækningar eða hómópatía byggir meðal annars á þeirri trú að því minni skammt sem við gefum þeim mun kröftugri verkun fáist. Sem dæmi má nefna að koffein í stórum skömmtum (t.d. í kaffi) getur hindrað svefn og ætti þess vegna að vera gott svefnlyf í mjög litlum skömmtum og því betra svefnlyf sem skammtarnir eru minni. Fyrir flesta hljómar þetta sem argasta rugl og illskiljanlegt að nokkur geti trúað slíku. Birtar hafa verið yfir 100 ritgerðir með niðurstöðum rannsókna á gagnsemi hómópatíu. Flestar þessara rannsókna eru gallaðar og of litlar en engin þeirra sem eru í betri kantinum sýnir greinilegt gagn af hómópatískum lækningum.

Grasalækningar

Grasalækningar eða jurtalækningar byggja á notkun jurta til lækninga. Hér eru skilin milli hjálækninga og hefðbundinnar læknisfræði stundum óljós enda er meira en fjórðungur þeirra lyfja sem notuð eru af læknum komin úr náttúrunni og meirihluti þeirra úr jurtum. Jurtir sem hafa verið vinsælar eru t.d. jóhannesarjurt (Hypericum eða St. Johns wort), Ginkgo biloba, ginseng, hvítlaukur og sólhattur. Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna ótvíræða verkun jóhannesarjurtar við vægu þunglyndi. Við vitum ekki hvort þessi jurt er betri eða ódýrari kostur en venjuleg þunglyndislyf en að undanförnu hafa verið að koma í ljós ýmsar aukaverkanir og verulegar truflanir geta orðið á verkunum lyfja. Ginkgo hefur orð á sér fyrir að hafa bætandi áhrif á vitglöp og blóðrásartruflanir í útlimum. Þetta er byggt á niðurstöðum fjölda rannsókna en af einhverjum ástæðum er sjaldnar fjallað um allar þær rannsóknir þar sem engin verkun fannst; hér stangast rannsóknaniðurstöður á og við vitum ekki hvað er rétt. Ginseng á að hressa gamalt fólk og þá sem eru undir miklu álagi. Þessi fullyrðing byggir á rannsóknum sem voru gerðar á áttunda og níunda áratugnum en nýrri rannsóknir gefa ekki eins skýrar niðurstöður. Margt bendir til þess að ginseng hafi létt örvandi áhrif á miðtaugakerfið í líkingu við koffein. Hvítlaukur getur verið mjög gott krydd en fullyrðingar um að hann lækki blóðfitu og blóðþrýsting, hægi á öldrun og minnki hættu á krabbameini eru ekki byggðar á vönduðum rannsóknum. Sólhattur á að örva ónæmiskerfið og gera gagn við sýkingum, en ekkert slíkt hefur sannast í vönduðum rannsóknum. Vonandi mun eitthvað af því sem við flokkum nú undir hjálækningar sanna sig í framtíðinni og verða þá tekið í sátt af hefðbundinni læknisfræði en það virðist ekki alveg í augsýn vegna tregðu á að gera vandaðar rannsóknir.

Birtist fyrst á: Heimasíða Magnúsar Jóhannsonar

 

Sjá meira á doktor.is logo

 

SHARE