Fæðuóþol og ofnæmi geta horfið á meðgöngu!

Um daginn heyrði mamman ansi magnaða sögu af tveimur þunguðum konum.  Önnur var með mjólkuróþol og hin með ofnæmi fyrir hnetum, en þegar þær gengu með börnin sín fundu þær ekki fyrir óþolinu og ofnæminu. Sú sem er með mjólkuróþol fær að finna vel fyrir því ef einhver matvara sem hún borðar er með snefilmagn af mjólkurafurð í, maginn fer í algjöran hnút.  Það varð svo þannig að hún gat borðað jógúrt og ís eins og henni lysti alla meðgönguna.  Það fór svo allt í fyrra horf um leið og hún steig út af fæðingadeildinni.

Sjá einnig: Meðgangan er ferðalag – Einstaklega skemmtilegt myndband

Hin konan, sú sem var með ofnæmi – meira að segja bráðaofnæmi fyrir hnetum! Hún var alltaf með adrenalínpenna á sér til að vera í stakk búin ef hún óvart borðaði eitthvað með hnetum í.  Það var hins vegar þessi sterka matarlöngun (cravings) á meðgöngu sem fékk hana til að smakka hnetu m&m, en það gat hún aldrei borðað vegna ofnæmisins.  Hún gat bara ekki staðist freistinguna, fyrst prófaði hún eitt m&m og leyfði smá tíma að líða.  Ekki fann hún fyrir ofnæmisviðbrögðum svo hún fékk hún sér annað og á endanum borðaði hún allan pokann.  Mamman mælir nú ekki með því að þungaðar konur geri tilraunir sem þessar á þessum viðkvæma tíma sem meðgangan er, það er mjög ólíklega þess virði en engu að síður fannst mér þetta áhugavert og ákvað að skoða þetta frekar.    

Eftir smá leit á Google komst ég að því að það er ekki óalgengt að þungaðar konur finni fyrir breytingu á ofnæmum og óþoli sem þær þjást af dags daglega.  Til að geta leyft fóstri að vaxa í líkama kvenna fer hormónastarfssemin á flug.  Talið er að hormónastarfssemi þungaðrar konu getur bælt ónæmiskerfið þannig að ofnæmið/óþolið hverfi tímabundið.  Það er þó ekki eingöngu í átt til hins betra því hormónastarfssemin getur einnig haft þau áhrif á ónæmiskerfið að ný ofnæmi uppgötvast þó það sé ekki hægt að rekja beint ofnæmið til meðgöngunnar sem slíkrar.

Sjá einnig: Frjóofnæmi – Einkenni & meðferð

Algengara er að þær konur sem eru með óþol finni mun á sér á meðgöngu, en þær sem eru með ofnæmi.  Bráðaofnæmi geta einnig verið stórhættuleg, en einkennin geta verið, mæða, bjúgur í andliti, ógleði, ofsakláði, uppköst, niðurgangur, öndunarvegurinn þrengist og lár blóðþrýstingur.  Þannig að ef þú ert með greint ofnæmi fyrir matvælum, sérstaklega bráðaofnæmi alls ekki taka áhættuna á að prófa fæðuna á meðgöngu.

 

Heimildir: Your Parenting & News Health (aðallega samt sagan af götunni)

SHARE