Ég hef oft lesið um rannsóknir sem gerðar hafa verið á systkinahópum, stundum hefur komið fram að miðjubarn væri greindast en oftar en ekki er talað um að elsta barn hafi hæstu greindavísitöluna. Ég er elst í 4 manna systkinahóp svo að nýjustu rannsóknir koma ansi vel út fyrir mig en í nýrri rannsókn sem greint var frá á fréttavef BBC, kemur fram að elsta barn fái fleiri stig í greindavísitöluprófi en þau yngri. Í rannsókninni segir:
“Börn, sem alin eru upp sem elsta barn í systkinahópi eru líklegri til þess að hafa hærri greindavísitölu heldur en systkini þeirra.”
Talað er um að eldri börnin læri af því að kenna yngri systkinum sínum og kemur það fram að elsta barn, eða barn sem missir elsta systkini sitt og verður elst, fengu fleiri stig í greindavísitöluprófi.
Þessar niðurstöður eru fengnar úr rannsókn sem gerð var með því að skoða rúmlega 250.000 norska karlmenn.
Ég er alveg viss um að á þessu eru undantekningar en það væri gaman að mæla þetta og fá að sjá hversu mikill munur er á greindavísitölu hjá nokkrum systkinum. Ég veit í það minnsta að ég hefði mikla samkeppni í mínum systkinahóp þar sem yngri systir mín er algjör snillingur og háskóladúx og bræður mínir eru ekki af verri endanum heldur.