SKÓLASLIT! – En hvað áttu allir þessir baráttusöngvar að merkja?

Ég verð alltaf eilítið meyr þegar skólaslit ber upp. Að vísu hef ég aldrei verið viðstödd norsk skólaslit fyrr en í gær. Mér fannst þetta allt eilítið einkennilegt. Að vísu settu börnin upp leikþætti, en náttúruhamfarir, striðshörmungar og sú blessun að hafa fæðst á Norðurlöndunum kom mikið við sögu á sviði barnaskólans í gærkvöldi.

Já já … mér leið pínu svona þegar skólaslit runnu upp klukkan sex í gærkvöldi: 

article-2273043-17549B0B000005DC-197_968x666

Kennarateymið söng baráttusöngva fyrir vannærðu börnin í Afríku, skólastjórinn sagði af sér við hátíðlega athöfn – nýr stjórnandi skólans var kynntur til sögunnar við hátíðlega athöfn – allir tóku sína eigin pylsupakka með og ég varð skotin í strák. Allt upp á nýtt.

Mér finnst stundum dálítið skrýtið að vera búsett í Noregi.

Nú er næstum bara kortér í brottför, vegabréf sonar míns er útrunnið – VISA kortið er ekki enn komið í leitirnar, ég búin að þræða alla tónlistarsögu undangenginnar aldar á TIDAL og svei mér þá ef ég keypti ekki bara flugmiða til Spánar – heilum sólarhring áður en ég fæ afhenta lyklana að einbýlishúsinu í Alicante.

Já. Ég hef farið með hlutverk heilagrar Beyoncé á foreldrafundum í vetur: 

beyonce-grammys-1

Ég hef vissulega enga hugmynd um hvers vegna börnin fóru með leikþætti um náttúruhamfarir, striðshörmungar í öðrum löndum og hlutskipti munaðarlausra við skólaslit í gær. Enn meira kom mér á óvart að skólastjórinn skyldi segja af sér; varð hugfangin af ókunnum karlmanni og fékk ofbirtu í augun af öllum blómvöndunum sem bar við sólina.

Ægilega fallegt allt saman. En hvað áttu þessir baráttusöngvar kennarateymisins að merkja? 

Auðvitað harðneitaði Rassi litli svo að stíga upp á svið með bekknum til að syngja lokaatriðið – sem gerði að verkum að ég sat með fimmtíu kílóa drenginn í fanginu í heilan klukkutíma. Sólin ætlaði hreinlega allt að æra og einhvers staðar á lúnum stólgarminum sat ég, eins og klessa og talaði á norsku; lýsti yfir þakklæti mínu, undrun og gleði yfir sumrinu sem ætlar loks að láta sjá sig. Svo ók ég sem leið lá í matvöruverslunina og keypti mjólkurpott á 350 íslenskar krónur.

Já, krakkar mínir. Það er ekki ókeypis að búa í útlandinu. Svo fæ ég heimþrá líka … 

beyonce-crying

Einhvers staðar er þó sumarið farið að glenna sig framan í Norðurlandabúa, steikjandi skandinavíumollan flatmagar yfir veröndinni og örmagna sit ég og rita pistil, þjökuð af rammíslenskri heimþrá og hugsa hlýlega til norðurgarrans sem rýkur í fangið á mér þegar við lendum á Keflavíkurflugvelli í lok júlí.

Einmitt. Við Rassi ætlum heim í nokkra daga.

Ég er enn að reyna að kryfja til mergjar því norsku grunnskólabörnin fóru með leikþátt um náttúruhamfarir á sviði við skólaslit í gærkvöldi, af hverju skólastjórinn sagði af sér við hátíðlega athöfn og hvað það á eiginlega að þýða að miðaldra kona verði ástfangin af ókunnum karlmanni við útigrill í norsku smáþorpi þegar síst skyldi.

Hugsið hlýlega til okkar, dúllurnar mínar, þegar þið dragið fram sparistellið í sumar. Gætið endilega að sæti fyrir okkur mæðginin og verið því viðbúin að ég spretti fram undan póstkassanum – gleiðfætt, skælbrosandi og íklædd bleikum náttbuxum síðla sumars.

Verður ekki örugglega lúðraþytur við heimkomu í sumar? 

SHARE