Láttu drauminn rætast og losnaðu úr klóm tóbaksins.
Ertu tilbúin/n að hefja nýtt líf án tóbaks?
Það er rétt að þetta er að mjög miklu leyti spurning um hugarfar. Mikilvægt er að þú gerir þér grein fyrir því. Þú verður að byggja upp það hugarfar með sjálfum / sjálfri þér að þér muni takast þetta. Stappaðu í þig stálinu og segðu við sjálfan þig: Ég veit að ég get þetta! Mér mun takast þetta! Þú skalt líka þiggja allan þann stuðning sem þér býðst.
Góður undirbúningur er líka mikilvægur. Því betur sem þú undirbýrð þig, því meiri líkur eru á að þér takist að hætta og halda það út.
Gott er að íhuga með sjálfum þér af hverju þú vilt hætta. Skrifaðu niður á blað 10 mikilvægustu ástæður þess að þú vilt hætta að reykja. Hengdu þetta blað upp á áberandi stað t.d. á ískápinn. Þetta mun hjálpa þér að koma þér af stað og svo halda þér við efnið, þegar þú ert hætt/ur.
Síðan þarftu að ákveða daginn sem þú ætlar að hætta. Veldu góðan dag. Eftir þann dag eru reykingar ekki lengur hluti af lífi þínu. Frelsi!
Búðu til reyklaus svæði. Það þýðir að þú takmarkir staðina sem þú mátt reykja á. Hættu t.d. að reykja í bílnum og búðu til reyklaus svæði heima hjá þér. Á þennan hátt slítur þú tengslin á milli reykinga og umhverfis. Prófaðu líka að gera eitthvað annað, þegar þú ert vön / vanur að fá þér að reykja. Finndu út hvað hentar þér, hvað hjálpar þér að takast á við löngunina. Það er mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum. Því duglegri sem þú ert að brjóta upp vanann, því auðveldari verður baráttan við löngunina þegar þú ert hætt/ur.
Vertu jákvæð/ur og hrósaðu sjálfri / sjálfum þér fyrir hvert skref sem þú stígur í átt að reykleysinu.
Byrjaðu strax á að breyta um lífsstíl. Að stunda hreyfingu og borða hollan mat er líka góður undirbúningur. Það mun líka hjálpa þér þegar þú ert hætt/ur. Eins er gott að drekka mikið vatn og eiga til hollt snakk í skápnum svo maður detti ekki í nammið.
Sumir þurfa meiri stuðning s.s. námskeið eða meðferð í gegnum símaráðgjöf. Svo getur notkun nikótínlyfja eða nikótínlausra lyfja gagnast sumum.
Hringdu endilega í okkur hjá símaráðgjöfinni Ráðgjöf í reykbindindi – 8006030 og við veitum þér frekari upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.
Gangi þér vel!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.